Ráðgjafarfyrirtækið ARMA Advisory var stofnað af þeim Marinó Erni Tryggvasyni og Atla Rafni Björnssyni á síðasta ári. Marinó Örn á að baki langan feril í fjármálageiranum og hefur komið að mörgum veigamiklum verkefnum á sviði eignastýringar og fyrirtækjaráðgjafar. Blaðamaður ViðskiptaMoggans hitti Marinó Örn á skrifstofu ARMA í Hlíðasmára og ræddi við hann um ferilinn, fjármálakerfið, markaði og fleira.
Eftir að Marinó hætti í Kviku hafði hann samband við Atla Rafn en þeir höfðu kynnst þegar þeir unnu saman að Icelandair-verkefninu.
„Ég ætlaði mér að gera lítið í nokkra mánuði eftir að ég hætti hjá Kviku en var að sinna nokkrum verkefnum fyrir nána viðskiptavini. Ég hitti Atla Rafn í kaffi og við fórum að spjalla um að við hefðum báðir í raun meira að gera en við gætum sinnt sjálfir. Ég kom svo með hugmyndina að því að við tveir ættum að stofna okkar eigið félag og fá til liðs við það öfluga samstarfsfélaga. Við tókumst í hendur á fyrsta fundi og ákváðum að láta á það reyna,“ segir Marinó.
Hann bætir við að ARMA hafi fengið góðar viðtökur frá fyrsta degi og það séu í raun forréttindi að geta valið úr verkefnum. Hjá ARMA starfa fimm manns.
„Það er mjög góður andi innan teymisins hjá ARMA, og við gerum okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að reksturinn fari vel á stað þarf ávallt að hafa mikið fyrir hlutunum. Lykilatriðið sé að færast ekki of mikið í fang og veita viðskiptavinum góða þjónustu. Rekstur lítilla félaga er eðli málsins samkvæmt viðkvæmur og það þarf að passa gæðin til þess að viðskiptavinir vilji halda áfram að eiga viðskipti,“ segir Marinó.
Marinó segir að frekari vöxtur fyrirtækisins sé ekki markmið í sjálfu sér en þó sé ekkert útilokað í þeim efnum.
„Við viljum einblína á að sinna stórum og áhugaverðum verkefnum vel fremur en að taka of mikið að okkur. Vonandi tekst okkur að koma að einhverjum af stærstu viðskiptum næstu 1-2 ára,“ segir Marinó.
Spurður hverjar horfurnar séu fyrir fjöldann í verkefnum í fyrirtækjaráðgjöf á næstunni segir Marinó að hann finni fyrir miklum áhuga hjá félögum að bæta sinn rekstur sem getur meðal annars falið í sér ytri vöxt.
„Maður finnur að það er mikill áhugi á markaðnum. Í háu vaxtastigi eins og verið hefur hafa fyrirtækin verið að leita eftir tækifærum til að sameinast og hagræða. Nú þegar vextir fara lækkandi leita margir eftir fjárfestingatækifærum. Þessir háu vextir hægðu á öllu kerfinu líkt og þeim er ætlað að gera. Nú þegar vextir eru að lækka er mikið af fjármunum sem mun leita á markaðinn og kerfið fer í gang aftur. Við fáum líka á borð til okkar mun fjölbreyttari verkefni en við áttum að venjast í störfum fyrir bankana,“ segir Marinó.
Lesa ma viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.