Athafnamaðurinn Bjarni K. Þorvarðarson hefur komið víða við á ferli sínum, bæði hér heima og erlendis.
Bjarni situr í stjórn landeldisfyrirtækisins Matorku. Hann segir að áskoranir í landeldi séu bæði stórar og smáar. Hann nefnir sérstaklega atvik sem varð í jarðskjálftunum í nóvember 2023 í landeldisfyrirtækinu Matorku í Grindavík, þar sem þriðjungur af kerjum fyrirtækisins skemmdist og mikið af fiski drapst.
„Við þurftum að bretta upp ermarnar og spyrja okkur: Höfum við trú á verkefninu eða ekki? Ef þú hefur trú á því, þá seturðu hausinn undir þig og heldur áfram – og það var einmitt það sem við gerðum,“ segir hann.
„Fjármögnunarferlið fyrir enduruppbyggingu fyrirtækisins reyndist krefjandi, sérstaklega af því við erum með mikið af eldinu í Grindavík þar sem margt er ennþá að gerast.“ Bjarni segir að um mitt ár 2024 hafi verið ljóst að endurskipuleggja þyrfti efnahagsreikninginn. „Við fórum í nauðasamninga, færðum niður skuldir og settum inn nýtt hlutafé. Það ferli kláraðist í síðustu viku, og nú erum við að byggja félagið aftur upp,“ útskýrir hann.
Aðspurður um framtíðaráætlanir segir Bjarni að markmiðið sé að framleiða yfir 2.000 tonn á næsta ári og selja mest af því erlendis. „Við seljum nú þegar 90% af framleiðslunni út fyrir landsteinana,“ bætir hann við.
Bjarni er gagnrýninn á stöðu mála í Grindavík og segir það alls ekki ásættanlegt að stjórnvöld geti ekki ákveðið sig hvort byggja eigi upp bæinn aftur eða ekki.
„Skilaboðin frá stjórnvöldum eru skýr um að halda eigi úti og byggja upp atvinnustarfsemi í Grindavík, en framkvæmdin hefur verið allt önnur. Náttúruhamfaratryggingasjóður hefur gefið það út að nýjar fjárfestingar á svæðinu verði ekki tryggðar, og það gefur augaleið að þá verða engar nýjar fjárfestingar. Hér er hróplegt ósamræmi á milli orða og framkvæmda sem auðvelt væri að kippa í liðinn ef raunverulegur áhugi væri fyrir hendi,“ segir hann.
Hann bendir einnig á að tryggja þurfi að fyrirtæki í Grindavík búi við ásættanlegt orkuöryggi. „Það getur enginn komið í veg fyrir eldgos eða hraunrennsli, en það er hægt að búa sig undir slíkt með skýrum viðbragðsáætlunum. Hingað til hefur þó enginn vilji verið til þess fyrr en orkuver slær út eða vírar bráðna – og þá er kallað á neyðarfund, aftur og aftur eftir hvert gos,“ segir Bjarni.
Hann hefur kallað eftir því að Landsnet, HS Veitur, HS Orka og almannavarnir komi sér saman um sameiginlega viðbragðsáætlun fyrir Grindavík og ákveði fyrir fram hvernig bregðast eigi við áföllum.
„Það gengur ekki að allir bendi hver á annan þegar í óefni er komið og Grindavík er rafmagnslaus. Þetta þarf að laga strax, og ég hefði haldið að það væri í verkahring annars öflugrar Grindavíkurnefndar að sjá til þess að það gerðist. Það er ekki hægt að kenna gosinu einu um skort á undirbúningi,“ segir hann.
Bjarni bendir á að annars staðar á landinu, þar sem Landsnet er aðeins með eina tengingu en ekki hringtengingu, séu varaaflsstöðvar tiltækar og notaðar um leið og eitthvað
kemur upp á. „Því miður er það ekki raunin
í Grindavík, þrátt fyrir að bæjarfélagið sé aðeins með eina tengingu frá Landsneti,“
bætir hann við.
Þrátt fyrir áskoranir er Bjarni bjartsýnn á framhaldið og stefnir á jákvæða afkomu á næsta ári. „Við ætlum að skila fimm milljónum evra í EBITDA árið 2025 og enn meira árið 2026,“ segir hann. „Þegar við erum búnir að laga núverandi eldisaðstöðu, sem getur framleitt 3.000 tonn af bleikju, þá hefjumst við aftur handa við frekari stækkun á framleiðslu á þessum frábæra fiski sem margir telja bera af laxinum sem þó er framleiddur í margfalt meira magni.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum.