Talsverðar launahækkanir hafa verið tilkynntar fyrir flesta starfsmenn Costco í Bandaríkjunum.
„Með þessum breytingum teljum við tímakaup okkar og fríðindi halda áfram að vera langt umfram aðra í smásöluiðnaðinum,“ segir í minnisblaði sem forstjórinn Ron Vachris skrifar undir.
Reuters greinir frá.
Mun fyrirtækið hækka laun reynslumikilla starfsmanna verslana í yfir 30 dali á klukkustund, samkvæmt ofangreindu minnisblaði sem sent var til starfsmanna.
Mun tímakaup umræddra starfsmanna hækka í skrefum næstu þrjú árin. Fyrsta árið hækkar það um einn dal og svo einn dal aukalega næstu tvö árin.
Reynslulitlir starfsmenn munu fá 20 dali á tímann, og hækka um 0,5 dali á tímann.
Kemur launahækkunin í kjölfar þess að starfsmenn Costco sem tilheyra stéttarfélagi sögðu fyrr í mánuðinum að greidd hefðu verið atkvæði með verkfalli á landsvísu.
Stéttarfélagið, sem yfir 18.000 starfsmenn tilheyra, sagði 85% félagsmanna hafa greitt atkvæði með verkfalli.