Tvær athafnakonur á Hvammstanga vinna nú að undirbúningi á framleiðslu á hágæða freyði- og ávaxtavíni.
Þær Greta Clough og Hrund Jóhannsdóttir hafa stofnað Hret víngerð og markmið fyrirtækisins er að þróa farsælt vörumerki með áherslu á íslenskan uppruna en á alþjóðlegum markaði. Greta og Hrund tóku þátt í viðskiptahraðlinum Startup Stormi á síðasta ári og hlutu nýverið 4,3 milljóna styrk úr Uppbyggingarstjóði Norðurlands vestra.
Greta segir í samtali við Morgunblaðið að engin hefð sé fyrir víngerð hér á landi, fyrir utan krækiberjavín, en margir hafi hins vegar reynt fyrir sér á þessum vettvangi. „Við vonum að við hittum á rétta tímasetningu. Það hafa margir sýnt okkur stuðning en þetta er enn á frumstigi.“
Þær stöllur hyggjast einbeita sér að rannsóknum og þróun á rabarbara-freyðivíni til að byrja með. Segir Greta að miklar breytingar séu að verða á víngerð í heiminum vegna loftslagsbreytinga. Ávaxtavín njóti af þessum sökum vaxandi vinsælda, til að mynda á Norðurlöndunum en ekki síst í Eystrasaltsríkjunum. Þaðan hafi þær meðal annars sótt sér innblástur. „Nú erum við að kynna okkur þetta allt saman, fínpússa uppskriftir og leita að húsnæði.“