Rúmlega 2,2 milljónir ferðamanna komu til Íslands á síðasta ári. Um er að ræða 2,2% fjölgun ferðamanna frá því árið 2023.
Gert er ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um 1,7% í ár miðað við árið í fyrra og er spáð að í kringum 2,3 milljónir ferðamanna komi til Íslands á árinu. Árið eftir er spáð að 2,5 milljónir ferðamanna komi hingað til lands.
Þetta kemur fram í nýrri spá Ferðamálastofu um fjölda erlendra ferðamanna á næstu árum.
Í tilkynningu frá Ferðamálastofu segir að fyrsti ársfjórðungur hafi reynst greininni erfiður meðal annars vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga og neikvæð fréttaumfjöllun erlendis um hamfarirnar olli miklum afbókunum.
Niðursveiflan kom þó ekki fram fyrr en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs og sýndu allir mánuðir fjórðungsins samdrátt á milli ára. Á þriðja ársfjórðungi komst þó aftur jafnvægi í greinina en á þriðja ársfjórðungi ársins eru stærstu ferðamánuði ársins, júlí og ágúst, að því er segir í tilkynningu.
Á síðasta ársfjórðungi ársins varð umtalsverð fjölgun ferðamanna á landinu milli ára eða í kringum 6% sem skilaði sér í fjölgun erlendra ferðamanna miðað við árið í fyrra.
„Ákveðin teikn eru á lofti um að draga muni eitthvað úr fjölda flugferða til og frá landinu á þessu ári, miðað við í fyrra. Bæði hafa sum erlend flugfélög breytt fyrri áætlunum um flug til landsins og Play hefur tilkynnt um verulega breytingu á viðskiptalíkani félagsins, sem m.a. felur í sér samdrátt á flugi til og frá Íslandi,“ segir jafnframt í tilkynningu frá Ferðamálastofu.
Intellecon, spágerðaraðili Ferðamálastofu, gerir hins vegar ráð fyrir því að á næsta ári og árin á eftir muni komast á jafnvægi á flugi til og frá landinu í samræmi við eftirspurn.