Fá kjósendur það sem þeir eiga skilið?

Calin Georgescu mælist núna með um 40% fylgi í könnunum. …
Calin Georgescu mælist núna með um 40% fylgi í könnunum. Stuðningsmaður með fána um herðarnar skreyttan ásjónu forsetaframbjóðandans umdeilda. AFP/Daniel Mihailescu

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Mikið væri gam­an að dvelja um skeið í Rúm­en­íu og kynn­ast þess­ari merki­legu þjóð vel og vand­lega.

Ræt­urn­ar ná alla leið aft­ur til Róma­veld­is og af þeim sök­um virðast Rúm­en­ar, enn þann dag í dag, ná betri teng­ingu við frænd­ur sína á Ítal­íu og Spáni en við ná­granna­rík­in á Balk­anskag­an­um og við Svarta­hafið. Menn­ing lands­ins er fjöl­breytt­ur hrærigraut­ur úr öll­um átt­um, mat­ur­inn feit­ur og kjöt­mik­ill og rúm­enska vínið þykir víst af­bragðsgott.

Ætli það væri ekki best að byrja í Tran­sylvan­íu, á slóðum Drakúla, og kíkja svo í óperu­húsið í Búkarest sem held­ur úti þéttu pró­grammi af perl­um óperu­bók­mennt­anna. Að end­ingu myndi ég slaka á í strand­bæn­um Const­anta, sem Róm­verj­ar kölluðu Tom­is, þar sem skáldið Óvidíus fékk að dúsa í út­legðinni frá Róm.

Meðal þess sem ger­ir Rúm­en­íu heill­andi er að þótt landið sé á hraðleið inn í framtíðina toga hefðirn­ar og sag­an fast í heima­menn, og var það einkar lýs­andi þegar rúm­ensk­ir póli­tík­us­ar ákváðu árið 2010 að tíma­bært væri að skatt­leggja starf­semi þeirra þúsunda spá­kvenna og norna sem starfa vítt og breitt um landið. Átti að skikka þær til að greiða skatta af tekj­um sín­um og gera þær laga­lega ábyrg­ar fyr­ir því ef spá­dóm­ar þeirra rætt­ust ekki. Frum­varpið komst ekki í gegn­um þingið, því þegar á hólm­inn var komið óttuðust kjörn­ir full­trú­ar að norna­stétt­in myndi leggja á þá bölv­un fyr­ir uppá­tækið. Ekki ama­leg stétta­bar­átta það!

Les­end­um gæti þótt sag­an af spá­konu­skatt­in­um fynd­in, en Rúm­en­ar taka hind­ur­vitni mjög al­var­lega enda skóg­arn­ir full­ir af draug­um, vampír­um og var­úlf­um. Skýr­ir það vænt­an­lega hvers vegna það dró ekk­ert úr áhuga rúm­enskra kjós­enda þegar það spurðist út að for­setafram­bjóðand­inn Cal­in Geor­gescu teldi sig hafa hitt geim­veru. Ætli kjós­end­um þætti það ekki tor­tryggi­legra ef Geor­gescu hefði ekki rambað fram á ver­ur af öðrum heimi, ein­hvern tíma á lífs­leiðinni.

Í viðtöl­um við er­lenda fjöl­miðla hef­ur Geor­gescu mjög fim­lega forðast að svara spurn­ing­um um sjón­ar­mið sín um geim­ver­ur og ýms­ar óhefðbundn­ar skoðanir sem hann hef­ur viðrað, s.s. um að finna megi nanó-ró­bota í gos­drykkj­um eða að tungl­lend­ing­in hafi verið sviðsett.

Geor­gescu kom öll­um á óvart þegar hann hlaut flest at­kvæði í fyrstu lotu rúm­ensku for­seta­kosn­ing­anna í nóv­em­ber síðastliðnum, en stjórn­laga­dóm­stóll ákvað að ógilda kosn­ing­una eins og hún lagði sig vegna vís­bend­inga um að stjórn­völd í Rússlandi hefðu reynt að hafa áhrif á kjós­end­ur og þá einkum með um­svifa­mik­illi her­ferð á TikT­ok.

