Skel hyggst greiða út 6 milljarða arðgreiðslu

Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skeljar.
Ásgeir Reykfjörð forstjóri Skeljar. mbl.is/Arnþór

Stjórn Skel leggur til að greiddur verði út arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð 6.000 milljónir króna sem samsvarar 3,19 kr. á hlut. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu félagsins sem birt var eftir lokun markaða í gær.

Stjórn mun leggja til við hluthafafund að arður verði greiddur út í tveimur greiðslum, að fjárhæð kr. 3.000 milljónir króna í hvort skipti.

Þann 16. apríl 2024 greiddi SKEL út arð sem samsvaraði 0,39 kr. á hlut eða 750 milljónir króna. 

Hagnaður Skel eftir skatta nam 6.754 milljónum króna, arðsemi eiginfjár upp á 18,3%. Eignir félagsins námu 60.570 milljónum króna Eigið fé nam 43.728 milljónum króna sem samsvarar 23,3 á hvern útgefinn hlut. Gangvirðisbreytingar af skráðum eignum var jákvæð um 2.145 milljónir króna. Gangvirðisbreytingar af óskráðum eignum var jákvæð um 5.375 milljónir króna.

EBITDA samstæðu Styrkáss 2024 var 2.649 milljónir króna sem er 2% umfram áætlanir stjórnenda.

Styrkás undirritaði nýlega kaupsamning um Hringrás ehf. Með kaupum á Hringrás er mikilvægt skref stigið til að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp fjórða kjarnann í rekstri félagsins á sviði umhverfisþjónustu.

Virði 63,4% eignarhlutar SKEL í Styrkási er skráður í bækur SKEL á 12.969 milljónir k´rona sem byggir á síðasta viðskiptaverði með hlutafé félagsins.

Heilt yfir gengur rekstur Orkunnar og tengdra félaga vel og var EBITDA 5% umfram áætlun ársins 2024. Að mati stjórnenda er útlit fyrir áframhaldandi góðan rekstur og fyrir vikið hækkar verðmat á Orkunni og Löðri um 1,5 milljarða króna á árinu. Samanlagt virði samstæðunnar er 10,7 milljarðar króna í árslok.

Verði af samruna Samkaupa og Heimkaupa er áætlað að SKEL eigi óbeint samtals um 13,7% hlut í Samkaupum, verðmetinn á 1.576 milljónir króna Stjórnendur Samkaupa hafa kynnt hluthöfum hagræðingar- og vaxtaráform félagsins. Stjórnendur Samkaupa og Heimkaupa telja tækifæri til samlegðar við samrunann sem geti nýst til að styrkja sameinað félag í samkeppni á matvörumarkaði. SKEL deilir þeirri skoðun með Samkaupum og mun styðja við þessi markmið sem hluthafi í félaginu. Gert er ráð fyrir að samruninn verði að fullu kominn fram á fyrri hluta ársins.

Veltuaukning Lyfjavals á árinu var 11,4% og er EBITDA félagsins 139 milljónir króna, sem er lægra en áætlað var. Vegna þessa hefur SKEL lækkað verðmat sitt á Lyfjavali.

Um mitt ár 2024, keypti Stork sem er  félag í 100% eigu SKEL sem er ætlað að halda utan um allar erlendar fjárfestingar á smásölumarkaði, í samstafi við Axcent of Scandinavia (AoS), belgísku verslunarkeðjuna INNO. Um er að ræða eina stærstu og þekktustu verslunarkeðju (e. department store) í Belgíu, en INNO hefur verið starfrækt síðan árið 1897. Félagið rekur 16 verslanir víðsvegar um Belgíu sem telja samtals 130.000 fm og starfa tæplega 1.400 manns hjá félaginu.

Á síðasta reikningsári nam sala INNO 42,4 milljörðum króna, og fjöldi heimsókna í verslanir félagsins nam 21,4 milljónum. EBITDA afkoma félagsins var 1,4 milljarðar króna. Áherslur SKEL og AoS miðast við að félagið bæti upplifun viðskiptavina með endurbótum á verslunum og auki arðsemi með aukinni áherslu á eigin vörumerki. Hlutur SKEL í Stork er bókfærður á 2.208 milljónir króna í ársreikningi.

Haft er eftir Ásgeir Reykfjörð forstjóra Skel í fréttatilkynningu að afkoma SKEL á árinu 2024 hafi verið góð þrátt fyrir áskoranir á fyrri helming ársins. Afkoma og framþróun eigna SKEL var í flestum tilfellum yfir áætlunum enda byggir eignasafn SKEL á sterkum grunni og er vel dreift.

„Hlutverk félagsins er að þróa viðskiptatækifæri og skapa verðmæti til langs tíma. Með það að markmiði voru stigin mikilvæg skref á árinu 2024. Ákveðið var að auka hlutdeild erlendra eigna félagsins úr 3% í allt að 30% og var unnið að kortlagningu fjárfestingatækifæra í Evrópu sem leiddi í ljós mikil tækifæri á neytendamarkaði. Styrkás stefnir að skráningu á markað á árinu 2027 og mun þá bætast í traust eignasafn skráðra eigna SKEL ásamt Kaldalóni og Skaga. Skráðar eignir SKEL gengu vel á árinu og var ávöxtun þeirra 28% að teknu tilliti til arðgreiðslna. Á árinu var Kaldalón tekið inn í úrvalsvísitöluna og Skaga ýtt úr vör sem öflugu fjármálafyrirtæki á sviði trygginga, eignastýringar og fjárfestingabankastarfsemi. Skráðar eignir SKEL nema um 16% af heildareignum en stefnt er að því að allt að helmingur eignanna verði í skráðum félögum. Á árinu 2025 verður unnið að sölu fasteigna félagsins við Stefnisvog og frekari áhættudreifingu í eignasafninu. Mikilvægt er að fylgja eftir fyrirhugaðri uppbyggingu í innviðum hér á landi með alhliða þjónustu við innlend fyrirtæki en jafnframt verður áhersla á að finna öfluga samstarfsaðila til þátttöku í erlendum fjárfestingaverkefnum,“ er haft eftir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK