Eflaust þekkja margir þá tilfinningu að vakna upp einn daginn, í kringum tuttugu ára gamlir, og uppgötva að þeir vita nánast ekkert um skattgreiðslur, sparnað, fasteignakaup og lífeyrissjóði. Þetta er svosem ekki skrýtið enda er lítið um kennslu í þessum efnum í skólum og því ekki hægt að gera ráð fyrir mikilli kunnáttu. Þessu vandamáli gera HR og Kauphöllin sér grein fyrir og verður m.a. tekið á því á morgun.
Á morgun fer nefnilega fram Kauphallardagurinn í Háskólanum í Reykjavík og verður þar af nógu að taka. Dagurinn er haldinn í fyrsta sinn í ár og verður þar fræðsla og örfyrirlestrar af ýmsu tagi. Meðal fyrirlestra sem fram fara eru:
· Fyrstu kaup: Ertu að fara að kaupa fyrstu fasteignina?
· Sparnaður: Af hverju að spara og hvaða sparnaðarleiðir eru í boði?
· Unga fólkið: Fjármálafræðsla fyrir ungt fólk
· Nýsköpun: Frá hugmynd að fyrirtæki
· Fjármálalæsi: Hvað hentar mér?
Nánari dagskrá má sjá hér, en Monitor mælir með því að allir sem hafa áhuga á lífinu og bjartri framtíð kynni sér málið hið snarasta.