Ríkið missir af hæfum umsækjendum

Allt of miklum tíma og peningum er eytt í umsóknarferlið …
Allt of miklum tíma og peningum er eytt í umsóknarferlið að sögn Hildar, sem hægt væri að nýta betur í önnur og meira uppbyggileg verkefni.

Hversu gagnlegar eru opinberar nafnabirtingar yfir umsækjendur um störf hjá hinu opinbera? Og hversu hjálplegt er að einstaka umsækjendur geti fengið send öll gögn um aðra umsækjendur?

Þessum spurningum og fleirum ætlar Hildur Ösp Gylfadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, að svara á málþinginu Ráðningar hjá ríkinu – tækifæri og áskoranir, sem fram fer í dag í Tryggingastofnun ríkisins í Hlíðarsmára í Kópavogi.

Yfirskrift erindis Hildar er: Eru ráðningar hjá ríkinu sjálfbærar og „business-wise“?

Að ráðstefnunni stendur Mannauður, félag mannauðsfólks hjá ríkinu, í samstarfi við faghópa um ráðningar og mannauðsmál hjá ríkinu.

Gerist ítrekað

Hildur segir í samtali við Morgunblaðið það ítrekað gerast að fjöldi hæfra umsækjanda dragi umsókn sína til baka þegar þeim er tjáð að listi umsækjanda verði birtur opinberlega, eða ef einhver umsækjenda óskar eftir þessum sama lista. „Þarna er ríkið reglulega að missa af hæfum umsækjendum. Margar stofnanir birta ekki þessa lista að eigin frumkvæði en ef einhver óskar eftir birtingu verður stofnunin að verða við því.“

Sem dæmi nefnir Hildur starf sem þrjátíu sækja um. Einn þeirra biður um lista yfir alla umsækjendur. Þá ber starfsfólki í mannauðsmálum að verða við erindinu, en að sögn Hildar er það almenn vinnuregla að tilkynna öllum umsækjendum um óskina í tölvupósti. Þegar umsækjendur fá þann póst draga margir umsókn sína til baka. Þannig getur þessi ákveðni umsækjandi meðvitað eða ómeðvitað fækkað hæfum umsækjendum og þar með keppinautum um starfið. „Dæmi er um að á annan tug umsækjanda hafi dregið umsókn sína til baka út úr einu ráðningarferli,“ segir Hildur.

Annað dæmi er að umsækjandi óskar eftir öllum gögnum um alla hina umsækjendurna eftir að búið er að ráða í starfið. Þá á viðkomandi rétt á að fá þau gögn, ferilskrá, umsagnir, og fleira. „Þarna þarf mannauðsfólkið að eyða gríðarlegum tíma og vinnu, jafnvel heilli vinnuviku, í að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar úr gögnunum áður en hægt er að senda þau til viðkomandi. Þarna er miklum tíma sóað sem hefði getað nýst betur í mikilvægari og uppbyggilegri verkefni. Og hulinn kostnaður er gríðarlegur.“ Hún segir að margir sæki um störf til að „kíkja aðeins í pakkann“, en sé ekki endilega full alvara með umsókninni. „Þetta fólk er því fljótt að hrökkva til baka þegar það fréttir að óskað hafi verið eftir opinberri nafnabirtingu, enda er það fólk oft þegar í góðum störfum.“

Reglum verði breytt

„Það er mjög mikilvægt að lögum og reglum verði breytt ef ríkið á að vera samkeppnishæft. Að mínu mati ætti að vera nóg að umsækjendur geti fengið gögn um sjálfa sig og þann sem var ráðinn, en ekki um alla umsækjendur, jafnvel fólk sem aldrei komst í viðtal. Þetta er komið í algjört óefni og á hreinar villigötur. Fagmennskan hjá opinberum aðilum við ráðningar er almennt mikil og af henni má ekki gefa afslátt, en þetta er ekki hjálplegt. Við verðum að breyta vinnulaginu, bæði hvað varðar birtingu upplýsinga og úrvinnsluhraða, ef við eigum að eiga einhverja möguleika á að ná í hæfasta fólkið,“ segir Hildur Ösp að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK