Fjölmiðla og fjarskiptafyrirtækið Sýn hefur sent frá sér afkomuviðvörun. Félagið tilkynnir að gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins fyrir árið 2024 verði í kringum 700 milljónir króna sem er undir áður útgefnu spámarki félagsins, sem og rauntölum úr rekstri miðað við afkomu fjórða ársfjórðungs og ársins 2023.
Uppfærð spá gerði ráð fyrir að EBIT lægi nær neðri mörkum bilsins 900–1100 milljónum króna Helstu ástæður fráviksins eru auglýsingatekjur, áskriftartekjur af sjónvarsmiðlum, eignfærslur launakostnaðar og brunatjón.
Sala auglýsinga reyndist talsvert undir upphaflegum áætlunum, eða 258 m.kr. á síðustu tveimur fjórðungum ársins, þar af 157 milljónir á fjórða ársfjórðungi og leiddi það til endurmats á þeim rekstrarhluta.
Tekjur af áskriftum voru um 106 milljónir króna undir þeim markmiðum sem sett höfðu verið.
Félagið hefur sett sér eignfærslustefnu og á grundvelli hennar tekið ákvörðun um að eignfæra minna en áætlað hafði verið og nemur mismunurinn 112 milljónum króna.
Um mánuði eftir útgáfu spárinnar varð félagið fyrir verulegu tjóni vegna eldsvoða sem nú hefur verið metið á um 600 milljónir króna. Samþykkt bótaupphæð nemur 207 milljónum króna en bruninn hefur haft í för með sér aukinn kostnað og kallar á auknar fjárfestingar til endurnýjunar á skemmdum búnaði.
Í tilkynningunni kemur fram að rekstur fjarskipta hafi verið á áætlun á árinu og þrátt fyrir ofangreindar áskoranir hefur rekstrarkostnaður einnig þróast í samræmi við áætlanir og er í takt við markmið félagsins um aukna skilvirkni.
Félagið mun þurfa að endurskoða áður útgefin viðmið um EBIT fyrir árið 2025 til lækkunar til að bregðast við ofangreindum frávikum. Horfur félagsins fyrir 2025 verða birtar samhliða endanlegu ársuppgjöri þann 20. febrúar nk. Ársuppgjör félagsins er enn í vinnslu og getur tekið breytingum fram að birtingu.