Viðskiptaráð hefur gefið út umsögn við skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem gefin var út í nóvember á síðasta ári og bar heitið ,,Kolefnismarkaðir – áskoranir og tækifæri í íslensku samhengi“.
Skýrslan hefur það að markmiði að styðja við þróun kolefnismarkaða á Íslandi og auðvelda hagaðilum að nýta þau tækifæri sem kolefnismarkaðir bjóða upp á. Í henni er jafnframt að finna ýmsar tillögur, sem dæmi að íslensk stjórnvöld móti stefnu um þátttöku í alþjóðlegum kolefnismörkuðum og bætt umgjörð og regluverk í viðskiptum með kolefniseiningar.
Í skýrslunni er sérstaklega farið yfir stöðu kolefnismarkaða hér á landi og fjallað um hvort íslensk stjórnvöld gætu nýtt sér kolefnismarkaði til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Kemur fram í orðalagi skýrslunnar að meginþungi hennar sé lagður á valkvæða kolefnismarkaðinn, sem hefur þróast hratt á undanförnum árum. Einnig sé fjallað um alþjóðlegt samstarf um viðskipti með kolefniseiningar á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins.
Ráðið ítrekar að loftslagmarkmið stjórnvalda hafi veruleg áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja og beinn eða óbeinn kostnaður vegna losunar gróðurhúsalofttegunda dragi úr möguleikum til fjárfestinga og nýsköpunar. Því séu tillögur um skoðun skattalegrar umgjarðar rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum með tilliti til mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar jákvæðar.
Meðal tillagna stjórnvalda er að banna útflutning á alþjóðlegum kolefniseiningum (ITMOs) frá Íslandi sem hefðu neikvæð áhrif á losunarbókhald Íslands. Viðskiptaráð telur rétt að stjórnvöld stígi hér varlega til jarðar og rökstyðji betur þessa tillögu enda geti markaður með kolefniseiningar verið tekjuaflandi fyrir íslensk fyrirtæki.
Í núverandi umhverfi eru helstu áskoranir fyrirtækja þær að regluverkið er óljóst, sem dæmi hvað sé kolefniseining, hvaða einingar megi kaupa, hvaða vottanir séu teknar gildar og hvenær fyrirtæki hafi gert nóg til að draga úr losun og rétt sé að kaupa kolefniseiningar.
María Guðjónsdóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs segir í samtali við Morgunblaðið það vera skiljanlegt að reynt sé að greina áskoranir og tækifæri þegar kemur að kolefnismörkuðum
„Fyrirtæki þurfa nánast öll með beinum eða óbeinum hætti að lúta hinum ýmsum kvöðum á sviði umhverfis, loftslags og sjálfbærni. Það er þó mikilvægt að útfærslur tillagnanna verði til þess að einfalda og skýra starfsumhverfið en komi ekki á enn einu regluverkinu til viðbótar við þau fjölmörgu sem nú þegar eru í gildi eða liggur fyrir að innleiða á grundvelli EES-samningsins. Á meðal tillagna er t.d. einhvers konar kolefnisskrá, viðskiptamarkaður með kolefniseiningar og svo skráning á öllum kaupum opinberra aðila á kolefniseiningum, sem maður spyr sig hvort eigi að kaupa kolefniseiningar yfirhöfuð, hvað þá á meðan regluverkið er svona óskýrt.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu í morgun.