„Ég drekk ekkert fjandans merlot!“

Gestir láta fara vel um sig á samkomu hjá Duckhorn. …
Gestir láta fara vel um sig á samkomu hjá Duckhorn. Lífið í Napa-dalnum getur verið agalega notalegt og vínin þaðan ekki amaleg. AFP/Tim Mosenfelder

Hið ljúfa líf er viku­leg­ur lífstíls­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Ég reikna með að flestir lesendur ViðskiptaMoggans hafi séð bandarísku kvikmyndina Sideways frá 2004. Þar fer Paul Giamatti á kostum í hlutverki vínáhugamanns sem heldur af stað með vini sínum í vikulangt ferðalag um vínræktarsvæðin í Santa Barbara í Kaliforníu.

Sideways gerir m.a. lúmskt grín að vínsnobbi, en sögupersóna Giamattis hefur afskaplega sterkar skoðanir á víngerð og hefur sérstaklega mikið dálæti á pinot noir-þrúgum en fyrirlítur merlot.

Í frægasta atriði myndarinnar er söguhetja Giamattis á leið á vínbar með félaga sínum sem brýnir fyrir honum að vera til friðs því þeir hafi mælt sér mót við huggulegar konur:

„Ekki skemma fyrir mér. Ef þær vilja merlot þá drekkum við merlot,“ segir vinurinn.

„Ef einhver pantar merlot þá er ég farinn,“ svarar Giamatti. „Ég drekk ekkert fjandans merlot!“

Myndin öll, og ekki síst þessi stutta sena, hafði veruleg áhrif á bandarískan vínmarkað og sýndu markaðsrannsóknir að sala og framleiðsla á pinot noir tók kipp þar í landi á meðan merlot-markaðurinn fékk á sig skell. Skömmu eftir að myndin kom út hafði sala bandarískra merlot-vína dregist saman um 2% í vesturhluta Bandaríkjanna, eftir að hafa verið í stöðugum vexti árin þar á undan, en sala pinot noir-vína jókst um 16%.

Það tók bandaríska merlot-markaðinn langan tíma að ná sér á strik og enn eimir eftir af fordómum í garð þessarar þrúgu. Giamatti ljóstraði upp um það í viðtali að algjör tilviljun réði því að merlot varð fyrir valinu í bíómyndinni – það féll einfaldlega vel að handritinu, en hvorki hann né aðrir sem komu að gerð Sideways höfðu neitt sérstakt vit á víni og vínþrúgum.

Merlot-þrúgur eru hinar ágætustu, og það er engin trygging fyrir góðu víni að velja pinot noir. Það hefur mun meiri áhrif á bragðgæðin hvar þrjúgurnar eru ræktaðar og mikill munur á Kaliforníuvínum eftir því hvernig veðurskilyrði og jarðvegur eru á hverri vínekru fyrir sig.

Það sama má segja um upprunaland víns, en sumir þykjast ekki taka neitt annað í mál en að drekka frönsk vín, spænsk eða ítölsk, og fitja jafnvel upp á nefið þegar bandarísk vín berast í tal, og minna mig þá svolítið á söguhetju Giamattis.

Enginn vill reykt rauðvín

Miklir eldar geisuðu í Kaliforníu á dögunum, einmitt á þeim slóðum þar sem atburðir Sideways eiga að gerast, og óttuðust vínunnendur að framleiðslan á svæðinu hefði orðið fyrir tjóni. Blessunarlega sluppu vínekrurnar nokkuð vel þó að ófáir veitingastaðir og vinsælir vínbarir hafi orðið eldinum að bráð.

Það á eftir að koma í ljós hvort reykurinn hefur farið illa með þrúgurnar á nærliggjandi vínekrum en ef reykur kemst að vínviðinum eiga berin það til að fá á sig óskemmtilegan keim. Þekktustu vínræktarhéruð Kaliforníu eru þó mun norðar, og þó svo að töluverð vínrækt eigi sér stað í jaðri Los Angeles og á svæðinu milli Los Angeles og San Francisco þykja bestu vínin koma frá ræktunarsvæðunum norðan við San Francisco og eru Sonoma og Napa þau frægustu.

Mér finnst upplagt að fjalla stuttlega um kalifornísk eðalvín hér á síðum blaðsins, því eftir öll þau áföll sem hafa dunið á svæðinu er núna heldur betur rétti tíminn til að sýna Kaliforníu stuðning.

Fyrir valinu varð framleiðandinn Duckhorn sem á sér núna hálfrar aldar sögu og er með bækistöðvar sínar í Napa. Fyrir valinu urðu þrjár flöskur: Paraduxx 2019 sem er blanda með cabernet sauvignon í forgrunni; Napa Valley cabernet sauvignon 2021 og síðast en ekki síst Three Palms Merlot 2020.

Nú skyldi ég aldeilis drekka fjandans merlot!

Duckhorn þykir afskaplega góður fulltrúi Napa-víngerðar og hefur t.d. margoft ratað á árlegan lista bandaríska víntímaritsins Wine & Spirits yfir 100 bestu vínframleiðendur heims.

Vínunum frá Duckhorn eru gerð ágætis skil í verslunum ÁTVR, þökk sé heildsalanum Borg99 ehf., og gaman að láta það fljóta með að flöskurnar eru ódýrari á Íslandi en hér á Ítalíu þar sem ég dvel um þessar mundir.

Alsæll með Steve McQueen og KFC

Merlot-rauðvínið frá Three Palms-vínekrunni ber af, en er líka það dýrasta af flöskunum þremur. Það voru merlot-vínin sem komu Duckhorn upphaflega á kortið í vínheiminum og sem dæmi um sterkt orðspor þessara vína þá var 2014-árgangurinn af Three Palms merlot valinn vín ársins af Wine Spectator árið 2017 – ekki lítið afrek það.

Nú þarf ég að játa að ég hef lengi haft lauflétta fordóma gegn merlot. Ekki ósvipað söguhetju Sideways hefur mér yfirleitt þótt betra að veðja á pinot noir, og ekki fundist merlot-vín skilja mikið eftir sig. En svona er maður alltaf að læra, því Three Palms merlot er algjör sprengja.

Ég leyfði víninu að anda í 15 mínútur, og hefði kannski alveg mátt gefa því ögn meiri tíma, en drykkurinn reyndist afskaplega blæbrigðaríkur, þéttur og fínn, með sterkan persónuleika og vínið framúrskarandi gott bæði eitt og sér og með mat. Í gríni gerði ég nokkrar pörunartilraunir og reyndist vínið m.a. smellpassa við gráðostapítsu og ítalska hunangsnúgatbita. Vínið passaði meira að segja með apótekaralakkrís sem ég fann ofan í skúffu í eldhúsinu.

Sideways lýkur þar sem aðalsöguhetjan situr buguð á skyndibitastað, gæðir sér á búlluborgara og laumast til að drekka 40 ára gamalt árgangsvín úr pappamáli; vonlaus og bugaður en kominn aftur niður á jörðina. Í anda myndarinnar pantaði ég mér nokkra bita frá KFC, hellti víni í glas og streymdi The Thomas Crown Affair – þessari með Steve McQueen frá 1968 – og átti afskaplega ánægjulega kvöldstund á fimmtudegi.

Um hinar flöskurnar tvær hef ég ekkert nema gott að segja, þó svo mér þyki verð- og gæðamunurinn réttlæta að kaupa frekar Three Palms merlot. Paraduxx 2019 er hin ágætasta blanda, auðdrekkanlegt og líflegt vín sem mér fannst samt ekki afgerandi. Flaskan með 2021 cabernet sauvignon var kannski sú sem mér hugnaðist síst, og greindi ég sýrukeim sem ég held ekki alveg nógu mikið upp á en mér dettur í hug að sýrutónarnir geti látið þetta rauðvín falla einkar vel að fiskréttum.

Merlot-vínin af Three Palms-plantekrunni þykja vera í algjörum sérflokki.
Merlot-vínin af Three Palms-plantekrunni þykja vera í algjörum sérflokki.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK