„Viðskipti ríkisins við Icelandair hafa alla tíð verið gríðarlega umfangsmikil en viðskipti við önnur flugfélög hafa verið af skornum skammti og aðeins brotabrot af viðskiptum við Icelandair. Flugfarmiðakaup ríkisins hafa örsjaldan verið boðin út, þrátt fyrir að umfang þeirra sé langt yfir útboðsmörkum.“
Þetta má lesa í kvörtun sem Play sendi fyrir helgi til Samkeppniseftirlitsins, og ViðskiptaMogginn hefur undir höndum, vegna aðgangshindrana vildarpunkta Icelandair.
Tilgangurinn er að vekja athygli eftirlitsins á viðkvæmri stöðu markaða fyrir áætlunarflug til og frá Íslandi og að markaðsaðstæður séu ekki gerðar erfiðari með háttsemi Icelandair og stofnana ríkisins.
Play telur Icelandair hafa yfirburðastöðu á markaði og bendir á að fyrri athuganir eftirlitsins hafi sýnt fram á aðgangshindranir á ýmsum sviðum flugsamgangna. Augljósasta hindrunin sé vildarkerfi Icelandair sem veitir félaginu samkeppnisforskot. Viðskiptavinir vinni sér inn punkta/mílur fyrir ýmis fríðindi sem auki hvatann til að kaupa fleiri flugferðir og ríkisstarfsmenn séu þar engin undantekning. Ríkið greiði fyrir flug starfsmanna sinna sem fái vildarpunkta á móti.
Play gagnrýnir farmiðakaup hins opinbera og vísar til rammasamningsútboðs Ríkiskaupa um flugsæti í febrúar sl. Samningurinn, sem bæði Play og Icelandair eru aðilar að, þjónustar opinbera starfsmenn, þ.m.t. alþingismenn sem ferðast til og frá Íslandi. Stofnunum ber að kaupa ódýrasta flugið.
Eftir að samningurinn komst á telur Play að vildarkerfið hafi tryggt Icelandair forgang að viðskiptum við ríkisstofnanir með ómálefnalegum hætti. Það sjáist berlega á langtum stærri hlutdeild viðskipta Icelandair við hið opinbera en á almennum markaði.
Play áætlar að ríkið hafi keypt um 6.000 flugsæti af Icelandair en aðeins 119 flugsæti af Play árið 2023. Þá eigi Alþingi umtalsvert meiri viðskipti við Icelandair en við Play. T.d. námu útgjöld Alþingis til flugfarmiðakaupa af Icelandair 20,9 milljónum króna í fyrra, samanborið við 500 þúsund krónur af Play.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum.