Uppáhaldsstaðir blaðamanns í Mílanó

Verslun Rubinacci í miðborg Mílanó er eins og ævintýraveröld fyrir …
Verslun Rubinacci í miðborg Mílanó er eins og ævintýraveröld fyrir þá sem kunna að meta ítalska herratísku. Leitun er að fallegri búð. Ljósmynd/Ásgeir Ingvarsson

Það gerðist fyr­ir hálf­gerða til­vilj­un að út­send­ari ViðskiptaMogg­ans á alþjóðaplani afréð að dúsa í Mílanó yfir köld­ustu vetr­ar­mánuðina. Gam­all leigu­sali átti lausa íbúð sem ég gat fengið á mjög sann­gjörnu verði, og mér líkaði ágæt­lega sú til­hugs­un að taka hæfi­lega langt stopp í hjarta evr­ópskr­ar siðmenn­ing­ar. Svo myndi kannski gef­ast tæki­færi til að reynsluaka nokkr­um ít­ölsk­um sport­bíl­um fyr­ir Bíla­blaðið.

Ég var rétt skriðinn yfir tví­tugt þegar ég heim­sótti Mílanó fyrst. Ég tók aft­ur nokkuð langt stopp um miðjan síðasta ára­tug, og ég hef flækst hérna í gegn af og til bæði í vinnu- og einka­er­ind­um. Samt gat ég aldrei sagst hafa fallið fyr­ir Mílanó, nema kannski núna þegar stytt­ast fer í brott­för.

Ég veit ekki al­veg hvað ég á að halda um þessa borg. Á köfl­um virk­ar hún grá og drunga­leg, og þegar komið er út fyr­ir miðborg­ar­kjarn­ann sést vel að Ítal­ir eru ekki há­tekju­fólk. En svo koma töfr­arn­ir í ljós; í sjarmer­andi hliðargötu sem ég vissi ekki af, eða við mat­ar­borðið á heim­il­is­leg­um veit­ingastað. Töfr­arn­ir sjást líka stund­um í borg­ar­bú­un­um sjálf­um enda er hið dag­lega líf ákveðið list­form hér á Ítal­íu.

Núna, þegar ég á bara hálf­an mánuð eft­ir af nokk­urra mánaða dvöl, finnst mér eins og ég sé rétt að byrja að upp­götva borg­ina. Ég á það meira að segja eft­ir að kíkja á mál­verk Leon­ar­dós af síðustu kvöld­máltíðinni, en ég legg bara ekki í það að reyna að ná í miða því það er yf­ir­leitt upp­selt í safnið tvo mánuði fram í tím­ann.

Í kveðju­skyni við Mílanó lang­ar mig að benda les­end­um á nokkra staði sem ég mæli með að þeir vitji, ef þeir eiga leið um Lang­b­arðaland. Eins og Mílanó sæm­ir sam­an­stend­ur list­inn bæði af heims­fræg­um menn­ing­ar­stofn­un­um, einni dóm­kirkju og nokkr­um muster­um ít­alskr­ar tísku.

Búð Ludovica Mascheroni lætur ekki mikið yfir sér, séð frá …
Búð Ludovica Mascheroni læt­ur ekki mikið yfir sér, séð frá göt­unni.

Pinacoteca di Brera: Við eig­um Napó­leon að þakka þetta fína safn en hann sá fyr­ir sér að Brera gæti orðið n.k. ít­ölsk út­gáfa af Louvre. Brera kemst reynd­ar ekki með tærn­ar þar sem Louvre hef­ur hæl­ana, hvorki hvað varðar stærð né safn­kost, en er samt al­veg heim­sókn­ar­inn­ar virði. Benda má sér­stak­lega á að í kaffiterí­unni er að finna verk eft­ir Bertel Thor­vald­sen til minn­ing­ar um list­mál­ar­ann Andrea Appi­ani. Viss­ara er að kaupa miða með nokk­urra daga fyr­ir­vara.

E. Mar­in­ella: Sögu þess­ar­ar litlu herrafata­versl­un­ar má rekja aft­ur til árs­ins 1914 en fyr­ir­tækið rek­ur í dag úti­bú á nokkr­um stöðum í heim­in­um. Fatnaður­inn er ekki úr hófi dýr og end­ur­spegl­ar vel ít­alska stíl­inn.

Xerjoff: Beint á móti risa­versl­un og hót­eli Armani er að finna agn­arsmáa búð ít­alska ilm­vatns­fram­leiðand­ans Xerjoff. Þar er gam­an að reka inn nefið og fá að þefa af ein­hverju nýju og spenn­andi.

Ru­binacci: Saga þessa ít­alska tísku­húss nær til árs­ins 1932 og rek­ur fyr­ir­tækið tvær versl­an­ir til viðbót­ar í Napólí og London. Búðin þeirra á Via Gesù, mitt í dýr­asta og fín­asta versl­un­ar­hverfi Mílanó, er fal­leg­asta fata­versl­un­in sem ég hef heim­sótt: þar er hátt til lofts og gul­ir vegg­irn­ir kall­ast á við dökk­brún­ar inn­rétt­ing­arn­ar. Þegar ég hef litið þar inn hef­ur yf­ir­leitt verið ró­legt í búðinni og af­greiðslu­fólkið verið af­skap­lega elsku­legt. Hér eru föt­in ekki ódýr, en verðið er samt mjög sann­gjarnt miðað við gæðin og hér ræður vita­skuld hinn hefðbundni ít­alski stíll ríkj­um.

Aðalverslun Boggi er á nokkrum hæðum. Þar má gera góð …
Aðal­versl­un Boggi er á nokkr­um hæðum. Þar má gera góð kaup.

Ludovica Mascheroni: Ögn ofar á Via Gesù má finna tísku­versl­un Ludovica Mascheroni. Fyr­ir­tækið hóf göngu sína sem hús­gagna­fram­leiðandi en bætti við herra- og dömufatnaði árið 2018. Versl­un­in þeirra er smá en af­skap­lega fal­leg og út­pæld. Sum­ar flík­urn­ar eru al­veg hreint framúrsk­ar­andi en um leið lág­stemmd­ar – ekta „quiet lux­ury“. Ég kol­féll fyr­ir dökk­blá­um jakka frá þeim og man ekki eft­ir að hafa mátað klæðilegri flík. Ég þarf samt að spara aðeins fyr­ir kaup­un­um því hér hleyp­ur verðið á hundruðum þúsunda króna.

Boggi: Stutt er síðan tísku­versl­ana­keðjan Boggi opnaði glæsi­lega nýja aðal­versl­un í Mílanó. Fyr­ir þá sem ekki þekkja Boggi þá mætti kalla þá ít­ölsku út­gáf­una af Brooks Brot­h­ers: Föt­in eru í fínni kant­in­um, hvorki of íhalds­söm né sport­leg, og hvorki of dýr né ódýr. Nýja búðin er rúm­góð og ró­leg og sölu­menn­irn­ir mjög vilj­ug­ir að hjálpa við valið. Prýðileg jakka­föt kosta hér í kring­um 700 evr­ur.

Jakkinn ómótstæðilegi frá Ludovica Mascheroni
Jakk­inn ómót­stæðilegi frá Ludovica Mascheroni

Duomo di Milano: Óhætt er að mæla með heim­sókn í þessa ein­stöku dóm­kirkju. Betra er að kaupa aðgangs­miðann á net­inu með nokkr­um fyr­ir­vara og þarf samt að bíða í röð til að kom­ast inn. Innifal­inn í miðaverðinu er aðgang­ur að litlu safni í næsta húsi, sem er al­veg óhætt að sleppa.

Fu­eguia 1833: Arg­entínsk­ur ilm­hönnuður og lífs­k­únstner hef­ur komið sér fyr­ir hér á besta stað í Mílanó. Það er upp­lif­un að heim­sækja búðina og ilmúr­valið er bæði breitt og áhuga­vert. Ég mæli t.d. með að prófa ilm­inn sem þróaður var í sam­ráði við Rolls-Royce en 30 ml flask­an kost­ar 423 evr­ur, hvorki meira né minna.

La Scala: Hér slær hjarta ít­alska óperu­heims­ins. Hér frum­fluttu Pucc­ini, Ver­di og Don­izetti óper­ur sín­ar, og hingað ættu all­ir óperu­unn­end­ur að fara píla­gríms­för a.m.k. einu sinni á æv­inni. Miðar á skemmti­leg­ustu óper­urn­ar selj­ast upp marga mánuði fram í tím­ann en með smá heppni má krækja í af­gangs­miða sam­dæg­urs.

Hið ljúfa líf er viku­leg­ur lífstíls­dálk­ur ViðskiptaMogg­ans.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK