Eins og fram kom í fjölmiðlum á dögunum mun Sigurður Óli Ólafsson verða forstjóri í sameinuðu lyfjafyrirtæki Mallinckrodt og Endo.
Sigurður Óli kom til Mallinckrodt um mitt ár 2022 en fyrirtækið er eitt elsta lyfjafyrirtæki Bandaríkjanna, stofnað árið 1867. Áður stýrði hann breska lyfjafyrirtækinu Hikma, 2018-2022, og þar á undan ísraelska samheitalyfjarisanum Teva og Actavis.
„Mallinckrodt gekk í gegnum erfiða tíma frá 2018-2019 og fór í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu frá 2020-2022. Þá kem ég inn sem forstjóri. Í ljós kom að þessi endurskipulagning var ekki nægjanleg, fyrirtækið var of skuldsett, og því þurfti fyrirtækið að endurtaka svipað ferli til að lækka skuldir enn frekar,“ segir Sigurður í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hann segir að vinna sín í byrjun hafi falist í að koma rekstrinum í samt horf og fyrirtækinu aftur á vaxtarbraut, á sama tíma og farið yrði í seinni fjárhagslegu endurskipulagninguna.
Sigurður segir að í Bandaríkjunum séu gjaldþrotalög öðruvísi en í Evrópu. „Hér sækja fyrirtæki um svokallað greiðsluskjól (e. Chapter 11 bankruptcy) sem er fjárhagsleg endurskipulagning og greiðslustöðvun á sama tíma. Árið 2023 förum við sem sagt í þessa seinni fjárhagslegu endurskipulagningu en þá var búið að semja við kröfuhafa fyrir fram. Þetta verkefni kláraðist árið 2023 og var mikil vinna. Í framhaldinu héldum við áfram veginn í átt að meiri vexti.“
Rekstrartekjur Mallinckrodt 2024 voru um tveir milljarðar bandaríkjadala, eða um 270 milljarðar íslenskra króna, og EBITDA-framlegð var um sex hundruð milljónir bandaríkjadala eða um 80 milljarðar íslenskra króna. 2.700 manns starfa hjá félaginu sem framleiðir bæði samheitalyf og frumlyf.
„Í byrjun 2024 seljum við frá okkur eitt af lyfjunum okkar og í framhaldinu skoðum við hvað sé næst á dagskrá. Þá koma upp hugmyndir um að sameinast Endo.“
Sigurður segir að fyrirhuguð sameining, sem tilkynnt var um opinberlega 13. mars sl., sé tímafrek. „Sameiningar fyrirtækja eru flóknari en kaup og sölur á félögum, þar sem kaupandinn hefur meira um málið að segja. Hér er verið að ganga í „hjónaband“ og það þarf að finna sameiginlega lausn á ótal málum áður en tilkynnt er um sameininguna. Það ferli endaði svo með þessari tilkynningu fyrr í mánuðinum.“
Eins og forstjórinn útskýrir er Endo gamalgróið fyrirtæki rétt eins og Mallinckrodt. „Það er mjög svipað Mallinckrodt og hefur sömuleiðis gengið í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfarið. Það kom út úr henni á síðasta ári, 2024. Endo framleiðir líkt og við bæði samheitalyf og frumlyf og stærðin er svipuð, eða um þrjú þúsund starfsmenn.“
Sigurður segir að bæði fyrirtæki séu með megnið af starfseminni í Bandaríkjunum. „Það sagði okkur að mikil samlegðaráhrif gætu orðið með sameiningu. Bæði fyrirtækin þurftu að vaxa og við töldum að fyrirtækin hefðu betri tækifæri til að gera það sameinuð en sitt í hvoru lagi. Það er grunnurinn að því að farið var af stað.“
Heildarvelta sameinaðs félags er 3,6 milljarðar dala, eða 480 milljarðar íslenskra króna.
„Sameinað fyrirtæki verður með þeim stærri í lyfjabransanum þó það nái ekki inn á topp tuttugu. En það kemur í næstu grúppu þar á eftir. Starfsmenn verða 5.700 og veltan er mest í Bandaríkjunum. En við erum einnig með tekjur frá Kanada, Evrópu, Japan og Ástralíu.“