Fyrstu viku Donalds Trumps í forsetaembætti færðist mikið líf í bandarískan hlutabréfamarkað og tóku stóru hlutabréfavísitölurnar kipp.
Magnús Sigurðsson stýrir fjárfestingasjóðnum og tæknifyrirtækinu Systematic Ventures í New York og fylgist manna best með bandaríska markaðinum en á síðasta ári báru fjárfestingar Magnúsar 38% ávöxtun. Aðspurður segist hann telja að innistæða sé fyrir þeirri hækkun hlutabréfaverðs sem fylgt hefur endurkomu Trumps og líklegra en ekki að fram undan sé gott ár á bandarískum hlutabréfamarkaði:
„Það eru nokkrar ástæður til bjartsýni. Fyrir það fyrsta er það mjög algengt, í sögulegu tilliti, að fyrsta árið eftir forsetakosningar sé gott ár fyrir þróun hlutabréfaverðs. Í öðru lagi meta fjárfestar það sem svo að Trump og ríkisstjórn hans sé mjög í mun að nota næstu fjögur ár til að skapa hagfelldar aðstæður fyrir atvinnulífið,“ útskýrir Magnús. „Þá eru ekki sömu hömlur á Trump nú og síðast; hann þarf ekki að láta ákvarðanatöku sína litast af því að vinna endurkjör að kjörtímabilinu loknu og hann hefur meiri meðbyr á þinginu s.s. til að draga úr skrifræði og minnka regluverkið.“
Magnús bendir líka á að bandaríska hagkerfið virðist heilt á litið sterkbyggt og þrautseigt, og meiri líkur en minni séu á að bandaríski seðlabankinn haldi áfram að lækka stýrivexti smám saman. „Skyndilegum vaxtalækkunum er yfirleitt ekki beitt nema í neyðartilvikum og gerir fjárfesta órólega, en markaðurinn gengur oftast vel þegar hægfara vaxtalækkunarferli á sér stað.“
Magnús sér framfarir á sviði gervigreindar í mjög jákvæðu ljósi og segir að þar sé komin tækni sem geti gert bandarískt atvinnulíf enn skilvirkara. „Þessi tækni og aðrar tæknibyltingar ættu að leggja grunninn að áframhaldandi framleiðniaukningu og hagnaði bandarískra fyrirtækja.“
Meðal þeirra félaga sem fengu vind í seglin eftir að Trump sór embættiseið voru einmitt fyrirtæki sem þróa gervigreind og spilar þar inn í að Trump hleypti í síðustu viku af stokkunum nýju samstarfsverkefni atvinnulífsins og stjórnvalda sem fengið hefur heitið Stargate og á að styrkja þennan geira atvinnulífsins enn frekar. Ekki er um neitt smáverkefni að ræða því að verðmiði Stargate-verkefnisins er 500 milljarðar dala. Magnús segir efasemdir uppi um hversu aflögufær fyrirtækin sem taka þátt í Stargate séu í raun, en verkefnið gefi samt tóninn fyrir það sem koma skal: „Á meðan ríkisstjórn Bidens var mjög í mun að setja hömlur á þróun gervigreindar og koma böndum á rafmyntastarfsemi þá hefur Trump allt aðra sýn og vill allt gera til að Bandaríkin séu leiðandi á báðum þessum sviðum.“
Á rafmyntasviðinu vill Trump m.a. að bandarísk stjórnvöld komi sér upp forða af rafmyntum og er hann afskaplega opinn og jákvæður hvað rafmyntir snertir. Magnús segir notagildi rafmynta bara eiga eftir að aukast og að vinveittara regluverk muni hjálpa þessum kima hagkerfisins. „Rétt eins og það tók ákveðinn tíma að nýta alla þá möguleika sem internetið fól í sér, þá mun það taka tíma fyrir rafmyntir að gjörbylta því hvernig við lifum en það er varla nema áratugur liðinn síðan rafmyntir komu fyrst til sögunnar og gerðu fólki í fyrsta sinn mögulegt að senda verðmæti yfir netið án þess að þurfa að reiða sig á milliliði sem taka til sín skerf.“
Sitt sýnist hverjum um stefnu Trumps á sviði alþjóðaviðskipta en eins og frægt er hefur hann hótað að hækka tolla á allan innflutning og skattleggja kínverskan varning alveg sérstaklega. Á móti hefur hann lofað alþjóðafyrirtækjum mjög hagfelldum sköttum ef þau flytja framleiðslu sína til Bandaríkjanna.
Greinendur hafa sumir áhyggjur af því að fyrirhuguð hækkun tolla geti leitt til þess að bandaríkjadalurinn styrkist sem síðan gæti valdið alls konar óæskilegum keðjuverkunum í bandaríska hagkerfinu og um allan heim. Hafa svartsýnustu greinendur jafnvel fullyrt að mikil styrking dalsins gæti sett markaðinn með bandarísk ríkisskuldabréf í uppnám og skapað mjög varsaman vítahring á skuldabréfamarkaði. Gæti ríkissjóður þá lent í slæmri stöðu enda skuldastaða hins opinbera með versta móti og fjárlagahallinn sömuleiðis.
Magnús hefur ekki miklar áhyggjur af ríkisbúskap Bandaríkjanna. „Í marga áratugi hafa heyrst áhyggjuraddir um að of mikill halli væri á fjárlögunum og áfall yfirvofandi, en samt hefur tekist að halda öllu gangandi, m.a. vegna þess að tækniframfarir hafa hjálpað hagkerfinu að vaxa. Reynslan kennir okkur að það að hafa miklar áhyggjur af yfirvofandi stóráföllum er öruggasta leiðin til að fá aldrei góða ávöxtun, en til að sefja áhyggjurnar er ógalið að fjárfesta t.d. í tæknigeiranum þar sem vöxturinn er oftast mestur,“ segir Magnús og minnir á viðtal sem hann veitti Morgunblaðinu sumarið 2023 þar sem hann benti á fjárfestingatækifæri í minni tæknifyrirtækjum sem höfðu þá gengið í gegnum niðursveiflutímabil. „Það varð raunin að markaðsverð margra þessara félaga hefur margfaldast síðan þá.“
Þessu tengt er Magnús mjög spenntur að sjá hvað gerist næst á sviði róbotatækni. „Mér sýnist að á næstu tveimur til þremur árum megi eiga von á að róbotar í mannsformi taki risastökk og myndi það þýða meiri háttar breytingu fyrir bandaríska hagkerfið. Nú þegar hafa miklar framfarir átt sér stað og eru róbótar í mannsmynd orðnir mjög fullkomnir og færir um að gera flókna hluti. Tesla sýndi þess konar róbota á viðburði um daginn og var þá gagnrýnt fyrir að róbotunum var sumum fjarstýrt af fólki af holdi og blóði – en þá gleymist hvers konar tækniafrek það er að manneskja geti einmitt stjórnað svona tæki úr fjarska. Þessi tækni fléttast síðan saman við gervigreind og hefur úr æ meira magni gagna að moða sem hjálpar róbotunum að læra að leysa alls kyns verkefni.“
Um stefnu Trumps í milliríkjaviðskiptum segist Magnús vona að tal Trumps um hærri tolla sé samningabrella. „Það þykir auðvitað ekki góð regla í langtímasamskiptum á milli þjóða að beita hótunum til að fá sínu framgengt, en Trump er vís til að vilja beita þvingunum af þessum toga til að knýja fram ívilnanir og gefa svo eftir. Til skamms tíma gætu verndartollar mögulega komið sér vel fyrir bandaríska hagkerfið en eina leiðin til að það borgi sig til langs tíma að t.d. flytja framleiðslu tiltekins varnings frá öðrum löndum yfir til Bandaríkjanna er ef það er í raun hagkvæmara að búa vöruna til þar frekar en annars staðar.“