Á þessu ári er áætlað að heildarútgáfa ríkisbréfa verði um 180 milljarðar króna. Kemur þetta fram í tilkynningu Lánamála ríkisins frá 30. desember síðastliðnum.
Gunnar Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, segir að útgáfuáætlunin sé í hærri kantinum miðað við væntingar markaðsaðila, sem lágu sennilega nærri 140-160 milljörðum króna.
„Áætlunin ætti samt ekki að koma á óvart í ljósi endurmats á afkomu ríkissjóðs undir lok síðasta árs þar sem heimild til lántöku var hækkuð í 190 milljarða króna,“ segir Gunnar.
Hann kveðst ekki hafa stórar áhyggjur af áætluninni þetta árið frekar en fyrri ár.
„Ríkinu mun takast ætlunarverk sitt en á réttum kjörum. Þau munu aðlagast að því þar sem er stemning fyrir nýjum bréfum á árinu, að teknu tilliti til þátta eins og vaxta-, verðbólgu- og hagvaxtarvæntinga,“ segir Gunnar.
Það sem athygli vekur er að í útgáfuáætluninni segir að til greina komi að mæta fjárþörf ríkissjóðs að hluta til með hagnýtingu erlendra innstæðna hjá Seðlabankanum. Í því getur falist bæði gengisáhætta og endurfjármögnunaráhætta.
Ríkissjóður átti í lok nóvember 2024 á viðskiptareikningi í Seðlabanka Íslands um 71 milljarða króna. Á sama tíma átti ríkissjóður einnig um 263 milljarða króna að jafnvirði í innstæðum í erlendum gjaldeyri hjá Seðlabankanum. Erlendar innstæður hafa hækkað um 67 milljarða króna frá áramótum, einkum vegna útgáfu á sjálfbærum skuldabréfum á árinu, sem nam mun hærri fjárhæð en skuldabréf í evrum sem var á gjalddaga í júní 2024.
Það sem vekur ugg meðal þeirra markaðsaðila sem ViðskiptaMogginn ræddi við er ný ríkisstjórn sem er óskrifað blað. Slíkt orðalag um nýtingu innistæðna í Seðlabankanum í Lánamálum ríkisins er ekki nýtt af nálinni og hingað til hafa þær ekki verið notaðar. Freistingin er hins vegar mikil að seilast í það fé en það getur haft mjög slæmar afleiðingar. Skemmst er að minnast þess að þegar bandaríski bankinn Silicon Valley varð gjaldþrota hækkaði erlenda krafan mikið og kjör bankanna á erlendu lánsfé hækkuðu reyndar svo skarpt að hægt er að segja að þeir hafi misst aðgengi tímabundið.
„Oft má heyra kallað eftir því að þessar innstæður séu nýttar en ríkið hefur hingað til verið íhaldssamt þegar kemur að því. Erlend fjármögnun er á lágum vöxtum en það þarf að taka gengisáhættuna með í reikninginn. Krónan hjálpar okkur að aðlagast áföllum með því að veikjast og oft fylgir verðbólga í kjölfarið. Ég held að það sé forsenda þess að ríkissjóður geti stutt kerfið í gegnum áföll að skuldir ríkissjóðs hækki ekki sjálfkrafa í niðursveiflum,“ segir Gunnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.