Heilsueflandi fræðslufyrirtækið Saga Story House býður einstaklingum, hópum og vinnustöðum upp á fjölbreytta fræðslu og þjónustu sem miðast að því að efla heilsu og vellíðan starfsfólks á vinnumarkaði.
Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir eiga og reka Sögu og segir Ingibjörg að þær hafi stofnað fyrirtækið fyrir sex árum eftir að hafa séð á eftir starfsfólki í veikindaleyfi.
„Við höfðum báðar starfað lengi sem stjórnendur á vinnumarkaði og fundum fyrir þörf þar sem við vorum m.a. að missa fólk úr starfi í veikindaleyfi. Okkur fannst vanta leiðir til að hægt væri að bregðast fyrr við,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir fyrirtækið þjónusta fólk sem er komið í veikindaleyfi í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð, auk þess að vinna að fyrirbyggjandi leiðum með einstaklingum og vinnustöðum.
Ingibjörg bendir á að vinnumarkaðurinn muni aldrei losna undan streitu þar sem hún geti bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líðan og starfsorku.
„Við bjóðum upp á gagnreyndar leiðir og aðferðir til að efla jákvæða heilsu og vellíðan. Sem betur fer er streita ekki að yfirgefa vinnumarkaðinn því hún getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif. Jákvæð streita styður við einbeitingu, drifkraft og árangur og hefur hjálpað mannfólki við að takast á við ólíkar áskoranir. Þróist streitan í neikvæða átt til lengri tíma getur hún haft misalvarleg áhrif á heilsu fólks, bæði líkamlega og andlega,“ segir Ingibjörg.
Hún segir að fyrirtækið miðli verkfærum og leiðum sem sniðin séu að ólíkum viðbrögðum fólks við neikvæðri streitu sem geta verið af ýmsum toga.
Það er mjög ólíkt á milli einstaklinga hvaða neikvæðu áhrif langvarandi streita getur haft. Þetta geta verið líkamleg einkenni eins og verkir og vandamál með stoðkerfi, blóðþrýsting og orkuleysi. Fólk getur upplifað kvíða, depurð, svefnleysi og minnistruflanir og það er í raun mjög fjölbreytt hvernig neikvæðu einkennin birtast. Streituvaldarnir geta líka verið ólíkir, t.d. heilsubrestur, veikindi í fjölskyldum, áföll, álag og kulnun í starfi,“ útskýrir Ingibjörg.
Hún segir að það sé einnig misjafnt á milli einstaklinga hvað styðji við endurheimt og bataferli: „Með auknum skilningi og þekkingu á eigin streituviðbrögðum og endurheimt getum við stutt við heilsu okkar, seiglu og streituþol.“
Ingibjörg segir að með aukinni tækni og hraða fylgi áreiti sem geti haft áhrif á líðan fólks.
„Þetta snýst líka um heilaheilsu, við verðum fyrir miklu áreiti í nútímasamfélagi. Tæknin og tæknibyltingin er frábær en samhliða meiri tækni er mikilvægt að huga að meiri mennsku,“ segir Ingibjörg.
Hún segir að atvinnurekendur horfi í auknum mæli til þjónustu sem miðist að því að efla heilsu og vellíðan starfsfólks.
„Undanfarið hefur orðið mikil vitundarvakning um andlega heilsu á vinnustöðum. Það getur verið kostnaðarsamt að bregðast ekki við og missa fólk út af vinnumarkaði. Við upplifum aukinn áhuga og vilja. Stjórnendur vilja hlúa að fólkinu sínu með því að skapa heilsueflandi farveg,“ segir Ingibjörg að lokum.