Hili er sjóður sem býður upp á að koma til móts við fasteignaeigendur með fjárfestingu í hluta íbúðarhúsnæðis þeirra. Á þeim örskamma tíma síðan Hili var komið á laggirnar á Íslandi, í nóvember 2024, hafa myndast biðlistar sem fara ört vaxandi.
Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri Hili á Íslandi, var gestur í viðskiptahluta Dagmála þar sem hann ræddi um starfsemi Hili en einnig um fjármálamarkaðinn og tryggingamarkaðinn en Sigurður starfaði lengi vel sem forstjóri TM og um hríð sem aðstoðarforstjóri Kviku.
Sigurður útskýrir að með viðskiptamódeli Hili gefst fasteignaeigendum tækifæri á að selja hluta af eignum sínum til sjóðsins í þeim tilgangi að losa um hluta af fjárfestingunni sem þar er bundinn. Lausnin er hönnuð til að hjálpa fasteignaeigendum að mæta óvæntum útgjöldum eða skipuleggja framtíðina án þess að auka skuldir eða neyðast til að selja heimili sín að fullu.
„Við erum að veðja á hækkun fasteignaverðs á Íslandi," segir Sigurður í Dagmálum.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: