JBT Marel var tekið til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands og að því tilefni var Kauphallarbjöllunni hringt í evrópskum höfuðstöðvum JBT Marel síðasta þriðjudag.
Árni Sigurðsson aðstoðarforstjóri (e. President) sameinaðs félags JBT Marel segir að um sé að ræða mikilvægan áfanga og fyrirtækið sé stolt af því að vera einnig skráð á íslenska markaðinn.
„Marel á sér um 40 ára sögu og hefur verið eitt stærsta skráða félagið á íslenska markaðnum frá 1992. Sameinaða félagið JBT Marel verður leiðandi á sínu sviði, styrkleikar félaganna falla vel saman og við getum gert mun meira saman en í sitthvoru lagi,“ segir Árni.
Brian Deck forstjóri JBT Marel segir mörg tækifæri felist í að vera einnig skráð á íslenska markaðinn.
„Það er mikilvægt að sameinað félag njóti stuðnings núverandi hluthafa Marel bæði lífeyrissjóðanna og annarra, í því felast mikil tækifæri til framtíðar. Það er mikilvægt að halda því áfram sem vel hefur verið gert innan Marel en jafnframt grípa ný tækifæri,“ segir Brian. Árni bætir við að hluthafar Marel hafi sýnt mikinn stuðning í gegnum árin og haft trú á þeirri vegferð sem félagið hefur verið á enda hefur félaginu sannarlega vaxið fiskur um hrygg.
Aðeins 5-10% skörun
Brian segir að það mikilvæga við samrunann sé að JBT annars vegar og Marel hins vegar bæti hvort annað upp með tilliti til vöruframboðs og endamarkaða.
„Það er einungis 5-10% skörun í okkar starfsemi og það býður upp á ýmis sóknarfæri og við að marka félaginu stefnu. Þetta ferli hefur verið krefjandi en við höfum mikla trú á þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir félagið,“ segir Brian.
Árni segir að það sem helst hafi þurft að huga að í tengslum við samrunann sé mannauðurinn.
„Mannauðurinn er mjög mikilvægur þegar kemur að því að sameina tvö fyrirtæki. Það er mikilvægt að allir rói í sömu átt,“ segir Árni. Samhliða skráningunni á markað var kynnt ný sýn og gildi fyrir félagið og næstu dagar fara í að heimsækja starfstöðvar sameinaðs félags víðs vegar um heiminn og hitta starfsfólk.
Tækifæri á tekju og kostnaðarhliðinni
Spurðir hvar þeir sjái tækifæri til samlegðar segir Árni að þau liggi bæði á tekju- og kostnaðarhliðinni.
„Það eru tækifæri fyrir JBT Marel að ná til breiðari hóps viðskiptavina og á öðrum mörkuðum sem Marel er ekki á í dag, t.d. í drykkjarvöru, ávöxtum og grænmeti. Við ætlum að grípa tækifærin og ég er mjög spenntur fyrir því sem framundan er,“ segir Árni.
Brian bætir við að hann sjái tækifæri í að byggja á styrkleikum félagsins á Íslandi.
„Sem dæmi hefur JBT ekki haft neina starfsemi á Íslandi og við ætlum að leita leiða til að sameina okkar kraftmikla hóp starfsfólks og tæknina en slíkt mun taka tíma. Áfram verður öflug starfsemi á Íslandi þar sem við getum áfram notið sérfræðiþekkingar innan félagsins sem og stuðnings frá sterkum hluthafahópi. Við hlökkum til að halda áfram vegferð okkar á íslenska hlutabréfamarkaðnum,“ segir Brian.
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.