Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Eins og oft er raunin með fólk sem öðlast heimsfrægð er ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Harari ekki öllum að skapi, og hafa langar greinar verið skrifaðar um að bækur hans séu fullar af rangfærslum. Einn gagnrýnandinn gekk svo langt að saka metsöluhöfundinn um vísinda-lýðskrum og átti þar við að Harari væri gjarn á að einfalda flókna hluti um of, og vera úr hófi dramatískur í staðhæfingum sínum.
Kannski var Harari að bregðast við þessari gagnrýni með nýjustu bók sinni, Nexus, þar sem hann fjallar um hve erfitt það er fyrir sannleikann að fljóta upp á yfirborðið. Útgangspunktur bókarinnar er hvers konar hættur gervigreindarbyltingin gæti haft í för með sér, og líka hvernig samfélagið hefur núna lent í hálfgerðum ógöngum vegna endalauss upplýsingaflæðis þar sem algrími stýra því hvað við sjáum og jafnvel hvernig við hugsum.
Harari minnir á að sagan kenni okkur að aukið flæði upplýsinga sé ekki alltaf af hinu góða. Hann nefnir sem dæmi hvað gerðist þegar prentvélin kom til sögunnar svo að skyndilega varð miklu ódýrara að framleiða bækur og bæklinga í miklu magni og sprenging varð í miðlun upplýsinga og þekkingar. Gallinn við þessa tæknibyltingu var sá að almúginn hafði takmarkaðan áhuga á flóknum fræðiritum en var mjög móttækilegur fyrir krassandi ritum sem höfðuðu til lægsta samnefnara. Fullyrðir Harari að það hafi verið uppfinningu Gutenbergs að kenna að óvönduð æsingarit um nornir og galdra, skrifuð af rugluðum ofstækismönnum, náðu mikilli útbreiðslu og leiddu að lokum til galdrafárs vítt og breitt um Vesturlönd. Þessar bækur voru falsfréttir og smellubeita síns tíma og þegar ranghugmyndirnar höfðu náð að skjóta rótum var ósköp lítið við því að gera annað en að reyna að forðast að vera tekinn í misgripum fyrir norn.
Við virðumst núna vera að sigla inn í tímabil þar sem allt og allir eru að drukkna í upplýsingum. Á sama tíma virðist aldrei hafa verið jafnerfitt að komast að sannleikanum um nokkurn skapaðan hlut. Eins og Harari kemst að orði, þá veldur aukinn upplýsingaflaumur því að sannleikurinn sekkur til botns frekar en að fljóta upp á yfirborðið.
Það vakti athygli um allan heim þegar Mark Zuckerberg tilkynnti fyrr í mánuðinum að grundvallarbreytingar yrðu gerðar á ritstjórnarstefnu og starfsemi Meta, móðurfélags Facebook og Instagram.
Eins og öll hin tæknifyrirtækin í Kaliforníu hefur Meta lagt sig fram við að elta nýjustu stefnur og strauma í réttsýnispólitík en hefur nú tekið U-beygju og ákveðið að stinga ofan í skúffu háfleygum hugmyndum um kynja- og kynþáttakvóta. Sérstök dyggðaskreytingadeild innan Meta hefur verið lögð niður, m.a. vegna þess að hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði nýverið – réttilega – að það stangist á við lög að beita jákvæðri mismunun.
Umræðan á samfélagsmiðlum Meta verður heldur ekki ritskoðuð með sama hætti og áður. Eldri reglur Meta settu m.a. umræðu um innflytjendamál, kynjamál og kynvitund svo þröngar skorður að erfitt var að tala með neikvæðum eða gagnrýnum hætti um þessa málaflokka en nú mun það breytast. Algrímin sem eiga að gæta þess að notendur Instagram og Facebook haldi sig á mottunni – og fjarlægja milljónir færsla dag hvern – höfðu smám saman gengið of langt í ritskoðuninni og hindrað eðlileg skoðanaskipti um mikilvæg mál, svo það var orðið löngu tímabært að stíga á bremsuna.
Stærstu tíðindin voru að staðreyndavaktin á samfélagsmiðlum Meta færist úr höndum samstarfsaðila félagsins til margra ára og í staðinn verður komið á nokkurs konar samfélagsvöktunarkerfi. Falsfréttir og upplýsingaóreiða voru mjög í deiglunni árið 2016 – árið sem Donald Trump náði fyrst kjöri – og brást Meta við með því að semja við utanaðkomandi aðila um að úrskurða um hvað væri satt og rétt, svo koma í mætti í veg fyrir að rangfærslur og rugl gætu náð mikilli útbreiðslu. Ekki leið á löngu þar til ljóst var að heljarinnar vinstri-slagsíða var á staðreyndavöktuninni: ummæli fólks af vinstri vængnum voru sett í samhengi, milduð, og túlkuð í besta mögulega ljósi á meðan sjónarmið og skoðanir hægrimanna voru tekin úr samhengi og túlkuð á versta mögulega veg. Steininn tók úr í kórónuveirufaraldrinum þegar Facebook bannaði notendum m.a. að segja að kórónuveiran hefði mögulega borist frá rannsóknarstofunni alræmdu í Vúhan.
Samfélagsvöktun staðreynda hefur heppnast nokkuð vel hjá X/Twitter, sérstaklega þegar kemur að því að sannreyna yfirlýsingar embættismanna og kjörinna fulltrúa sem oft er auðvelt að hrekja með því að vitna beint í vandaðar heimildir og töluleg gögn.
Forvitnilegt verður að sjá hvernig nýja stefnan mun móta dægurþrasið í netheimum. Hægrið hefur a.m.k. náð að jafna leikinn í bili, en þar með er ekki sagt að innan nokkurra missera verði allir notendur Facebook og Instagram orðnir uppljómaðir og djúpvitrir frjálshyggjumenn.
Um síðustu helgi stalst ég loksins til þess að kaupa nokkra hluti í Nvidia. Mér þykir reyndar agalegur bólubragur á því hvernig hlutabréfaverð gervigreindarfyrirtækja hefur rokið upp og reikna allt eins með því að tapa peningum á viðskiptunum. En mér finnst það ágætis trygging að veðja nokkrum krónum á þennan hest ef villtustu spár gervigreindar-klappstýra skyldu rætast. Verðhækkun hlutabréfa Nvidia myndi þá kannski vega upp á móti því ef gervigreindin nær að snúa rekstri fjölmiðla á haus, rétt eins og samfélagsmiðlarnir gerðu fyrir hálfum öðrum áratug.
Reyndar leyfi ég mér að vona að í stað þess að stráfella blaðamannastéttina verði gervigreindin bara enn eitt verkfærið, og að fram undan sé blómaskeið þar sem allur þorri fólks mun átta sig á að upplýsingaflaumurinn er orðinn slíkur að eina leiðin til að vera með á nótunum – bæði faglega og sem almennilegur þátttakandi í lýðræðinu – sé að kaupa áskrift að nokkrum vönduðum fréttamiðlum.
Við erum öll að drukkna í upplýsingum, og bæði á Facebook, Instagram, Twitter og alls staðar annars staðar á netinu og í samfélagsumræðunni geisar stormur þar sem skyggnið er núll metrar. Gervigreindin ætti að nýtast blaðamönnum sem ágætis veghefill til að komast í gegnum skaflana, en það þarf manneskju við stýrið.
Ég greini hjá sjálfum mér fyrstu merkin um ofnæmi gegn upplýsingaflæðinu, og birtist m.a. í því að ég hef ekki neina þolinmæði fyrir froðu og rugli. Það eina sem ég sætti mig við er vandaðar upplýsingar á knöppu og skýru formi sem ég get innbyrt hratt og vel. Þar jafnast ekkert á við að fletta í gegnum hágæða dagblað sem skrifað er af snjöllu fólki sem er ekki að reyna að æsa lesendur sína upp til að fá fleiri smelli, heldur miðlar einfaldlega upplýsingum á skýran hátt; setur hlutina í samhengi og spyr réttu spurninganna.
Svo leita ég uppi fyrsta flokks hlaðvörp, fræðandi hljóðbækur og snjalla fyrirlestra á YouTube og spila á tvöföldum hraða. Er nú svo komið að þegar ég á í samræðum við fólk sem er lengi að koma sér að efninu stend ég mig ósjálfrátt að því að leita að hraðspólunartakkanum.