Í síðustu viku hugðist Geor­gescu skila inn fram­boðsgögn­um fyr­ir fyr­ir­hugaðar kosn­ing­ar síðar á ár­inu en kjör­stjórn­in neitaði að skrá fram­boðið, með vís­an til fyrri brota á kosn­inga­lög­um. Við þetta braust út mik­il gremja hjá al­menn­ingi og hafa mót­mæli geisað síðan um helg­ina.

Ný rík­is­stjórn á fimmtán mánaða fresti

Áður en lengra er haldið er ágætt að renna stutt­lega yfir lands­lagið í stjórn­mál­um Rúm­en­íu.

Rúm­ensk­ir stjórn­mála­menn eru ekki barn­anna best­ir og allt síðan Rúm­en­arn­ir losuðu sig við Ceausescu hef­ur gengið hægt og illa að upp­ræta spill­ingu í stjórn­kerf­inu. Ástandið hef­ur samt farið batn­andi, m.a. vegna já­kvæðs hópþrýst­ings frá Evr­ópu­sam­band­inu, en líka vegna þrýst­ings inn­an frá. Markaði það kafla­skil þegar skelfi­leg­ur elds­voði braust út á skemmti­stað í Búkarest árið 2015 með þeim af­leiðing­um að 64 ung­menni létu lífið. Brun­ann mátti m.a. rekja til þess að spillt­ir emb­ætt­is­menn höfðu ekki sinnt skyld­um sín­um og leyft alls kon­ar brot­um að viðgang­ast á skemmti­staðnum sem hafði t.d. verið hljóðein­angraður með eld­fim­um efn­um. Þetta fyllti mæl­inn hjá al­menn­ingi.

Frá því að komm­ún­ist­arn­ir hrökkluðust í burtu hafa kristi­leg­ir demó­krat­ar og sósí­al­demó­krat­ar farið með völd­in en stjórn­mál­in hafa engu að síður lit­ast af mikl­um óstöðug­leika og frá 1990 hafa 25 ólík­ar rík­is­stjórn­ir verið við völd í land­inu. Jafn­gild­ir það 15 mánuðum að meðaltali á hverja rík­is­stjórn og virðist varla líða það ár að ekki komi upp ein­hvers kon­ar meiri hátt­ar hneyksl­is- og spill­ing­ar­mál sem hleyp­ir öllu í bál og brand.

Það sem af er þess­um ára­tug hafa flokk­ar á hægrijaðrin­um verið að sækja í sig veðrið og bar til tíðinda í þing­kosn­ing­un­um sem haldn­ar voru í des­em­ber þegar rót­tæka hægrið sópaði til sín nægi­lega mörg­um þing­sæt­um til að binda enda á tveggja flokka meiri­hluta kristi­legra demó­krata og sósí­al­demó­krata. Gömlu meiri­hluta­flokk­arn­ir eru þó enn við völd og mynduðu ESB-sinnað banda­lag með miðju-hægri­flokki ung­verska þjóðar­brots­ins.

Rúm­enska þingið, sem skipt­ist í neðri og efri deild, fer með lög­gjaf­ar­valdið og for­sæt­is­ráðherr­ann stýr­ir fram­kvæmd­ar­vald­inu inn á við en ut­an­rík­is­stefn­an heyr­ir und­ir for­set­ann, sem er þar að auki æðsti yf­ir­maður herafl­ans.

Átakalín­urn­ar þessi miss­er­in snú­ast m.a. um sam­skipti Rúm­en­íu við Evr­ópu­sam­bandið, vægi og hlut­verk rétt­trúnaðar­kirkj­unn­ar, rétt­indi LGBT-fólks og stríðið í Úkraínu, en rúm­ensk stjórn­völd hafa staðið dyggi­lega við bakið á ráðamönn­um í Kænug­arði.

Lands­fram­leiðsla á mann hef­ur auk­ist nokkuð hratt und­an­far­inn ára­tug og tvö­fald­ast frá ár­inu 2010 en verðbólga og efna­hags­leg óvissa plag­ar rúm­ensk­an al­menn­ing og það hef­ur reynst vatn á myllu öfga­hægriafla líkt og víða ann­ars staðar.

Hæfi­lega hrif­inn af ESB og Nató

Skyndi­leg­ar vin­sæld­ir Geor­gescus komu öll­um í opna skjöldu, en í októ­ber mæld­ist fylgi hans vel und­ir 5% og fáir tóku fram­boð hans al­var­lega.

Geor­gescu var viðriðinn hægri­flokk­inn AUR, sem var stofnaður 2019 og næst­um því tvö­faldaði fylgi sitt í síðustu kosn­ing­um. AUR henti Geor­gescu úr flokkn­um þegar hann þótti orðinn of vil­hall­ur und­ir Rússa og bauð hann sig fram til for­seta­embætt­is­ins á eig­in veg­um.

Geor­gescu, sem er með doktors­gráðu í jarðvegs­fræðum, virk­ar nokkuð fram­bæri­leg­ur í viðtöl­um; hann er lág­vax­inn, grá­hærður, yf­ir­vegaður og ró­leg­ur í fasi. Þó að ekki hafi verið hægt að kalla hann póli­tíska stjörnu þar til í nóv­em­ber er hann eng­inn nýgræðing­ur í pó­lí­tík og var m.a. hátt sett­ur hjá rúm­enska um­hverf­is­ráðuneyt­inu og líka hátt sett­ur starfsmaður Sam­einuðu þjóðanna í Sviss.

Fyr­ir hvað stend­ur svo Geor­gescu? Það velt­ur svo­lítið á því hver er spurður, og velt­ur jafn­vel líka á því hvernig Geor­gescu orðar hlut­ina þann dag­inn. Það fer t.d. ekki á milli mála að hann er þjóðern­is­sinni en Geor­gescu hef­ur líka sagst leggja ríka áherslu á evr­ópsk gildi. Spurður um rétt­indi hinseg­in­fólks seg­ist hann styðja frelsi ein­stak­linga til að haga sín­um ástar­mál­um eins og þeim sýn­ist en hann vill ekki leyfa „LGBT-áróður“ í skól­um, hvað sem hann ná­kvæm­lega mein­ar með því. Hann vill að Rúm­en­ía standi við skyld­ur sín­ar gagn­vart ESB og Nató en vill ekki að Rúm­en­ía skipti sér af átök­un­um í Úkraínu.

Kjör­sókn í nóv­em­ber var rúm­lega 52%, sem er svipað og venju­lega, og fékk Geor­gescu nærri 23% at­kvæða. Full­trú­ar sósí­al­demó­krata og kristi­legra demó­krata, sem all­ir höfðu reiknað með að færu áfram í loka­slag­inn, hlutu rúm­lega 19% at­kvæða hvor um sig. Var sterkt fylgi Geor­gescus svo óvænt að and­stæðing­ar hans höfðu ekki einu sinni haft ráðrúm til þess í kosn­inga­bar­átt­unni að gagn­rýna skoðanir hans og skjóta á hann nokkr­um skot­um. Hann ein­fald­lega lenti eins og sprengja í rúm­ensk­um stjórn­mál­um.

Tug­ir millj­óna evra á TikT­ok

Skyndi­leg fylgisaukn­ing Geor­gescus er rak­in til afar öfl­ugr­ar her­ferðar á TikT­ok, en ólíkt flest­um öðrum lönd­um er TikT­ok vin­sæl­asti sam­fé­lags­miðill­inn í Rúm­en­íu og not­end­urn­ir á öll­um aldri – ekki bara krakk­ar og ung­ling­ar. Her­ferðin virðist hafa verið mjög vel skipu­lögð, og virkjaði á þriðja tug þúsunda not­enda­reikn­inga, en þær aðferðir sem beitt var þykja bera keim af vinnu­brögðum ráðamanna í Kreml. Fátt hef­ur verið um svör þegar spurt er hver borgaði fyr­ir her­leg­heit­in en Geor­gescu seg­ist hafa varið ná­kvæm­lega 0 evr­um úr eig­in vasa í kosn­inga­bar­átt­una. Sér­fræðing­ar áætla hins veg­ar að her­ferðin á TikT­ok hafi kostað um 50 millj­ón evr­ur.

Vin­sæld­ir Geor­gescus hafa bara farið vax­andi og kjós­end­ur virðast líta á hann sem andsvar við spill­ingu og van­hæfni ráðandi afla. Benda kann­an­ir til að fylgi Geor­gescus sé núna komið upp í 40%, sem er ekk­ert smá­ræði, hvað þá þegar kjör­sókn­in í nóv­em­ber er höfð til hliðsjón­ar. Stuðnings­manna­hóp­ur­inn er breiður og fjöl­breytt­ur; borg­ar­bú­ar í bland við bænd­ur, verka­menn í bland við há­skóla­menntaða, og venju­legt fólk í bland við snarruglaða fas­ista.

Óheppi­leg­ur vilji kjós­enda

Hvað á nú til bragðs að taka? Staðan er óneit­an­lega snú­in.

Ég man ekki eft­ir að það hafi nokk­urs staðar áður gerst að kosn­ing­ar hafi verið ógild­ar út af mögu­leg­um af­skipt­um ann­ars rík­is, og auðvitað er það ekki gott ef ráðamenn í Rússlandi voru með putt­ana í for­seta­kosn­ing­un­um. Svo hafa ráðamenn í Brus­sel auðvitað eng­an áhuga á að fá mann eins og Geor­gescu í for­seta­embættið, en það er samt ekki mjög lýðræðis­legt að ógilda kosn­ing­ar eins og ekk­ert sé og meina Geor­gescu að bjóða sig aft­ur fram.

Þessi pist­ill verður ekki notaður til að halda uppi vörn­um fyr­ir Geor­gescu; hann er ekk­ert minna skrít­inn og ófull­kom­inn en rúm­ensk­ir stjórn­mála­menn yf­ir­leitt. En kjós­end­ur eru ekki al­gjör­ir bján­ar, og það er ekki hægt að af­skrifa það sís­vona ef boðskap­ur Geor­gescu á TikT­ok fann hljóm­grunn hjá stór­um hluta þjóðar­inn­ar – sama hver fjár­magnaði her­ferðina.

Kannski voru stærstu mis­tök­in að ógilda kosn­ing­una í nóv­em­ber því þar með var Geor­gescu gerður að píslar­vætti, og allt eins lík­legt að fram­bjóðandi stjórn­ar­flokk­anna hefði hlotið meiri­hluta at­kvæða í seinni um­ferð kosn­ing­anna svo að málið væri dautt.

Er nema von að lands­menn haldi út á göt­ur, enda get­ur eng­inn verið viss um hvort til­raun­ir stjórn­valda til að stöðva Geor­gescu byggja á hlut­lausu og fag­legu mati eða eru bara enn ein birt­ing­ar­mynd spill­ing­ar og hags­muna­pots.

Nýj­ustu frétt­irn­ar eru þær að nú hef­ur AUR-flokk­ur­inn tekið Geor­gescu aft­ur í sátt og flokks­leiðtog­inn Geor­ge Sim­i­on lagt það til að hann bjóði sig fram í stað Geor­gescus ef úr­sk­urði kjör­stjórn­ar fæst ekki hnekkt. Þyki fólki Geor­gescu slæm­ur er Sim­i­on enn verri.

Grein­in birt­ist upp­haf­lega í ViðskiptaMogg­an­um miðviku­dag­inn 12. mars.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK