Dauðafæri að komast nær markaðinum

Ólafur Karl Sigurðarson á verkstæðinu ásamt Róbert Gíslasyni, fjármála- og …
Ólafur Karl Sigurðarson á verkstæðinu ásamt Róbert Gíslasyni, fjármála- og rekstrarstjóra fyrirtækisins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Kælitæknifyrirtækið KAPP keypti tæknifyrirtækið Kami Tech í Seattle í Bandaríkjunum á síðasta ári, ásamt því að kaupa Skagann 3X sem nú heitir KAPP Skaginn, og fjallað hefur verið um á mbl.is. 

Ólafur Karl Sigurðarson aðstoðarforstjóri KAPP segir að Kami Tech hafi hingað til að stórum hluta byggt starfsemi sína á þjónustu við útgerðina á vesturströnd Bandaríkjanna. „Það sem er ólíkt með Kami Tech og KAPP Skaganum er að félagið Kami Tech er í fullum rekstri á meðan helsta verkefni fyrstu mánaða hjá KAPP Skaganum var endurreisn á félaginu. Áform okkar með Kami Tech eru ekki að umbylta neinu heldur byggja á þeim góða grunni sem er til staðar. Við sjáum mikil tækifæri í Bandaríkjunum. Þar hefur orðið ákveðin vitundarvakning um gæði afurða og gildi kælingar til að auka virði. KAPP hefur t.d. selt mikið af OptimICE-kælibúnaði sínum til Bandaríkjanna. Alls hefur fyrirtækið þegar allt er talið selt yfir 800 slíkar vélar um allan heim. Bandaríkjamenn þekkja KAPP af öflugum vélum og góðri þjónustu, þannig að þegar tækifærið til kaupa á Kami Tech gafst, og menn komu að máli við Frey, sá hann að þarna var dauðafæri á að komast nær markaðinum. Það myndi skapa mikið hagræði.“

Hluti starfsmanna Kapp og Kami Tech á Pier 90 í …
Hluti starfsmanna Kapp og Kami Tech á Pier 90 í Seattle þar sem skrifstofa Kami Tech er staðsett.

Ólafur segir að tæknistjórinn, Friðrik Ingi Óskarsson, sé að undirbúa flutning til Bandaríkjanna til að styðja við rekstur Kami Tech. „Við erum með hugmyndir um framleiðslu á búnaði þar ytra sem við teljum að geti opnað á nýja markaði og hagkvæmari fjármögnunarleiðir fyrir viðskiptavini okkar. Þar í landi eru í boði auknar fjármögnunarleiðir og betri kjör ef ákveðinn hluti vörunnar er framleiddur þar innanlands.“

Ólafur nefnir tækifæri í Alaska þar sem KAPP á nú þegar viðskiptavini. „Á Alaskasvæðinu eru 300 vinnslur og um 300 einstaklingsútgerðir sem allflestar eru innan markhóps KAPP fyrir OptimICE-vélar. Bandaríkjamenn eru um 10-15 árum á eftir Íslandi þegar kemur að meðhöndluð á hráefni. Okkar OptimICE-lausn fer betur með hráefnið, er umhverfisvænni og eykur gæði. Tæknin gerir viðskiptavinum kleift að búa til krapa úr sjóvatni, en krapinn styttir kælitíma hráefnis úr sex klukkustundum í um eina klukkustund þegar borið er saman við hefðbundinn flöguís. Þetta getur aukið hillutíma í verslunum allt upp í sjö daga.“

Mest erlendar tekjur

Sú breyting hefur orðið á rekstri KAPP síðustu misseri að tekjur koma nú að meirihluta til að utan. „Það sýnir vel þá vegferð sem KAPP hefur verið á, að verða alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi á fleiri en einum stað í heiminum þar sem herjað er á markaðina.“
Spurður nánar um tækifærin í Alaska segir Ólafur að þar sé gott að vinna og mikil uppbygging í gangi. Nýjar vinnslur rísi, aðrar stækki og núverandi vinnslur séu meðvitaðri um mikilvægi kælingar þegar komi að gæðum hráefnis. „Vissulega er langt ferðalag þangað, en menn í okkar geira eru ansi ferðavanir.“

Ólafur segir að KAPP muni halda áfram að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum hvað uppkaup fyrirtækja varðar. „En við verðum að hafa það hugfast að kaup á fyrirtækjum eru ekki flóknasti hlutinn heldur það sem á eftir kemur, innleiðing á tækjum, búnaði, menningu og eftirfylgni. Þar viljum við hafa sterkan fókus og byggja upp vörumerkið KAPP sem er með sterkt orðspor og þekkt fyrir góða þjónustu. Við erum að byggja rekstrarmódel okkar þannig að það sé skalanlegt, þ.e. að auðvelt sé að bæta við vörulínum í framtíðinni en í dag erum við með fullan fókus á innleiðingu KAPP Skagans og Kami Tech. Innleiðingin og samþætting félaga þarf að gerast í réttum skrefum, en sýnin er skýr að við viljum vera best í kælingu og frystingu á alþjóðavísu.“

Ólafur á von á að innri vöxtur hjá Kami Tech og KAPP Skaganum verði góður á næstu mánuðum og árum og árið fer vel af stað.

Heilbrigt hlutfall

„Þó að geirinn hafi að mörgu leyti verið erfiður síðastliðin 2-3 ár hefur reksturinn verið mjög góður hjá okkur í KAPP. Hlutfall útseldrar vinnu á móti þeim sem vinna á skrifstofunni hefur verið mjög heilbrigt. Yfirbyggingin er hófleg. Þannig viljum við halda því en það á að gefa okkur forskot. Við getum verið snögg í ákvarðanatöku og brugðist hratt við beiðnum viðskiptavina. Og ef við getum stýrt kostnaði vel þá getur það endurspeglast í góðum verðum fyrir viðskiptavini.“

Eitt af því sem er á döfinni á þessu ári er að styrkja sölunetið á alþjóðavísu. „Við erum að byggja á mjög sterkum aðilum innanhúss en einnig erum við með erlenda umboðsmenn sem eru vel þekktir á sínum svæðum, hvort sem það er í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku eða annars staðar. Við viljum víkka út þetta umboðsmannanet og fá þá til að hjálpa okkur að þefa uppi fleiri tækifæri á mörkuðunum,“ segir Ólafur að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka