Að fara á límingunni á 58 dögum

Trump skoðar sig um í tónlistarhöll Washington-borgar. Hann er ekki …
Trump skoðar sig um í tónlistarhöll Washington-borgar. Hann er ekki eins óútreiknanlegur og margir halda. AFP/Jim Watson

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Hér á Ítal­íu­skag­an­um hef­ur aldrei verið skort­ur á lit­rík­um leiðtog­um. Fyrst komu róm­versku keis­ar­arn­ir, sem voru sitt á hvað út­smogn­ir klækj­ar­ef­ir, sjálf­hverf­ir ruglu­dall­ar og göf­ug­ir lands­feður. Svo komu aðalsætt­ir end­ur­reisn­ar­tíma­bils­ins og með þeim heill haug­ur af prins­um, her­tog­um og páf­um sem gerðu sér það að leik að lifa hátt og stinga hver ann­an í bakið. Loks færðu 20. og 21. öld­in Ítöl­um menn á borð við Mus­sol­ini og Berlusconi.

Það er hægt að halda upp á suma þess­ara leiðtoga þó að þeir hafi ekki verið sóma­menn í alla staði. Sum­ir eru ein­mitt skemmti­leg­ir fyr­ir þær sak­ir hvað þeir gátu verið kræf­ir og óforskammaðir. Ég kemst t.d. ekki hjá því að halda upp á Al­ex­and­er VI. páfa, en það er hon­um að þakka – eða kenna – að enn þann dag í dag teng­ir fólk Borgia-ætt­ina við synd­sam­legt líferni og frænd­hygli. Sög­urn­ar um Al­ex­and­er eru svo marg­ar, og svo krass­andi, að þær geta varla all­ar verið sann­ar en um það verður ekki deilt að hann eignaðist fjölda barna með fjölda kvenna og lík­lega hef­ur hann líka átt það til að gamna sér með lag­leg­um ung­um mönn­um. Fyr­ir Al­ex­and­er var lífið eitt alls­herj­ar veislu­borð.

Al­ex­and­er VI. var þó ekki alslæm­ur, og hon­um tókst t.d. að koma í veg fyr­ir að stríð bryt­ist út á milli Portú­gals og Spán­ar um yf­ir­ráð yfir Vest­ur­heimi. Hann breiddi líka út faðminn á móti þúsund­um gyðinga sem Fer­d­inand og Ísa­bella hröktu frá Spáni, og var boðinn og bú­inn að liðsinna hverj­um þeim sem átti um sárt að binda. Svo virti Al­ex­and­er tján­ing­ar­frelsi samlanda sinna – meira að segja þegar þeir skálduðu upp rætn­ar kjafta­sög­ur um páfann sjálf­an, og við eig­um mörg meist­ara­verk Michelang­e­los og Rafa­els Al­ex­and­er VI. að þakka.

Sagn­fræðing­ur­inn William Landon er ósköp sann­gjarn þegar hann bend­ir á að Al­ex­and­er VI. hafi, þrátt fyr­ir allt, ekki verið mikið verri en hans eig­in sam­tíma­menn. Ráðabrugg, sukk og svínarí var fyr­ir löngu orðið lenska í Róm þegar Al­ex­and­er mætti þar til leiks – hann var ein­fald­lega af­sprengi og hold­gerv­ing­ur sinn­ar samtíðar.

Það er ágætt að leyfa les­end­um að spreyta sig aðeins á Machia­velli á frum­mál­inu og lesa hvernig hann komst að orði þegar hann lýsti verk­um – og voðaverk­um – Borgia-ætt­ar­inn­ar, og benti á að þrátt fyr­ir allt voru áhrif þeirra á ít­alskt sam­fé­lag ekki alslæm og jafn­vel góð:

„E nelle azi­oni di tutti gli uom­ini, e massime de’ principi, dove non è iudizio a chi reclamare, si guarda al fine.“

Í laus­legri þýðingu: Þegar við dæm­um mann­anna verk, og sér í lagi þegar furst­ar eiga í hlut, verðum við líka að meta hver út­kom­an varð.

Þegar all­ir hrukku í kút

Það er ekki alltaf auðvelt að halda uppi vörn­um fyr­ir Don­ald Trump.

Á blaðamanna­fund­in­um fræga, þar sem allt fór í háa­loft, varð Trump sér til minnk­un­ar, en þeir Selenskí og Vance líka. Þegar fund­ur­inn er skoðaður í heild sinni má sjá að Selenskí vildi reyna að nota fund­inn, fyr­ir fram­an mynda­vél­arn­ar, til að breyta því sem þegar hafði verið samið um. Selenskí potaði í Trump – á hans heima­velli – og Vance potaði á móti, og loks fyllt­ist mæl­ir­inn hjá Trump.

Eft­ir þessa leiðin­legu uppá­komu fór vest­ræna stjórn­málaelít­an í hnút og lét eins og þetta væri í fyrsta skiptið sem kjörn­ir full­trú­ar hefðu nokk­urn tíma rif­ist. Eitt hef­ur leitt af öðru og nú má sjá viðtöl­in við hvern stjórn­mála­mann­inn á fæt­ur öðrum sem seg­ir frá því, með al­vöru­gefn­um svip, að vináttu- og varn­ar­sam­bandið við Banda­rík­in sé að engu orðið. Geðshrær­ing­in er svo mik­il að meira að segja sum­ir ís­lensk­ir sjálf­stæðis­menn halda að til að finna ör­uggt skjól í hörðum heimi þurfi Ísland að ganga í Evr­ópu­sam­bandið, þó að þar sé allt á niður­leið og at­vinnu­lífið að drukkna í reglu­gerðum.

Í því sam­bandi er gott að minna á að Finn­land á metið í stysta um­sókn­ar­ferl­inu hjá ESB, en þar liðu þrjú ár frá um­sókn til aðild­ar. Sví­ar koma næst­ir með fjög­ur ár, en alla jafna hef­ur það tekið þjóðir um það bil ára­tug að fá inn­göngu. Trump verður því ör­ugg­lega far­inn frá völd­um áður en Íslandi verður út­hlutað sæti við borðið í Brus­sel.

En auðvitað er það af og frá að Banda­rík­in hygg­ist gefa Nató upp á bát­inn eða að Trump ætli að klekkja á vest­ræn­um vinaþjóðum. Ég hef sagt það áður, og segi það enn: það á að taka Trump al­var­lega, en það á ekki að taka hann bók­staf­lega.

List­in að skilja Trump

Kann­ast les­end­ur við það að vera más­andi og blás­andi á hlaupa­brett­inu, líða eins og hlaupa­pró­grammið hljóti að vera hálfnað en líta svo á mæla­borðið og sjá að það eru ekki nema nokkr­ar mín­út­ur liðnar af 30 mín­útna skokki? Til­finn­ing­in er svipuð eft­ir að Trump komst aft­ur til valda. Í dag eru ekki liðnir nema 58 dag­ar af kjör­tíma­bil­inu – ekki einu sinni tveir mánuðir – og 96% af kjör­tíma­bil­inu eru eft­ir.

Til að þrauka næstu 46 mánuðina er mik­il­væg­ast að fólk skilji þær aðferðir sem Trump beit­ir. Hann hef­ur t.d. kom­ist upp á lagið með að slengja fram fjar­stæðukennd­um hug­dett­um, eins og að inn­lima Græn­land. Í hvert skipti virk­ar þetta til að skapa líf­lega umræðu um vanda­mál sem ann­ars hefðu ekki fengið neina at­hygli. Fyrst fer Trump langt yfir strikið, en svo dreg­ur hann í land og yf­ir­leitt er niðurstaðan eitt­hvað sem all­ir geta sætt sig við.

Það er held­ur ekki að ástæðulausu að Macron virðist eiga auðvelt með að tjónka við Trump, enda er stutt í skjallið hjá Frökk­un­um. Trump er mjög mót­tæki­leg­ur fyr­ir skjalli og vegtyll­um, og hitti blaðamaður­inn Fareed Zak­aria nagl­ann á höfuðið þegar hann benti á að Selenskí hefði frek­ar átt að mæta til fund­ar­ins í Washingt­on með risa­stóra medal­íu handa Trump og boði um að byggja sem allra fyrst heims­ins stærsta Trump-turn í Úkraínu. Þá hefði Trump ekki verið neitt nema vel­vild­in.

Trump gæti virkað óút­reikn­an­leg­ur og uppá­tækja­sam­ur, en hann er fyr­ir­sjá­an­leg­ur að því leyti að hann fylg­ir eig­in eðlisávís­un og er drif­inn áfram af frek­ar aug­ljós­um hvöt­um. Hann spil­ar ekki eft­ir þeim regl­um sem vest­ræn­ir stjórn­mála­menn eru van­ir, en hann kem­ur til dyr­anna eins og hann er klædd­ur.

Svo er ágætt að muna að Trump, eins og Al­ex­and­er VI., er ein­fald­lega af­sprengi sinn­ar samtíðar. Með hverj­um ára­tugn­um virðast stjórn­mál­in og sam­fé­lagsum­ræðan hafa færst niður á lægra plan, jafnt í Banda­ríkj­un­um sem ann­ars staðar, og keyrði um þver­bak eft­ir til­komu sam­fé­lags­miðlanna. Trump er lækn­ing­in við ákveðnu meini (og mixt­úr­an er súr), en eins og banda­rísk stjórn­mál voru orðin þurfti mann­gerð eins og Trump til að slá vopn­in úr hönd­um vinstrimanna, kom­ast á topp­inn og reyna að beina hlut­un­um í ögn skárri far­veg.

Kannski verður næsti for­seti Banda­ríkj­anna djúp­vit­ur, yf­ir­vegaður og sjarmer­andi sómamaður – hver veit? En mig grun­ar að þegar valdatíð Trumps er lokið muni það blasa við að hann kom mörgu góðu í verk og skilaði af sér betra búi en hann tók við.

Si guarda al fine.

(Grein­in birt­ist upp­haf­lega í ViðskiptaMogg­an­um miðviku­dag­inn 19. mars)

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK