Ólafur Karl Sigurðarson nýráðinn aðstoðarforstjóri kælitæknifyrirtækisins KAPP segir í samtali við ViðskiptaMoggann að starfsmenn KAPP Skagans, áður Skaginn 3X, sem KAPP keypti á haustmánuðum, hafi á skömmum tíma náð að fara í söluheimsóknir til fjögurra heimsálfa og nú þegar sé búið að landa góðum sölum. „Það gefur okkur byr undir báða vængi. Við erum mjög lukkuleg með upphafið á rekstrinum. Til dæmis lönduðum við góðu verkefni hjá útgerðarfélaginu Eskju á Eskifirði þar sem við unnum með þeim að breytingu á innmötun í uppsjávarvinnslu. Verkefnið hjá Eskju var í raun komið af stað áður en við hófum starfsemi KAPP Skagans í nóvember síðastliðnum. En í ljósi farsæls sambands milli KAPP og Eskju í gegnum árin fengum við að koma að borðinu með tillögu að lausn. Mér finnst gildin okkar hafa kristallast í þessu verkefni. Við unnum hratt og örugglega að hönnun í náinni samvinnu við starfsmenn og stjórnendur Eskju.
Eins höfum við fengið góðar undirtektir í Suður-Ameríku. Við erum búin að loka sölu á tveimur stórum frystum til Brasilíu. Þetta eru aðilar sem hafa keypt vörur Skagans áður og þekkja því gæði vörunnar og vildu halda tryggð við okkur. Annar aðilinn er að kaupa þriðja frystinn og hinn er að kaupa tólfta frystinn og í raun þann stærsta sem seldur hefur verið, ef við skoðum sögu forvera KAPP Skagans.“
Ólafur ítrekar hve mikilvægt það er fyrir KAPP Skagann að tryggja að markaðurinn viti að félagið sé í dag eigandi tækjabúnaðar og lausna Skagans 3X. „Við erum að kemba markaðinn hér heima og úti og koma okkur vel af stað hjá KAPP Skaganum. Bæði með áherslu á þá aðila sem eiga Skagabúnað fyrir en sömuleiðis að herja á nýja viðskiptavini.“