Geirlaug Þorvaldsdóttir, eigandi Hótels Holts, tekur elskulega á móti ViðskiptaMogganum í Kjarvalsstofunni á Hótel Holti. Það leynir sér ekki að þar líður henni vel.
Hvað er að frétta af rekstri hótelsins? Þú keyptir hlut systkina þinna í hótelinu árið 2004 og ert því búin að eiga það í rúm 20 ár. Hvernig hefur þessi tími verið?
„Hann hefur verið lærdómsríkur. Við erum komin á beinu brautina. Það var dýrt að taka lánið í bankanum en það hafa orðið svo miklar breytingar og uppgangur að ég er mjög ánægð.“
Hvenær tókstu lán?
„Ég tók strax lán árið 2004 til að geta keypt hótelið. Mér datt aldrei neitt annað í hug en að labba inn í minn banka enda er veðið flott sem bankinn hefur sem er þetta hús. Það hefur gengið vel.“
Svo ferðu í gegnum bankahrunið? Hvaða áhrif hafði það til skemmri tíma á reksturinn?
„Ég komst vel frá því. Þá urðu ekki svo miklar breytingar en það er mikið sem þarf stöðugt að vera að endurnýja og laga til þess að halda hlutunum við. Það má ekkert drabbast niður.“
Þannig að viðhald kostar sitt?
„Já. Ég get sagt þér að ég passa peningana vel. Ég eyði ekki um efni fram. Ég geri hlutina ef ég hef efni á því. Aðalmálið við rekstur er að fara ekki fram úr sér. Ekki henda öllu út og kaupa nýtt. Það kostar svo mikið.“
Hvernig sækirðu viðskiptavini?
„Þeir koma aðallega að utan. Þetta hefur mikið breyst en áður fyrr, þegar ég var að vinna í móttöku meðfram námi, voru viðskiptavinirnir fyrst og fremst íslenskir viðskiptamenn utan af landi og svo útlendingar í viðskiptum. Þess vegna gerðum við á sínum tíma breytingar á herbergjaskipan. Herbergin voru fleiri en við gerðum tvö herbergi að einu þannig að fólk gat tekið á móti gestum inni hjá sér. Það þótti þeim svo mikið atriði að geta verið eins og heima hjá sér, í burtu að heiman, þetta var svo huggulegt, stofa og svefnherbergi.“
Síðan hafið þið fjölskyldan alltaf lagt mikið upp úr því að vera með glæsilega veitingaþjónustu. Hér var einn fínasti veitingastaður á Íslandi? Það hefur átt sinn þátt í góðri afspurn.
„Jú og nú er ég komin á þann stað í lífinu að ég ætla að opna veitingastaðinn aftur 12. febrúar.“
Staðnum var lokað 2018. Hvað kemur til?
„Það kemur til af því að það fór svo gott orð af okkar veitingastað. Við ætlum þó ekki að hafa hann opinn sjö daga vikunnar. Það er mikið spurt um veitingastaðinn og ég segi öllum sem hingað koma að það sé nóg af veitingastöðum í bænum en ég veit að þessi var og mun verða toppurinn. Svo höldum við að sjálfsögðu áfram að taka á móti hópum í mat fyrir alls konar tilefni. Í það höfum við afar fallegan sal sem er kallaður Þingholt en það er kjörinn staður fyrir veislur og móttökur af öllum gerðum.“
Hvað ertu með mörg herbergi núna?
„Ég er með 42 sem er náttúrlega ekki mikið.”
Það voru hugmyndir um að stækka hótelið? Hvernig standa þau áform?
„Því miður var ég ekki nógu góð til heilsunnar allan síðasta vetur og gat þá ekki verið að hugsa um þetta. Nú ætla ég að skoða málið betur. Málið er á borði verkfræðings sem er að finna út hvað þetta mun kosta mig en ég ætla aðeins að safna meiri kröftum og gá hver niðurstaðan verður.“
Þannig að það kemur til greina að bæta við herbergjum?
„Já en ekki með því að byggja við húsið heldur á bílaplaninu hér beint á móti.“
Sem sagt að byggja sjálfstæða byggingu sem er þá eingöngu með herbergjum?
„Já.“
Gestir gagna þá yfir götuna í morgunverðinn eða í móttökuna?
„Já. Alveg hárrétt.“
Viðtalið má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum.