Eitt af verkefnum Kamils Zabielskis, forstöðumanns sjálfbærra fjárfestinga hjá norska eignastýringarfyrirtækinu Storebrand, er að stýra útilokunum (e. exclusions) svokölluðum, þ.e. hvaða fyrirtæki nauðsynlegt er að útiloka frá fjárfestingum vegna ósjálfbærra viðskiptahátta þeirra.
Zabielski var lykilframsögumaður á Janúarráðstefnu Festu í Silfurbergi í Hörpu sl. föstudag.
Ráðstefnan bar yfirskriftina „Straumar sjálfbærni“. Sjónum var þar beint að sjálfbærniáhættum í virðiskeðju fyrirtækja. Um er að ræða stærstu sjálfbærniráðstefnu á Íslandi en hún hefur verið haldin árlega frá árinu 2017.
„Sumum fyrirtækjum fjárfestum við ekki í. Við erum mjög skýr hvað það varðar. Þar má nefna fyrirtæki sem tengjast mannréttindabrotum, neikvæðum áhrifum á umhverfið eða spillingu en einnig tengist þetta vörum sem fyrirtæki framleiða eins og umdeildum vopnum, kjarnavopnum, klasasprengjum eða öðru sem hefur verið bannað á alþjóðavettvangi,“ segir Zabielski í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir að viðbótarútilokanir gildi fyrir fjárfestingar á sænska markaðinum og í sjálfbærustu sjóðum fyrirtækisins. „Fyrir Svíþjóð og flesta sjóði okkar má nefna útilokanir vegna t.d. fjárhættuspila, kláms og jarðefnaeldsneytis. Útilokanir vegna tóbaksframleiðslu eiga síðan við um alla okkar sjóði.“
Zabielski segir að útilokunarstarfsemin útheimti mikla rannsóknarvinnu. „Teymi mitt á samtöl við fyrirtækin. Við vinnum bæði að eigin frumkvæði (e. pro active) en einnig bregðumst við við eftir á (e. re active). Stundum þarf að bregðast við ef eitthvað óvænt gerist. Fyrirtæki flækist kannski í mál tengd vinnumansali eða lendir í lögsóknum. Þá eigum við samtöl við félagið til að komast að því hvað það ætli til bragðs að taka. Ef það er ekki til í að bæta ráð sitt verðum við að mæla með útilokun. Það endar þá með að öll bréf í viðkomandi félagi eru seld úr öllum okkar sjóðum. En við hlaupum ekkert til. Við gerum slíkt aldrei nema að vel athuguðu máli. Okkar nálgun er að reyna að hafa áhrif og fá fyrirtækin til að bæta sig.“
Þó að Storebrand sé stórt á sínu sviði, og leiðandi á Norðurlöndum í sjálfbærum fjárfestingum, er það lítið á alþjóðavísu. „Við getum átt í beinu samtali við norræn félög en þegar kemur að alþjóðlegum fyrirtækjum er oftast áhrifaríkast að safna saman stærri hópi fjárfesta til að þrýsta á fyrirtækin að grípa til aðgerða.“
Zabielski segir að vissulega sé rannsóknarstarfsemi Storebrand viðamikil og geti verið kostnaðarsöm. En sjálfbærni sé kjarninn í starfsemi Storebrand og félagið hafi byrjað að vinna með þessum hætti löngu áður en umræða um sjálfbærni komst í hámæli. „Við höfum verið að vinna í þessu í tuttugu ár. Við gerum meira en bara að gúggla fyrirtæki í okkar rannsóknum. Við notum háþróuð gagnasett úr ýmsum áttum og vegum og metum hvað er nógu alvarlegt til að íhuga útilokun.“
Spurður að því hvernig fyrirtæki taki því þegar Storebrand óskar eftir samtölum vegna mögulegra útilokana segir Zabielski að þau fyrirtæki sem lendi í frumkvæðisathugunum taki því yfirleitt vel og séu opin fyrir samtalinu. „Þar komum við inn með sérfræðiþekkingu og innsýn og útskýrum fjárhagslega og lagalega áhættu sem felst í einhverjum atriðum sem við höfum komið auga á í starfsemi þeirra. Sjálfbærniáhætta getur auðveldlega orðið fjárhagsleg sem og orðsporsleg.“
Zabielski segir að oft átti fyrirtæki sig ekki á að þau hafi unnið á ósjálfbæran hátt. Hann nefnir sem dæmi vindmyllufyrirtæki sem reisir myllur á landi samískra hreindýrahirða. „Þegar verkefnið er hálfnað hóta Samarnir málsókn, verkið stoppar og allt fer í hnút. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtækin séu alltaf búin að íhuga öll áhrif af starfsemi sinni, og þar getum við komið inn með ráðgjöf. Við viljum skapa virði til langs og skamms tíma.“