Þrír nýir starfsmenn hafa gengið til liðs við fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, Guðríður Svana Bjarnadóttir og Ólafur Örn Ólafsson í stöður verkefnastjóra og Helena Wessman í starf sérfræðings. Frá þessu er greint í tilkynningu.
Guðríður Svana Bjarnadóttir kemur til Íslandsbanka frá Marel þar sem hún hefur starfað í leiðtogahlutverki frá 2018. Áður starfaði hún meðal annars sem framkvæmdastjóri rekstrar hjá Marorku, yfirlögfræðingur hjá Advania, lögfræðingur hjá skilanefnd Kaupþings og í fyrirtækjaráðgjöf hjá KPMG í New York.
Svana er með cand. jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands, LL.M. í viðskiptum og alþjóðlegum skattarétti frá New York University og verðbréfaréttindi.
Ólafur Örn Ólafsson starfaði áður hjá Borealis Data Center þar sem hann var fjármálastjóri frá haustinu 2018. Áður starfaði hann hjá bílaumboðinu Heklu sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs, sem verkefnastjóri á ráðgjafarsviði KPMG um níu ára skeið og þar áður hjá Opnum kerfum.
Ólafur er með MSc í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og MSc í verkfræði frá University of Colorado auk þess að hafa lokið námskeiðinu Viðurkenndir stjórnarmenn.
Helena Wessman starfaði í fyrirtækjaráðgjöf hjá fjárfestingabankanum Jefferies í London í um tveggja ára skeið áður en hún gekk til liðs við fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka. Þar áður starfaði hún á sölu- og markaðssviði Alvogen og í greiningu og þróun hjá Alvotech.
Helena er með gráðu í alþjóðlegri þróunarhagfræði frá King's College London og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum frá Chartered Institute for Securities & Investment (CISI) í Bretlandi.