Góður skriður á verkefninu

Þorgerður Arna Einarsdóttir framkvæmdastjóri á skrifstofu sinni í gamla Blikastaðabænum.
Þorgerður Arna Einarsdóttir framkvæmdastjóri á skrifstofu sinni í gamla Blikastaðabænum. Morgunblaðið/Eyþór

Kynningarfundur á tillögu í vinnslu, þ.e.a.s. forkynning, fyrir fyrsta áfanga Blikastaðalands verður haldinn fyrir íbúa og almenning í Hlégarði í Mosfellsbæ í dag, mánudag. Á kynningunni gefst tækifæri til að koma með ábendingar við skipulagið og þær framkvæmdir sem í vændum eru, en Blikastaðaland ehf., félag í eigu Arion banka, stendur fyrir uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis á landinu.

Forkynning er hluti af skipulagsferli og hleypir fólki og fagaðilum fyrr að verkefnum, þar sem þeim gefst kostur á að koma með ábendingar við tillöguna, sem nýtast til frekari mótunar hennar.

Stefnt er að því að kynna fullmótað deiliskipulag í lok árs 2025. Í framhaldi verður farið í innviðauppbyggingu og að lokum íbúðauppbyggingu sem gæti hafist 2027.

Mikill vilji til verka

„Það er mikill vilji til verka núna. Það er kominn góður skriður á verkefnið. Sveitarfélagið hefur gefið allt sitt í þetta og samstarfið hefur gengið mjög vel. Bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar eru stútfullar af hæfileikaríku fólki sem er annt um sveitarfélagið og vill veg og vanda þess sem mestan,“ segir Þorgerður Arna Einarsdóttir framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf. í samtali við Morgunblaðið.

Eins og sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu er Blikastaðaland eitt stærsta óbyggða land á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að skapa eftirsóknarvert, blandað og spennandi hverfi með áherslu á nærumhverfið, náttúru, samgöngur og þjónustu. Hverfið mun innihalda fjölbreytt húsnæði í blandaðri byggð sem rísa mun í kringum gamla Blikastaðabæinn sem gerður verður upp og gæddur lífi. Mosfellingurinn og skemmtikrafturinn Dóri DNA vinnur hugmyndavinnu fyrir gamla bæinn og framtíð hans. „Blikastaðabærinn verður hjartað í hverfinu með borgarlínustöð, verslanir og veitingahús m.a.“

Víðtækt samráð lykilatriði

Þorgerður segir að víðtækt samráð sé lykilatriði í allri þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í tengslum við Blikastaðalandið. Fundurinn á mánudag sé hluti af því. „Það er mikilvægt að tryggja rétta mönnun teymisins strax í upphafi. Það er ekki nóg að vera með hóp af hæfum sérfræðingum ef engir geta talað saman. Teymið þarf að búa yfir sköpunarkrafti, gagnrýnni hugsun og hæfileikanum til að setja sig í spor annarra og sjá verkefnið út frá mörgum ólíkum sjónarhornum,“ útskýrir Þorgerður.

Íslenska hönnunarstofan Nordic Office of Architecture leiðir vinnu við gerð skipulags svæðisins og myndar teymi hönnuða með SLA, danskri landslagsarkitektastofu, og verkfræðistofunni EFLU.

Þorgerður segir að náttúran spili stóra rullu í hönnun svæðisins.
Þorgerður segir að náttúran spili stóra rullu í hönnun svæðisins. Tölvuteikning/Nordic Office of Architecture

SLA er rómuð og eftirsótt stofa á alþjóðavísu eins og Þorgerður útskýrir. „SLA er leiðandi í hönnun þegar kemur að samspili manns og náttúru. Þetta er í fyrsta skipti sem þau vinna að verkefni hér á landi. Aðkoma þeirra að verkefninu gefur því nýja vídd. Hún er til marks um áherslur okkar og metnað í að skapa aðlaðandi umhverfi þar sem samspil náttúru, mannlífs og byggðar er sett í forgrunn. Varðveisla og efling náttúrugæða og sögu er grunnstef í skipulagi hverfisins sem hófst á skilgreiningu og afmörkun náttúrugæða, ofanvatns, grænna geira, Blikastaðabæjarins, skólalóðar o.fl. Þetta slær tóninn fyrir byggðamynstur svæðisins.“

Líkist vesturbænum

Spurð nánar um hvaða byggðamynstur fólk megi eiga von á að sjá á Blikastöðum segir Þorgerður að það muni líkjast gamla vesturbænum í Reykjavík. „Það var mikil áhersla lögð á blandaða byggð allt frá einbýlishúsum, par- og raðhúsum yfir í fjölbýlishús. Þá var mikið lagt upp úr mannlegum skala. Fyrir vikið eru öll fjölbýli 2-4 hæðir en einstaka hornhýsi ná 5 hæðum. Þá er einnig lagt mikið upp úr töluverðu uppbroti í byggðinni og að birta verði sem mest í öllum íbúðum og skjól sem best. Ennfremur hafa mörg minni fjölbýlishúsin sérbýlishúsakarakter, þ.e.a.s. þetta verða eignir með sérinngangi og sérnotareitum. Ég er þess fullviss að byggðin verði virkilega vinsæl og þá sérstaklega meðal þeirra sem vilja búa í góðum tengslum við náttúruna, í aðstæðum sem minna á hverfin sem við þekkjum úr æsku.“

Fyrstu hús gætu byrjað að rísa á svæðinu 2027 eins og fyrr sagði og mögulega geta fyrstu íbúar flutt inn árið 2028. Uppbyggingu verður líklega skipt upp í þrjá áfanga en í þeim fyrsta er gert ráð fyrir 1.200-1.300 íbúðum og allt að 3.000-3.500 íbúum.

„Það eru fá svæði á höfuðborgarsvæðinu jafn fýsileg til uppbyggingar,“ segir Þorgerður en byggðin mun koma í náttúrulegu flæði frá núverandi byggð í Mosfellsbæ.

Borgarlínan færð framar

Borgarlínan mun aka í gegnum hverfið en vegna uppbyggingarinnar var borgarlínan færð framar í framkvæmdaferlið í nýjum samgöngusáttmála. Blikastaðir eru nú í öðrum áfanga borgarlínu að sögn Þorgerðar, á áætlun 2033.

Varðandi bílaeign íbúa í hverfinu segir Þorgerður að gert sé ráð fyrir að fólk noti fjölbreyttar samgöngur en hins vegar verði bílastæði tryggð í sérbýli jafnt sem fjölbýlum.

Umferð er oft þung úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur, einkum á morgnana. Mun umferðin ekki enn þyngjast með nýja hverfinu?

Þorgerður segir að umferðin sé sameiginlegt verkefni alls höfðuborgarsvæðisins. Hún komi til með að minnka til muna með tilkomu Sundabrautar enda noti ekki eingöngu íbúar Mosfellsbæjar Vesturlandsveginn heldur þjónar hann öllum sem keyra til og frá Vesturlandi. Markhópur hverfisins eru að sögn Þorgerðar allir þeir sem vilja búa á höfuðborgarsvæðinu í góðri tengingu við aðliggjandi náttúru og heilsueflandi samfélag. „Svæðið er í mikilli nálægð við tvo golfvelli. Eins er fjöldinn allur af göngustígum sem umlykja svæðið og leiða mann meðal annars á hin ýmsu fell sem einkenna Mosfellsbæ.“

Spurð um áhuga á verkefninu segir Þorgerður að hann sé mikill bæði hjá íbúum Mosfellsbæjar og kjörnum fulltrúum. „Við finnum einnig fyrir miklum áhuga frá almenningi, framkvæmdaaðilum og fagsamfélagi arkitekta og hönnuða á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki oft sem svona stórt land er brotið undir nýja byggð á höfuðborgarsvæðinu.“

Hvar er verkefnið statt – eru einhverjar framkvæmdir hafnar?

„Það eru engar áþreifanlegar framkvæmdir hafnar en undirbúningur við varðveislu og eflingu gróðurs og náttúrufars á svæðinu er hafinn. Til dæmis erum við búin að búa til tvo hólma úti í Skálatúnslæknum til að laða að fuglalíf. Nágrenni lækjarins verður endurskapað í anda óbyggðra svæða, samanber Elliðaárdalinn, en lækurinn og umhverfi hans afmarka fyrsta áfanga byggðarinnar.“

Þorgerður ítrekar hvað náttúran spilar stóra rullu í hönnun svæðisins. „Við vildum strax setja náttúruna í forgang og gera mikið úr henni. Hönnunarteymið eyddi góðu púðri í að skoða hvaða gæði væru í boði. Landslag hefur alltof oft verið flatt út á Íslandi fyrir íbúðabyggð en við erum að fara öfuga leið. Við horfum fyrst á landslagið og drögum fram hluti eins og klapparkolla og læki og lögum byggðina að því. Grænir geirar fá fyrst pláss en svo púslast íbúðabyggðin saman við.“

Snúa á móti sólu

Gert er ráð fyrir samþættum leik- og grunnskóla í fyrsta áfanga deiliskipulagsins ásamt stakstæðum leikskóla. Skólarnir fá bestu staðina í hverfinu að sögn Þorgerðar. „Þeir snúa á móti sólu og fyrir neðan er óhindruð náttúra. Aðkoma að þeim er góð með göngustígum.“

Margir hafa spurt sig af hverju banki standi í uppbyggingu sem þessari. Þorgerður segir að fáir séu í raun betur til þess fallnir. „Þetta er gríðarlega þungt og kostnaðarsamt verkefni og nægir þar að nefna allar þær rannsóknir og greiningar sem þarf að gera ásamt hinu víðtæka samráði. Nokkrir aðilar hafa í gegnum tíðina reynt að hefja uppbyggingu á svæðinu en þurft frá að hverfa. Ég lít á það sem svo að hlutverk mitt og bankans sé að koma þessari eign í vinnu, samfélaginu öllu til heilla,“ segir Þorgerður að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK