Geirlaug Þorvaldsdóttir, eigandi Hótels Holts, tekur elskulega á móti ViðskiptaMogganum í Kjarvalsstofunni á Hótel Holti. Það leynir sér ekki að þar líður henni vel.
Hvers vegna hafðir þú meiri áhuga á hótelrekstrinum en systkini þín?
„Það má segja að Katrín vann aldrei á hótelinu – ég held að ég fari rétt með það – en Skúli bróðir minn var náttúrlega hótelstjóri hér og rak hótelið um árabil en vildi skipta um vettvang.“
Hvernig er vinnuvikan hjá þér?
„Ég er vakin og sofin yfir hótelinu. Er alltaf að hugsa eitthvað nýtt. Núna er ég að hugsa eitthvað alveg splunkunýtt. Ég fékk nýja hugmynd en veit ekki hvort ég kem henni í verk,“ segir Geirlaug leyndardómsfull og hefur sem fyrr mörg járn í eldinum.
Geirlaug segir foreldra sína hafa viljað að þjóðin eignaðist listaverkasafnið á Holtinu. Það telur um 1.400 verk og þar af er einn þriðji á hótelinu. „Ég fór að hugsa málið og mundi þá eftir setningu sem móðir mín sagði við mig þegar við sátum heima í Háuhlíð, við mamma og pabbi: „Við pabbi þinn viljum að íslenska þjóðin eignist málverkasafnið,“ sagði mamma en við vorum að ræða framtíðina, sem var ekki algengt. Það er gott að ég mundi þetta og þá var þetta afgreitt. Þess vegna bað ég Listasafn Íslands að taka safnið til framtíðarvörslu en með því skilyrði að verkin sem hér eru verði hér áfram. Því þetta er ekki aðeins hótel. Þetta er líka listasafn.“
Við göngum svo um salarkynnin og staðnæmumst við verk Eíríks Smith, sem er í bakgrunni ljósmyndarinnar hér fyrir ofan.
„Þessi mynd er eftir Eirík Smith og pabbi var harðákveðinn í að hann ætlaði að kaupa hana. Og Eiríkur var líka ákveðinn að hann ætlaði ekki að selja hana. Þá segir pabbi: „Af hverju viltu ekki selja hana?“
„Af því að þetta er hún mamma,“ svaraði Eiríkur. Og þá kom pabbi með góða hugmynd og sagði: „Ég skal segja þér eitt. Ég ætla að gera þér tilboð. Þú kemur þegar þú vilt í hádegisverð á veitingastaðinn og þegar þú ert búinn að borða kemurðu með kaffi, eða kaffi og koníak, og sest hér niður og horfir á mömmu þína eins lengi og þú vilt og eins oft og þú vilt.“ Eiríki fannst þetta góð hugmynd og seldi verkið.“
Við göngum svo inn í matsalinn og staðnæmumst við verk eftir Kjarval sem er lengst til hægri á myndinni hér til hliðar.
„Hér á hótelinu dvaldi oft og tíðum bandarískur ljósmyndari og hann var svo hrifinn af þessari mynd og vildi endilega kaupa hana. Svo að ég sagði honum að taka bara ljósmynd af því að hann væri ljósmyndari. Þá sagðist hann vera búinn að því og bað hann alltaf um það sama. Þar kom að ég sagði að þetta væri orðið dálítið leiðigjarnt og þá sagðist hann vilja gera mér tilboð. „Komdu til Parísar en þar er ég með stúdíó. Þar hef ég yfirráð yfir mörgum verkum eftir Picasso og þú mátt velja þér verk og ég fæ þessa mynd í staðinn.“ En ljósmyndarinn var, að mig minnir, kærasti barnabarns Picassos. List er náttúrlega alþjóðleg en Kjarval vildi ekki selja sínar myndir til útlanda. Ég hafði því ekkert umboð til að láta myndina úr landi og hélt áfram að vera leiðinleg,“ segir Geirlaug Þorvaldsdóttir og brosir.
Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum.