Hagnaður Ölgerðarinnar dregst saman um 22%

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Hagnaður Ölgerðarinnar eftir skatta nam 568 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2024 og dregst saman um 22% frá fyrra ári.

EBITDA nam 1.160 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi 2024 samanborið við 1.390 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2023, sem jafngildir 16,5% lækkun milli ára. Áhrif Collab markaðssetningar erlendis á EBITDA þriðja ársfjórðung eru 94 milljónir króna.

Vörusala samstæðu Ölgerðarinnar hækkaði um 97 milljónir króna eða 0,9% á þriðja ársfjórðungi 2024 miðað við sama tímabil 2023 og hækkaði framlegð um 0,4%. Sala til hótela og veitingastaða jókst um rúm 6% milli ára, en samdráttur varð á sölu til stórmarkaða um tæp 4%. Góð aukning var einnig á sölu til fyrirtækja og ÁTVR á ársfjórðungnum.

Í uppgjörstilkynningu Ölgerðarinnar kemur fram að áfram hafi gengið vel að halda aftur af ýmsum kostnaðarþáttum á ársfjórðungnum. Í samanburði milli ára þurfi að hafa í huga kostnað vegna markaðssetningar Collab erlendis.

Ölgerðin tilkynnti uppgjör sitt í dag.
Ölgerðin tilkynnti uppgjör sitt í dag. mbl.is/Árni Sæberg

219 milljónir í Collab verkefnið         

Velta samstæðunnar á fyrstu 9 mánuðum fjárhagsársins jókst um 234 millj. kr. eða um 1%. Sala til stórmarkaða og fyrirtækja stóð í stað á tímabilinu en lítilsháttar aukning var í sölu til hótela og veitingastaða.

EBITDA nam 3.872 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum fjárhagsársins, samanborið við 4.479 milljónir króna sem jafngildir 13,6% lækkun milli ára.

Útflutningur á Collab gengur samkvæmt áætlunum og voru 219 milljónir króna settar í verkefnið á tímabilinu.

Hagnaður eftir skatta var 1.980 milljónum króna samanborið við 2.881 milljón króna á fyrra ári. Hagnaður eftir skatta án einskiptisliða (hlutdeildartekjur vegna áhrifa af kaupum á meirihluta í Iceland Spring ehf.) lækkaði um 21% frá fyrra ári.

Úr ársreikningi Ölgerðarinnar.
Úr ársreikningi Ölgerðarinnar.

Óbreytt afkomuspá

Afkomuspá fyrir fjárhagsárið 2024 er óbreytt og gerir ráð fyrir EBITDA á bilinu 4,9 – 5,3 milljarða króna

Haft er eftir Andra Þór Guðmundssyni forstjóra Ölgerðarinnar að félagið haldi áfram að renna styrkum stoðum undir rekstur sinn, þó vissulega finni fyrirtækið fyrir krefjandi ytri aðstæðum, eins og flest fyrirtæki.

„Vörusala á ársfjórðungnum jókst og munar þar mestu um betri sölu til hótela og veitingastaða, fyrirtækja og ÁTVR. Á ársfjórðungnum hélt vöxtur Iceland Spring áfram og framundan eru spennandi nýjungar sem munu styrkja vöruframboðið enn frekar. Markaðssetning Collab á erlendum mörkum gengur samkvæmt áætlunum og er nú áætlað að sala á Collab í Þýskalandi hefjist á fyrri hluta næsta fjárhagsárs, en þegar hefur verið gengið frá fyrstu samningum við sölu- og dreifingaraðila. Fjárfestingaráætlanir okkar hafa gengið eftir en á ársfjórðungnum uppfærðum við m.a. framleiðslulínuna fyrir bjórkúta og bættum að auki við tveimur rafmagnsvörubílum til dreifingar, en reynsla af rekstri slíkra bíla hjá Ölgerðinni hefur verið góð. Þá var fjárfest í nýju vöruhúsi við Köllunarklettsveg sem verður tekið í notkun undir lok þessa mánaðar. Undirbúningur að viðbyggingu er hafinn sem tvöfaldar rýmið og er stefnt að því að síðari helmingur vöruhúss verði tekinn í notkun á fyrri hluta næsta árs. Markmiðið með kaupunum er að bæta þjónustu samstæðunnara til viðskiptvin á sviði stóreldhúsa með því að sjá sjálf um hýsingu og tínslu á þeim vörum í stað útvistunar til þriðja aðila. Við horfum með bjartsýni til framtíðar, enda verkefnin næg og tækifærin svo sannarlega til staðar,“ er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK