Metnaðarfull vaxtarmarkmið næstu 2-3 árin

Ólafur Karl Sigurðarson ásamt Róbert Gíslasyni, fjármála- og rekstrarstjóra fyrirtækisins.
Ólafur Karl Sigurðarson ásamt Róbert Gíslasyni, fjármála- og rekstrarstjóra fyrirtækisins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Tekjur kælitæknifyrirtækisins KAPP fyrir árið 2023 voru um tveir milljarðar króna. Tekjurnar jukust áfram á síðasta ári, 2024, eins og Ólafur Karl Sigurðarson nýráðinn aðstoðarforstjóri útskýrir fyrir blaðamanni ViðskiptaMoggans. „Það hefur verið góður vöxtur á milli ára og við sjáum fram á áframhaldandi vöxt hjá samstæðunni, bæði í rekstri KAPP ehf. en líka hjá KAPP Skaganum og Kami Tech, fyrirtækjunum sem við erum nýbúin að kaupa. Við erum með metnaðarfull vaxtarmarkmið fyrir næstu 2-3 árin.“

Freyr ekki hættur

Eftir komu Ólafs til félagsins hafa margir velt fyrir sér hvort stærsti eigandi fyrirtækisins, Freyr Friðriksson, hafi dregið sig í hlé, en svo er ekki. „Freyr er alls ekki hættur, síður en svo,“ segir Ólafur og brosir. „Freyr er forstjóri félagsins en ég kem inn sem aðstoðarforstjóri til þess að aðstoða við rekstur á stækkandi félagi. Með vaxandi fyrirtæki ákvað Freyr að fá inn nýjan aðila sem hann gæti deilt ábyrgð með, enda í mörg horn að líta. Ég hef tekið að mér framkvæmdastjórn á öllu tengdu kaupunum úr þrotabúi Skagans 3X og er framkvæmdastjóri félagsins sem nú heitir KAPP Skaginn ehf. Samhliða því fer ég með daglega stjórn á flestu sem tengist sölu- og markaðsmálum þvert á félögin. Freyr er með gríðarlega sterka tengingu við bæði markaðinn hér heima og erlendis og vill nýta sína krafta í vaxandi mæli í að vera úti á akrinum og draga inn ný tækifæri. Þeir sem þekkja Frey vita að hann situr ekki auðum höndum. Í dag er hann fulllestaður af verkefnum og óstöðvandi í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Við Róbert Gíslason fjármálastjóri stígum inn í flest rekstrarmál til þess að reyna að létta aðeins álagið á honum,“ segir Ólafur sem kom til KAPP frá Marel.

Leiddi 800 manna svið

Ólafur leiddi 800 manna svið hjá Marel. „Ég var framkvæmdastjóri fiskiðnaðar Marels á heimsvísu sem og framkvæmdastjóri Marels á Íslandi síðustu tvö árin áður en ég kom til KAPP. Ég hafði unnið í níu ár hjá Marel þar sem ég stýrði þjónustu fiskiðnaðar og síðar vöruþróun fiskiðnaðar, áður en ég tók við framkvæmdastjórn. Sá tími hefur gefið mér góða innsýn í markaðinn og búið til sterk tengsl innanlands sem og erlendis,“ segir Ólafur.

Menn að störfum á verkstæði KAPP í Turnahvarfi í Kópavogi.
Menn að störfum á verkstæði KAPP í Turnahvarfi í Kópavogi. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Marel starfar meðal annars innan fiskiðnaðar eins og KAPP en áherslan hjá Marel er þvert á fiskvinnslulínur. Sérhæfing KAPP er í kælingu og frystingu á matvælum.

„Fyrir tíma minn hjá Marel var ég bankastarfsmaður. Ég var hjá Kaupþingi fyrir hrun en í kjölfarið starfsmaður í skilanefnd og slitastjórn bankans, en það var aldrei planið að festast í þeim geira. Eftir útskrift úr MBA-námi árið 2014 ákvað ég að breyta til. Þá fór ég til Marels og í raun féll ég fyrir þessum iðnaði. Bransinn er mjög dýnamískur og áþreifanlegur, sem á vel við mig.“

Ólafur segir að þótt hann hafi á þeim tíma sem hann vatt kvæði sínu í kross árið 2014 ekki haft mikla þekkingu á fiskiðnaði og matvælavinnslu hafi hann verið vel heima í tækjum og vélum. „Ég er alinn upp á verkstæði. Þegar saman kom öll sú reynsla af tækjum, fiski og rekstrarþekkingu sem ég öðlaðist hjá Marel, var það ágætis blanda fyrir nýja starfið hjá KAPP.“

Spurður að því hvort það hafi verið auðveld ákvörðun að söðla um síðasta haust segir Ólafur að það sé aldrei auðvelt að skipta um vinnustað. „Það hafa verið ákveðnar væringar hjá Marel eins og menn þekkja og það er nýbúið að selja fyrirtækið til JBT. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og komast nær viðskiptavinum. Mér fannst vegferð KAPP gríðarlega spennandi og ekki hvað síst bandaríski hlutinn og kaupin á eignum Skagans 3X sömuleiðis. Freyr og stjórnin leiddu þau kaup af þrotabúi félagsins, en út af mínu fyrra starfi hélt ég mig fyrir utan kaupferlið þar til það kláraðist.“

Verðugt og spennandi

Hann segir að verkefnið í kringum endurreisn Skagans sé verðugt og spennandi. „Þrátt fyrir að hlutverk mitt í dag sé að mörgu leyti frábrugðið því sem ég gegndi hjá Marel þá nýtist sú reynsla afar vel. Marel er orðið rótgróið fyrirtæki með mikinn strúktúr og skipulag, á meðan það er meiri sprotatilfinning í að koma Skaganum aftur í gang og styðja við aukinn vöxt KAPP á heimsvísu. Þrátt fyrir að KAPP Skaginn sé byggt á fyrri starfsemi og þeim tækjum og einkaleyfum sem fyrir voru er þetta nýtt félag sem byggir á menningu og gildum KAPP, rétt eins og Kami Tech í Bandaríkjunum gerir einnig. Við leggjum mikið upp úr góðri þjónustu og nálægð við viðskiptavininn. Sá fókus hefur verið grunnurinn í sívaxandi starfsemi KAPP og á því viljum við byggja,“ segir Ólafur. „Það er góður skóli fyrir mig að hafa verið hjá Marel og þekkingin hentar vel fyrir þessi verkefni. Ég er kunnugur allri innri byggingu geirans sem getur nýst vel þegar þú ert að taka næsta vaxtarskref eins og KAPP er að gera. KAPP er mjög vant því að kaupa fyrirtæki og innlima í reksturinn. Þeir hafa vaxið með uppkaupum og Freyr og aðrir stjórnendur þekkja það ferli mjög vel og eru reyndir á því sviði.“

Ólafur segir að helsti munurinn nú sé að kaupin á þessum tveimur nýju félögum séu mun stærri en KAPP hefur ráðist í áður. Síðasta félag sem KAPP keypti þar á undan var hátæknifyrirtækið Raf árið 2023. „KAPP er að taka gríðarlegt stökk. Það er mjög spennandi en því fylgja ýmsar áskoranir sem við leysum sem teymi. Við erum með mjög öflugt starfsfólk sem gerir okkur kleift að taka skref eins og þau sem tekin voru á síðasta ári.“

Í sama geira

Spurður nánar um KAPP Skagann og líkindi við Marel og KAPP segir Ólafur að KAPP Skaginn sé í sama geira og Marel. „KAPP Skaginn er hins vegar með annan vörufókus og býður því vörur sem eru annars staðar í virðiskeðjunni. KAPP er í dag með breiða vöruflóru en sem dæmi selur félagið krapakerfi, ósonlausnir, lausfrysta, plötufrysta, brettakerfi, saltsprautuvélar, dælur, heildarlausnir fyrir uppsjávargeirann og margt fleira. Við munum halda áfram að þróa vöruflóru okkar ásamt því að skoða nýjar lausnir. Vörur okkar eru þekktar fyrir mikil gæði og við höldum á sterkum einkaleyfum. Við hyggjumst byggja enn frekar ofan á þann góða grunn sem við höfum í dag.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka