Fúnu fjalirnar og leikreglurnar

Treyst á árabát, settan saman úr fúnum fjölum sem Flokkur …
Treyst á árabát, settan saman úr fúnum fjölum sem Flokkur fólksins er. mbl.is/Karítas

Inn­herji er skoðana­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Það er oft erfitt að greina á milli stjórnmála og viðskipta, enda mynda stjórnmálamennirnir lagarammann og leikreglurnar fyrir fyrirtæki landsins þegar þeir mæta á þing.

Síðustu daga hefur verið pínlegt að fylgjast með sumum þingmönnum landsins. Líklega hefur engin stjórn byrjað stjórnarsetu sína jafn illa og stjórn Kristrúnar Frostadóttur.

Það er flestum ljóst að Inga Sæland og hennar eldhúsflokkur á ekkert erindi í ríkisstjórn landsins. Það er ekki bara frekjan, sjálftakan, meint aðgengi að lögreglu landsins sem sérstökum varðhundi og ólögleg viðtaka fjármagns úr rikissjóði sem hefur vakið undran. Það er einnig hvernig einstakir þingmenn flokksins haga sér. Vísvitandi skrá þeir ekki hagsmuni sína þótt það sé lögum samkvæmt eins og Sigurjón Þórðarson strandveiðigarpur sem berst fyrir auknum veiðum við landið en upplýsir ekki að hann hafi beina fjárhagslega hagsmuni af því. Það er ekki skrítið að það sé baráttuhugur í honum.

Athygli vekur jafnframt að síðan 2022 hefur sonur Ingu, Baldvin Örn Ólason, setið í stjórn póstsins. Þetta var gagnrýnt þegar hann var ráðinn en auðvitað ekkert gert. Á heimasíðu fyrirtækisins, sem er í eigu þjóðar og hefur að undanförnu átt lítið sammerkt með þjónustu eða vönduðum vinnubrögðum ef miðað er við hægagang við dreifingu sendinga og upplýsingagjöf til Hagstofunnar, er Baldvin kynntur til leiks ásamt meðstjórnendum. Það virðist ekkert, bókstaflega ekkert, vera hægt að segja um manninn. Hvað með þessar hæfnisreglur og allt þetta faglega mat sem stjórnmálamennirnir leggja svo mikið upp úr og heilu stofnanirnar ganga út á? Hér virðist vera nóg að vera sonur Ingu. Hefði kannski verið heiðarlegra að segja það einfaldlega.

Kristrún og Þorgerður Katrín virðast síðan ekki hafa neinn tíma til að sinna hagsmunum þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ekki mætir Kristrún á fund forsætisráðherra Norðurlandanna. Kannski lítur hún svo á að við séum enn undir ríki Dana og nægilegt að þeir mæti! Þorgerður kemst síðan ekki á fund norrænna varnarmála eftir að hafa verið á flandri um Evrópu með íslenska handboltaliðinu en talar hins vegar digurbarkalega um hvað slíkt samstarf sé mikilvægt, sérstaklega á stríðstímum. Er þá ekki ágætt að byrja á að mæta á fundinn?

Hvað er svona mikilvægt sem þær stöllur eru að sinna að þær eigi ekki heimangengt? Er það mögulega líf ríkisstjórnarinnar sem virðist í öndunarvél strax á fyrstu metrunum? Í öllu falli stórlaskað. Þær átta sig sennilega á því að þær lögðu úr vör á litlum árabát sem settur er saman úr fúnum fjölum sem Flokkur fólksins er. Hann mun gefa sig, bara spurning hvenær.

Miðað við tilsvör síðustu vikna virðast sumir þingmenn telja sig hafna yfir lög, upplýsingagjöf og almennar leikreglur samfélagsins. Er þeim þá treystandi til að sinna verkefnum þingsins, getur sá sem virðist löglaus sett hinum reglur?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK