Ölgerðin kaupir Gæðabakstur

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, er ánægður með viðskiptin, sem …
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, er ánægður með viðskiptin, sem gerð eru með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ölgerðin hefur undirritað samkomulag um helstu skilmála kaupa á 100% hlut í Gæðabakstri ehf. Gæðabakstur er 80% í eigu Dragsbæk A/S í gegnum dótturfélagið Viska ehf. og í 20% eigu Vilhjálms Þorlákssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Heildarvirði viðskiptanna er 3.454 milljónir króna og að frádregnum vaxtaberandi skuldum er áætlað kaupverð félagsins á afhendingardegi um 2.700 milljónir, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ölgerðinni.

Sérstakt félag innan samstæðunnar

Gæðabakstur verður rekið sem sérstakt félag innan samstæðu Ölgerðarinnar og verður Vilhjálmur Þorláksson áfram framkvæmdastjóri. Í tilkynningunni segir að náist rekstrarmarkmið á næstu tveimur árum eftir kaupin kann kaupverð á hluta Vilhjálms að hækka um allt að 100 milljónir króna.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Velta verði nálægt 50 milljörðum

Haft er eftir Andra Þór Guðmundssyni forstjóra að ánægja sé með viðskiptin innan Ölgerðarinnar. Þau séu samkvæmt stefnu um vöxt félagsins og falli vel að kjarnastyrkleika Ölgerðarinnar í vörumerkjauppbyggingu.

„Þá er ekki síður mikilvægt að hafa tryggt að Vilhjálmur haldi áfram störfum hjá Gæðabakstri. Í þessari viðbót við samstæðu Ölgerðarinnar felast mikil tækifæri, til að mynda í sölu, dreifingu, innkaupum og vöruþróun. Með þessari viðbót verður velta Ölgerðarinnar nálægt 50 milljörðum króna,“ er haft eftir forstjóranum.

Horfir bjartsýnn til framtíðar

Haft er eftir Vilhjálmi Þorlákssyni, framkvæmdastjóra Gæðabaksturs, að áfanginn sé staðfesting á því góða starfi sem hefur verið unnið hjá Gæðabakstri.

„Ég hlakka til að starfa innan samstæðu Ölgerðarinnar og horfi bjartsýnn til framtíðar,“ er haft eftir Vilhjálmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK