Comcast NBCUniversal fjárfestir í OZ Sports

Guðjón segir að nýr spennandi kafli sé að byrja hjá …
Guðjón segir að nýr spennandi kafli sé að byrja hjá fyrirtækinu. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Banda­ríski fjöl­miðla- og tækn­iris­inn Comcast NBCUni­versal, sem á og rek­ur meðal ann­ars Uni­versal, Sky Sports, NBC og Xf­inity, hef­ur bæst í fjár­festa­hóp ís­lenska tæknifyr­ir­tæk­is­ins OZ Sports.

OZ Sports hef­ur sér­hæft sig í gervi­greind og tölvu­sjón fyr­ir íþrótta­út­send­ing­ar og hef­ur þróað OZ Smart Stadi­um, tækni­lausn sem er hönnuð fyr­ir sjálf­virk­ar íþrótta­út­send­ing­ar. Kerfið bygg­ist á ró­bóta­tækni með gervi­greind­ar­stýr­ingu og op­tískri aðdrátt­ar­linsu, sem ger­ir að verk­um að íþróttaviðburðir eru send­ir út í afar mikl­um gæðum á mun hag­kvæm­ari hátt en áður.

Guðjón Már Guðjóns­son fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins seg­ir í sam­tali við Morg­un­blaðið að með þessu fái OZ ein­stakt tæki­færi til að þróa tækni sína áfram í sam­starfi við stærstu fjöl­miðla- og íþrótta­sam­tök í heimi og styrkja þannig stöðu sína á alþjóðamarkaði.

Gríðarleg áskor­un

Guðjón lýs­ir því að þróun tölvu­sjón­ar og þeirra eig­in gervi­greind­armód­ela sé gríðarleg áskor­un. „Við ákváðum að lengja þró­un­ar­ferlið til að fín­pússa grunn­tækn­ina og ná sett­um gæðum. Það tók meiri tíma en við bjugg­umst við,“ seg­ir Guðjón. „En ávinn­ing­ur­inn verður von­andi þeim mun meiri,“ bæt­ir hann við og bros­ir.

Eins og Morg­un­blaðið greindi frá árið 2021 þróaði OZ á þeim tíma lausn til að leyfa fólki að upp­lifa kapp­leiki með vin­um sín­um heima í stofu. Hróp og köll, gleði og sorg­ir endurómuðu þá í heyrn­ar­tól­um vin­anna, rétt eins og þeir sætu sam­an á vell­in­um í eig­in per­sónu. „Í covid-19-far­aldr­in­um kom upp mik­il þörf á að nota tölvu­sjón­ina okk­ar í allskon­ar lausn­ir, en við stöðvuðum aldrei þróun á sjálf­virk­um út­send­ing­um, sem við vor­um meðvituð um að tæki lengri tíma. „Covid-19-lausn­irn­ar“ komu sér þó vel fyr­ir okk­ur því við feng­um um 200 millj­ón­ir króna í tekj­ur af þeim. Þær hjálpuðu okk­ur að halda ann­arri þróun gang­andi. Það reynd­ist okk­ur mik­il­vægt til að ná á þann stað sem við erum á núna.“

Guðjón seg­ir að sérstaða OZ liggi meðal ann­ars í því að fé­lagið hafi byggt sína eig­in gervi­greind­ar­lausn frá grunni, og sé því óháð öðrum. „Flest fyr­ir­tæki sem starfa í Evr­ópu eru að keyra ofan á gervi­greind­armód­el­um annarra fyr­ir­tækja. Öll okk­ar mód­el eru búin til af okk­ur. Þau eru hnit­miðuð, hraðvirk, lít­il tauga­nets­mód­el, og sér­hæfð í að skilja hvernig boltaíþrótt­ir virka og hvernig þær eru fram­leidd­ar fyr­ir út­send­ing­ar.“

Um fjár­fest­ing­una seg­ir Guðjón að hún bæði gefi OZ Sports auk­inn trú­verðug­leika en opni einnig á leið fyr­ir fyr­ir­tæk­in að vinna sam­an. „Mark­mið Comcast er að kom­ast nær okk­ur og nýta okk­ar lausn inn­an nokk­urra ein­inga sam­stæðu fyr­ir­tæk­is­ins. Íþrótta­stöðin Sky Sports í Evr­ópu er til dæm­is hluti af henni og bind­um við mikl­ar von­ir við það sam­starf.“

Sky Sports, í sam­vinnu við ensku úr­vals­deild­ina í fót­bolta, bjó ein­mitt til það form af út­send­ing­um sem fólk þekk­ir úr ensku úr­vals­deild­inni í dag og aðrar deild­ir hafa reynt að líkja eft­ir, eins og Guðjón út­skýr­ir.

Hann seg­ir að OZ Sports sé vel fjár­magnað og á næstu miss­er­um verði ein­blínt á tekju­öfl­un þar sem fé­lagið sé komið á mik­il­vægt vaxt­ar­skeið. „Við erum kom­in í gegn­um prufufas­ann, búin að fram­leiða nokk­ur hundruð leiki og fín­pússa tækn­ina. Nú get­ur markaðssetn­ing­in haf­ist af krafti.“

Spenn­andi kafli

Guðjón tal­ar um að þar með sé nýr spenn­andi kafli að byrja hjá fyr­ir­tæk­inu eft­ir langt og strangt þró­un­ar­ferli. „Við viss­um í upp­hafi að það yrði áskor­un að geta nýtt ró­bóta, tölvu­sjón og tauga­net til að láta boltaíþrótta­deild­ir fá al­vöru sjálf­virk­ar út­send­ing­ar. En við höf­um lært mikið á þess­ari veg­ferð. Það er áhugi hjá sjón­varps­stöðvum víða um heim að fá að nýta tækn­ina til að gera nú­ver­andi út­send­ing­ar betri. Til dæm­is er hægt að staðsetja okk­ar búnað þar sem erfitt er að koma mynda­töku­mönn­um fyr­ir. Þá er einnig hægt að nota okk­ar búnað sam­hliða hefðbundn­um mönnuðum mynda­vél­um til að fjölga mynda­vél­um, auka gæði stærri út­send­inga en spara kostnað um­tals­vert.“

Aðspurður seg­ir Guðjón að framtíðar­sýn­in sé að inn­leiða tækn­ina á öll­um stærri boltaíþrótta­völl­um í heimi.

„Við sjá­um fyr­ir okk­ur að íþrótta­leik­vang­ar um all­an heim breyt­ist í snjall­velli. Þá munu bæt­ast við ýms­ir notk­un­ar­mögu­leik­ar fyr­ir liðin, eins og til dæm­is að vera með gagn­virk­ar út­send­ing­ar og safna nota­drjúg­um gögn­um um leik­menn fyr­ir þjálf­ar­ana og aðra leik­grein­ingu meðan á leik stend­ur.“

Spurður að lok­um um hvenær búnaður­inn verði kom­inn í notk­un á fyrsta bolta­vell­in­um seg­ir Guðjón að það muni ger­ast síðar á þessu ári í áföng­um. „Inn­leiðing byrj­ar á þessu ári.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK