Mogens Mogensen forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum bendir á í samtai við ViðskiptaMoggann að uppgjör skráðra félaga fyrir þriðja ársfjórðung 2024 hafi flest verið mjög góð og gera má ráð fyrir fínum uppgjörum fyrir fjórða ársfjórðung.
„Rekstrarhorfur eru einnig góðar fyrir árið 2025 og má almennt búast við nokkrum rekstrarbata hjá flestum félögum á milli ára. Þá er verðlagning skráðra félaga heilt yfir hófleg og því má búast við spennandi tímum á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu 2025. Það sem helst gæti haft neikvæð áhrif á stemninguna á innlendum hlutabréfamarkaði væri skörp lækkun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Ekki er hægt að gera lítið úr þeirri ókyrrð sem er á alþjóðavettvangi, hvort sem er á pólitíska sviðinu eða tengt stríðsátökum,“ segir Mogens.
Magnús kveðst vera bjartsýnn á að árið 2025 verði innlenda hlutabréfamarkaðnum hagfellt.
„Ég er bjartsýnn á að við sjáum 3-5 nýskráningar. Auðvitað fara markaðsaðstæður þó eftir því hvernig okkur tekst til með að ná böndum á verðbólguna og hversu hratt stýrivextir lækka. Ég er þó bjartsýnn á að það takist vel og það myndist gott umhverfi fyrir fleiri nýskráningar. Með lækkun vaxta skapast hvatar fyrir almenning til að fjárfesta í meiri mæli í hlutabréfum og draga úr innstæðum á vaxtareikningum,“ segir Magnús.
Spurður hvers vegna hann sé bjartsýnn á svo margar nýskráningar á árinu segir Magnús að hann byggi það á þeim samtölum sem hafa átt sér stað við forsvarsmenn fyrirtækja.
„Við eigum í samtölum við allmörg fyrirtæki. Eins og komið hefur fram í fréttum stefna til að mynda Coripharma og Samkaup á skráningu, síðan eru ferðaþjónustufyrirtæki og nokkur önnur fyrirtæki að íhuga slíkt, en tímasetningar liggja ekki fyrir. Ég tel fimm nýskráningar ekki óraunhæfar ef góðar markaðsaðstæður skapist á árinu,“ segir Magnús.
Hann segir að það eigi auk þess eftir að koma í ljós hvernig ný ríkisstjórn ætli að snúa sér í einstökum málum er snúa að markaðnum.
„Það yrði markaðnum til framdráttar að salan á Íslandsbanka myndi klárast. Ég er bjartsýnn á að það gerist. Ég vona að við munum eiga gott samtal við nýja ríkisstjórn,“ segir Magnús.
Hann bætir við að auk þess sé mikilvægt að það verði fjölbreyttari flóra fyrirtækja á markaðnum. Tilkoma ferðaþjónustufyrirtækja í Kauphöllina myndi efla markaðinn til muna.
„Það er einnig mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna sjálfa. Greinin nýtir ekki tækifærin til fulls nema með aðstoð markaðarins. Það á bæði við fjármögnun og sameiningar. Að fá fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki inn gerir markaðinn meira aðlaðandi og Kauphöllin endurspeglar með því betur íslenskt efnahagslíf,“ segir Magnús.
Hann segir að forsendur séu fyrir því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn geti vaxið myndarlega á næstu árum.
„Ef nýskráningarbylgjan sem hófst árið 2021 heldur áfram og við sjáum 4-5 skráningar á ári í nokkur ár þá mun markaðurinn vaxa umtalsvert. Maður bindur vonir við að þróunin á markaði verði hagfelldari næstu þrjú árin en síðustu þrjú árin. Það er líka mikilvægt að annað í umgjörðinni styðji við aukna þátttöku almennings,“ segir Magnús og nefnir í því samhengi skattaívilnanir og aukið frelsi fólks til ráðstöfunar viðbótarlífeyrissparnaðar.
„Ég tel að við ættum sérstaklega að horfa til Svíþjóðar í þessum efnum en þar eru t.d. myndarlegir skattalegir hvatar fyrir fólk að fjárfesta í hlutabréfum,“ segir Magnús.
Spurður hvort hann telji pólitískan vilja til að ráðast í þær breytingar segist hann vera sæmilega bjartsýnn.
„Ég tel enga ástæðu vera til að vera svartsýnn áður en við eigum samtalið. Íslenskur hlutabréfamarkaður er mikilvægur fyrir fjármögnunarumhverfið og þar með efnahagslífið og ég tel að stjórnmálamenn átti sig á því,“ segir Magnús.
Greinin birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.