Vörumerkjastofan Brandr hefur lokið við hlutafjáraukningu að jafnvirði 123 milljóna íslenskra króna. Féð ætlar Brandr að nota til að auka sölu á alþjóðamörkuðum annars vegar og hins vegar í hugbúnaðarþróun. Um er að ræða sölu á tæplega 9% hlut í félaginu.
Fyrirtækið í heild er í viðskiptunum metið á rúma 1,3 milljarða króna.
Í fjárfestakynningu sem ViðskiptaMogginn hefur undir höndum er lögð fram spá um stöðuna á næsta ári eftir að hið nýja fjármagn er komið inn í félagið. Þá er gert ráð fyrir 74 milljóna króna tekjum en 117 milljóna króna tapi vegna fjárfestinga í tengslum við uppbyggingu. Einkum er þar um að ræða þróun hugbúnaðar ofan á aðferðafræði Brandr-vísitalnanna sem mæla styrk vörumerkja bæði innan og utan fyrirtækja.
Meðal þeirra sem lagt hafa félaginu til fé eru, að sögn dr. Friðriks Larsen stofnanda Brandr, eigendur tveggja íslenskra auglýsingastofa, tveir bandarískir fjárfestar, sem koma til með að hjálpa til við sókn inn á Bandaríkjamarkað, upplýsingatæknifólk, sem styður við þróun Brandr-lausnarinnar yfir í SaaS (áskrift í skýinu), írskur fjárfestir, sem veitir stuðning við markaðssókn til Írlands, og einn færeyskur aðili sem jafnframt er umboðsmaður Brandr í landinu.
„Niðurstaðan er framar okkar vonum. Okkar bjartsýnasta spá gerði ráð fyrir að sækja 120 milljónir en við fengum ríflega það,“ segir Friðrik í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segist að vissu leyti hafa rennt blint í sjóinn með hlutafjárútboðið. „Ég vissi hreinlega ekki hvort þetta næðist, sér í lagi á tímum sem þessum þar sem það er erfitt fyrir frumkvöðlafyrirtæki að sækja fé. Þetta er mikil vinna, en það kom á daginn að þetta fólk trúir á hugmyndafræði Brandr. Og þar sem bara var talað við fagaðila hafa þeir allar forsendur til að meta hversu vænleg varan er til að ná árangri á alþjóðamarkaði,“ segir Friðrik. „Maður fær sjálfur aukna trú á verkefninu þegar allt þetta góða fólk leggur því lið.“
Spurður að því hvort hann hafi lengi stefnt að því að sækja á erlendan markað með Brandr-vísitölurnar segir Friðrik að svo sé. „Þegar ég ákvað að fara í doktorsnám í þessum fræðum sá ég að þörfin var til staðar. Síðustu ár hef ég náð að skapa mér nafn í vörumerkjafræðum í orkugeiranum og haldið CHARGE – Powering Energy Brand-ráðstefnur með góðum árangri, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar hef ég kynnst mörgu fólki. Í gegnum alla þessa vinnu hef ég séð að fyrirtæki nota almennt frekar ófullkomin mælitæki þegar kemur að mælingu á styrk vörumerkja. Mér leið oft þannig þegar ég kynntist landslaginu erlendis að það væri eins og fólk væri að mæla rúmmál af vatni í fötu með því að stinga reglustiku ofan í, sem gefur mjög takmarkaða mynd. Fólk er að verja talsverðu fjármagni í mælingar en hefur ekki alltaf réttu mælitækin. Úr því vildi ég bæta.“
Til nánari útskýringar segir Friðrik að lausnin sé byggð á eBBI (energy branding energy index) sem Brandr hefur selt til orkufyrirtækja síðan árið 2016. „Ég hef til dæmis valið bestu orkufyrirtæki heims með aðferðafræðinni í áratug. „Eftir góðan gang á orkumarkaði hef ég búið til almenna útgáfu og þróað vöruna mikið áfram. Við höfum selt mikið hérna heima, eða til yfir 300 fyrirtækja. Við erum líka búin að starfa á erlendum mörkuðum í um tvö ár.“
Friðrik segir að það sé flókið að ná upp sölu á erlendum mörkuðum. „Okkar tilgáta er að ef við náum góðri fótfestu á Írlandi og klárum hugbúnaðinn í skýinu þá sé leiðin greið fyrir næstu fjárfestingarlotu.“
Í þeirri lotu er hugmyndin að safna fimm milljónum evra, jafnvirði 730 milljóna króna, fyrir 20% hlut í félaginu. Virði fyrirtækisins eftir þá aukningu er áætlað ríflega 3,6 milljarðar króna.
„Maður vill ekki fara fram úr sér en hefur ítrekað verið ráðlagt að huga að næsta útboði um leið og þessu er lokið. Ég er því strax farinn að undirbúa næstu lotu. Ég hef einmitt hitt nokkra fjársterka bandaríska aðila sem hafa sýnt mikinn áhuga. En einnig er áhugi á Írlandi, Póllandi og víðar.“