Fjárhagsvandi þrýstir á sölu eigna

Brák er ætlað að tryggja ákveðnum hópum íbúðir til langtímaleigu.
Brák er ætlað að tryggja ákveðnum hópum íbúðir til langtímaleigu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur 27. janúar síðastliðinn að heimila Leigufélagi aldraðra að selja íbúðir til Brákar íbúðafélags. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur allt síðasta ár unnið að því að aðstoða Leigufélag aldraðra vegna fjárhagsvanda félagsins. Niðurstaða þeirrar vinnu er að selja Brák allar íbúðir í eigu félagsins, alls 49 íbúðir við Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík og 31 íbúð að Dalbraut 6 á Akranesi.

Reykjavíkurborg setti það skilyrði að íbúðirnar yrðu vistaðar í sérdeild hjá Brák og leigðar eingöngu tekju- og eignalitlum eldri borgurum í Reykjavík. Samkvæmt lögum er óheimilt að selja slíkar íbúðir nema með leyfi HMS og viðkomandi sveitarfélags. HMS hefur samþykkt söluna enda sé ekki rekstrargrundvöllur fyrir íbúðunum innan Leigufélags aldraðra.

Brák var stofnað 2022 af 31 sveitarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins og síðan þá hafa tvö sveitarfélög bæst við. Tilgangur félagsins er að stuðla að uppbyggingu leiguíbúða. Fjármunir félagsins koma frá ríki og sveitarfélögum, 18% frá ríki en 12% frá sveitarfélögunum. Það sem upp á vantar er tekið að láni. Samþykktum verður breytt þannig að starfssvæði félagsins taki til alls landsins. Brák er óhagnaðardrifin húsnæðissjálfseignarstofnun sem ætlað er að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum, ásamt þá nú einnig öldruðum, íbúðir til langtímaleigu. Starfar þannig ekki á almennum markaði heldur fær tillögur frá sveitarfélögunum ásamt því að auglýsa eftir leigjendum. Í lok árs 2024 voru um 155 íbúðir í útleigu og áætlanir ganga út á að í lok þessa árs verði íbúðir orðnar 269 talsins.

Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Einar Georgsson framkvæmdastjóri Brákar: „Það er meginmarkmið með samningum milli aðila að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni og renna styrkari stoðum undir rekstur íbúðanna og áframhaldandi útleigu þeirra til tekju- og eignalægra eldra fólks. Með kaupunum er húsnæðisöryggi leigjenda Leigufélags aldraðra tryggt til lengri tíma litið og enn sterkari stoðum rennt undir rekstur og uppbyggingaráform Brákar.“ mj@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK