Tala sama tungumál og viðskiptavinir

Hjálmar segir að Gunnar Felixson, fyrrverandi forstjóri TM, hafi oft …
Hjálmar segir að Gunnar Felixson, fyrrverandi forstjóri TM, hafi oft og iðulega talað um að orðið viðskiptavinur væri ekki að finna í nokkru öðru tungumáli en íslensku. Morgunblaðið/Karitas

Í nýrri þjónustukönnun Prósents á fyrirtækjamarkaði hvað varðar tryggingafélög mældist TM með langhæsta meðmælaskor tryggingafélaganna hjá stærri fyrirtækjum, eða 37. VÍS mældist með 17 og Vörður og Sjóvá með 9.

Hjá stærri fyrirtækjum (heildarvelta 1.000 milljónir eða meira) mældist TM marktækt hæst á öllum spurningum könnunarinnar, þ.e. hvað snertir heildaránægju, þjónustuhraða, ánægju með frumkvæði, traust og sem fyrsti valkostur.

Hjálmar Sigurþórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og staðgengill forstjóra hjá TM, segir aðspurður í samtali við ViðskiptaMoggann að lykillinn sé stöðugleiki og mikil þekking starfsfólks. „Það er mjög breið þekking hér innanhúss. Hér erum við til dæmis með vélstjóra og fólk með skipstjórnarréttindi, starfsmenn sem geta talað sama tungumál og viðskiptavinirnir,“ segir Hjálmar.

Hann segir að starfsaldur sé frekar hár í fyrirtækjaþjónustunni. Það sé kostur og ákveðið lím í starfseminni. „Svo erum við með mannskap sem hefur feikilega mikinn áhuga á verkefnunum. Viðskiptavinir þeirra eru ekki bara kennitölur. Það er mjög algengt að við byrjum að tryggja fyrirtæki á fyrstu stigum starfseminnar og svo halda viðskiptin áfram. Okkur finnst skipta miklu máli að geta lagt okkar lóð á vogarskálar og gera gagn.“

Hjálmar rifjar upp orð fyrrverandi forstjóra TM, Gunnars Felixsonar. „Hann talaði oft og iðulega um að orðið viðskiptavinur væri ekki að finna í nokkru öðru tungumáli en íslensku. Þetta er fallegt orð og þetta eru sannarlega vinir okkar.“

Hjálmar er sjálfur annálaður fyrir þjónustulund sína. „Ég kann voðalega lítið á að slökkva á símanum. Ég er aldrei „out of office“. Það er bara svo gaman að finna að það sem maður gerir skipti máli. Þetta er æðislegur bransi.“

TM hefur alltaf haft umtalsverð umsvif á fyrirtækjamarkaði á Íslandi að sögn Hjálmars. „Ástæðan fyrir því er grunnurinn okkar. Fyrirtækið er stofnað af fyrirtækjum innan vébanda Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á sínum tíma - sjávarútvegsfyrirtækja.“

Reglulegar breytingar

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að Landsbankinn festi kaup á TM á síðasta ári en kaupin bíða samþykkis samkeppnisyfirvalda.

„Eignarhald TM og staðsetning hefur breyst nokkrum sinnum á öldinni. Nú erum við hér í Katrínartúni eftir að Kvika og TM sameinuðust árið 2020. Fyrir þann tíma vorum við í Síðumúla frá 2009 til 2021. Þegar salan til Landsbankans gengur endanlega í gegn er útlit fyrir að við flytjum á ný í miðbæinn, en við vorum í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti frá árinu 1956 til 2009. Allt fer í hringi,“ segir Hjálmar og brosir en hann hóf sjálfur störf hjá fyrirtækinu árið 1988.

Núverandi forstjóri TM er Birkir Jóhannsson. „Hann tók við í apríl 2023. Hann hefur komið inn með mjög ferska vinda, einkum hvað varðar áherslur í þjónustu. Hann hefur mjög áhugaverða nálgun á stefnumótun, öðruvísi en maður hefur kynnst áður.“

Hjálmar segir að ársfjórðungslega séu sett fram markmið og mælistikur og í lok fjórðungsins er árangurinn grandskoðaður. „Þetta ýtir á alla að gera betur og er mjög árangursrík aðferð. Þetta hefur einnig skapað mjög skemmtilega stemningu.“

Hjálmar hefur unnið með öllum forstjórum TM frá upphafi. „Fyrsti forstjórinn, Gísli Ólafsson, var merkilegur maður. Ég náði þremur árum með honum en hann hætti 1991. Næstur kom Gunnar og var til 2005. Við af honum tók svo Óskar Magnússon og árið 2007 kom Sigurður Viðarsson í forstjórastólinn. Þetta eru allt ólíkir persónuleikar en maður hefur lært margt gagnlegt af þeim öllum.“

Stöðnun í samfélaginu

Þegar Hjálmar er beðinn að líta aðeins til baka á starfsemina segir hann að árin sín hjá TM séu kaflaskipt. „Upp úr 1990 og til aldamóta ríkti mikil stöðnun í samfélaginu. Sameining við Tryggingu árið 1999 reyndist svo mikil vítamínsprauta. TM varð stórt félag og starfsmönnum fjölgaði mikið.“

Kaflaskil urðu árið 2005 þegar Óskar varð forstjóri. „Við eignumst dótturfélag í Noregi á þessum tíma.“

Aftur verða kaflaskil í lok 2007 þegar fjárfestingarfélagið FL Group kaupir TM og tekur það af hlutabréfamarkaði. „Fyrirtækið hafði verið skráð í kauphöll í tíu ár. Þarna kemur Sigurður Viðarsson inn og aftur verða kaflaskil.“

Ekki leið á löngu uns efnahagshrunið 2008 hleypti öllu í bál og brand. „Okkur tókst að sigla vel í gegnum þann skafl, öfugt við marga aðra.“

Upp úr hruni tóku við ágætis ár að sögn Hjálmars. „TM hefur að meðaltali alltaf gengið mjög vel. Það hefur ætíð verið vel rekið og með gott starfsfólk.“

Árið 2020 sameinast TM og Kvika. „Það var nýr veruleiki hjá okkur að verða hluti af fjármálasamsteypu. Allar breytingar gefa manni eitthvað. Við þurftum að skoða hlutina frá öðrum sjónarhornum. Alls konar kvaðir fylgja því að vera dótturfélag banka, en það er ekkert sem skaðar okkur. Það er frekar að það bæti starfsemina.“

TM heldur áfram að vera hluti af fjármálasamsteypu í næstu framtíð gangi kaup Landsbankans eftir. „Það eru mörg falleg dæmi í Evrópu um að það sé farsælt að flétta saman banka og tryggingafélag,“ útskýrir Hjálmar.

Engin samtöl

Hjálmar segir enn óvíst nákvæmlega hvernig TM muni falla inn í rekstur Landsbankans. „Í raun hafa engin samtöl átt sér stað. Við verðum að bíða eftir úrskurði SKE áður en leyfilegt er að ræða saman.“

En hvernig líst honum á að verða „ríkisstarfsmaður“?

„Ég hef nú ekki lesið annað í áform stjórnmálamanna en að á einhverjum tímapunkti verði bankinn seldur, að hluta eða öllu leyti. Þannig að mögulega er þetta eignarhald bara tímabundið. Það eru góð dæmi frá nágrannalöndum eins og Noregi þar sem bankar eru í blandaðri eigu ríkis og einkaaðila.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK