Fyrirtækið Hvalsnes býður nú upp á nýja lausn á fasteignamarkaði sem ætlað er að rjúfa kyrrstöðu sem gjarnan myndast vegna langra sölukeðja. Er þjónusta fyrirtækisins kynnt á vefsíðunni kaupumeignir.is.
Eigandi fyrirtækisins er Kjartan Andrésson, sem í meira en 20 ár hefur verið virkur þátttakandi á fasteignamarkaðinum, segir þetta algjöra nýlundu hér á landi en að hún þekkist í ýmsum myndum víða erlendis.
„Markaðurinn hér heima er flókinn og söluhraði eigna yfirleitt mikill. Hins vegar er meðallengd sölukeðjunnar um þessar mundir fjórar eignir og fólk er að lenda í verulegum vandræðum. Vegna fyrirvara og sölutregðu sem oft myndast í keðjunum er fólk að missa af draumaeigninni og fátt sem fólk getur gert til þess að bregðast við,“ útskýrir hann.
Hvalsnes fasteignir býður fólki sem á eign sem er með fasteignamat undir 110 milljónum króna og byggð er eftir árið 1945 að kanna flöt á sölu. Í kjölfarið fer fram skoðun á húsinu og innan sólarhrings gerir fyrirtækið staðgreiðslutilboð í eignina, að því gefnu að eignin sé ásættanleg. Kjartan segir að ferlið fari í gegnum fasteignasala sem seljandinn kveðji til verksins. Ætíð sé gengið úr skugga um að gilt söluumboð sé fyrir hendi þegar þetta er gert.
Sé sátt um tilboðið er hægt að ganga frá kaupsamningi um leið og fasteignasali býður upp á það og á þeim tímapunkti fái seljandi húsnæðisins 90% af umsömdu kaupverði.
Kjartan segir að þetta sé mögulegt þar sem hann sé með marga viðskiptavini á biðlista eftir leiguhúsnæði. Því valdi markaðsaðstæður í dag.
„En við bjóðum seljendum eignanna einnig upp á mikinn sveigjanleika. Þannig geta þeir haft hina seldu eign áfram og greiða fyrir það markaðsleigu. Uppsagnarfresturinn á slíkum samningi er aðeins tvær vikur og það býr til mikinn sveigjanleika fyrir fólk, ekki síst ef það er að bíða eftir eign sem það hefur keypt eða gert tilboð í og vonast til þess að eignast.“
Bendir Kjartan á að kaupendur sem geti gert fyrirvaralaus tilboð í eignir séu í mun sterkari stöðu en þeir sem aðeins geti gert tilboð með fyrirvara um sölu.
„Fólk vanmetur oft kostnaðinn af þessum keðjum sem myndast og duldum fjármagnskostnaði sem getur hlaðist upp. Oft er betra að taka tilboði í eign sem er 2-4 milljónum lægra en uppsett verð, fremur en tilboði sem gert er með fyrirvara. Fólk er að átta sig betur og betur á þessu í dag,“ útskýrir hann. Og farið að átta sig á að fjármagnskostnaður hefur oft verið vanmetinn í hita leiksins.
Nefnir Kjartan að hann hafi orðið vitni að því að fólk um fimmtugt hafi neyðst til þess að flytja heim til foreldra sinna, 30 árum eftir að það kvaddi þann vettvang, vegna þess að keðjur af þessu tagi hafi farið illa.
Fyrirtæki hans hefur stundað fasteignaviðskipti og uppbyggingu fasteigna, byggt frá grunni og fengið stóra öfluga verktaka til liðs við sig bæði á íbúðamarkaði en einnig með atvinnuhúsnæði. Í dag er það meðal annars með yfir 90 íbúðir í útleigu og er fermetrafjöldi húsnæðisins ríflega níu þúsund.
„Þetta eru fjölbreyttar eignir en að mestu leyti er þetta nýtt húsnæði. Meðalaldur eignanna er sjö ár og ég get fullyrt að þær eru allar í góðu ástandi. Mér finnst mikilvægt að þær séu þannig úr garði gerðar að maður gæti sjálfur hugsað sér að halla höfði sínu þar,“ útskýrir Kjartan.
Hann segir þörf fyrir þá þjónustu sem Hvalsnes býður upp á og að hann hafi nú þegar fundið fyrir verulegum áhuga. Búið sé að ganga frá kaupum á fyrstu eignum. En hann bendir einnig á að markaðurinn sé spenntur og af ólíkum ástæðum.
„Það er mikil eftirspurn en vextirnir eru líka mjög háir. Ef þeir yrðu keyrðir niður í eðlilegt horf myndi markaðurinn einfaldlega þurrkast upp á 6-8 vikum. Og verðin eru há og skilmálarnir þröngir, ekki síst fyrir fyrstu kaupendur. Í hópi viðskiptavina minna eru vel menntaðir einstaklingar með góðar tekjur en þeir eiga litla möguleika á að kaupa nema þeir hafi aðgang að einhvers konar stuðningi frá foreldrum sínum eða öðrum nákomnum,“ segir Kjartan.
Hann segist hafa kynnt fyrirtækið fyrir nokkrum fasteignasölum og heimasíðan hefur verið uppi um skamma hríð.
„Ég stend mjög nærri þessum markaði og átta mig á því að þörfin er mikil. En ég gerði ekki ráð fyrir svona miklum viðbrögðum,“ segir hann.
Þótt Kjartan hafi fyrir löngu haslað sér völl á íslenskum fasteignamarkaði, keypt og selt um 900-1000 eignir á síðustu 20 árum, hefur hann séð markaðinn sveiflast upp og niður. Þá hefur hann komið víða annars staðar við. Hann stundaði meðal annars lengi vel viðskipti með íslenskan fisk á innlendum og erlendum mörkuðum. Þá opnaði hann einnig fiskbúð á Íslandi og síðar bæði í Kanada og Bandaríkjunum.
„Ég fór í MH og svo skall á kennaraverkfall á miðri önn. Ég fór á sjóinn í Grindavík og ætlaði svo bara að taka næstu önn. Ég fór aldrei aftur í skóla en byrjaði í eigin rekstri 21 árs gamall, fyrst með slor og svo steypuna, og hef byggt upp þetta fyrirtæki sem nú býður upp á þessa lausn á markaðinum hér heima sem mun opna ýmsa möguleika fyrir fólk sem er að skipta um húsnæði,“ segir Kjartan að lokum.