Almennt gekk rekstur Haga á þriðja ársfjórðungi vel og afkoman styrktist á fjórðungnum og var í samræmi við áætlanir. Vörusala starfsþáttar verslana og vöruhúsa jókst en samdráttur var hjá Olís.
Vörusala samstæðunnar á fjórðungnum var á pari við fyrra ár og nam 43,7 milljörðum króna.
EBITDA jókst um 13,1% milli ára og nam 3,7 milljörðum króna, meðan hagnaður jókst um 24,6% og nam 1,4 milljörðum króna.
Eigið fé samstæðunnar var 29,7 milljarðar í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 35,4%.
Framlegð í krónum talið jókst um 9,1% milli ára. Framlegð styrktist bæði í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar.
Á fjórðungi fjölgaði heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslun um 1,3% á milli ára á meðan seldum stykkjum fækkaði um 1,6%, m.a. vegna breyttrar samsetningar vörukaupa.
Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 2,6% á fjórðungnum – aukning var á smásölusviði á fjórðungnum en samdráttur hjá stórnotendum í samanburði við sterkt ár á undan.
Í lok þriðja árfjórðungs gengu Hagar frá samningi um kaup á öllu hlutafé P/F SMS í Færeyjum – SMS er leiðandi verslunarfélag með umfangsmikla starfsemi á sviði dagvöruverslunar, rekstri veitingastaða, framleiðslu og fasteigna.
Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 14.000-14.500 m.kr. Afkomuspáin var hækkuð samhliða tilkynningu um kaup félagsins á SMS í Færeyjum í lok 3F
Haft er eftir Finni Oddssyni forstjória Haga í tilkynningu að starfsemi Haga hafi gengið ágætlega á öllum sviðum, en bætta afkomu á milli ára má að töluverðu leyti rekja til sterkari rekstrar hjá Olís.
„Tekjur Olís námu ríflega 12,7 ma. kr. og drógust saman á milli tímabila. Afkoma var engu að síður góð og umfram væntingar. Samdrátt í tekjum má að mestu rekja til mikillar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu á milli ára. Sala í lítrum dróst lítillega saman, einkum vegna minni umsvifa hjá stórnotendum, en á móti var töluverð aukning á smásölumarkaði. Staða Haga er heilt yfir góð og hefur styrkst með tilkomu nýrrar og öflugrar rekstrareiningar í SMS í Færeyjum. Fjárhagur er traustur, staða helstu rekstrareininga er sterk og augljós ný tækifæri til að efla rekstur hafa orðið til með tilkomu SMS. Horfur í rekstri eru góðar,” er haft eftir Finni.