Viltu hatur eða hús?

Anna Marsibil Clausen
Anna Marsibil Clausen

Á sunnudaginn réðust 40 nýnasistar með hnífum, grjóti, flugeldum og glerflöskum að göngu sem gengin var gegn rasisma í Svíþjóð. Í göngunni voru um 200 manns, þar af margt fjölskyldufólk með barnavagna og eldri borgarar. Þessar aðgerðir eru tilkomnar vegna haturs einstaklinga á fólki af öðrum uppruna en arískum. Fólki sem hefur annan húðlit, fólki sem hefur önnur trúarbrögð. Þessir hatursfullu einstaklingar tóku sig saman og mynduðu  hóp sem ætlað var að berja niður skoðanir annarra með ofbeldi. Hóp sem fyrr eða síðar mun verða einhverjum að bana ef það hefur ekki gerst nú þegar. 


Ég hafði hugsað mér að skrifa krúttlegan jólapistil í dag en þessar fréttir fengu mig til að íhuga ástand mála hér heima.

Á Facebook hafa yfir 3500 manns látið sér líka við hópinn Mótmælum mosku á Íslandi. 3500 manns sem öll sem eitt ala á hatursumræðu í garð múslima og fólks af erlendum uppruna með einföldu „læki“. Margt þessa fólks telur sig eflaust vinna gegn ofbeldi með þessari aðgerð en staðreyndin er sú að hvert einasta „læk“ færir Ísland nær og nær þeim ofbeldisfulla raunveruleika sem Svíþjóð þurfti að reyna á sunnudag. Hatursfullir fordómar eru nasismi, veri hann nýr eða gamall, og það eru slíkir fordómar sem munu koma okkar samfélagi í koll, ekki moska.

Það þarf ekki nema einn hatursfullan einstakling til að valda óbætanlegum skaða. Þessi einstaklingur getur verið af hvaða kynþætti sem er og aðhyllst hvaða trúarbrögð sem er. Í Noregi var slíkur einstaklingur hvítur, kristinn karlmaður að nafni Anders Breivik. Hann myrti 77 einstaklinga.  

Ég á þrjá Facebook vini sem hafa smellt á „læk“ við hópinn Mótmælum mosku á Íslandi. Sú uppgötvun kom mér í mikið uppnám. Það er auðvelt að hugsa „Svona gerist ekki á Íslandi,“ og ég hafði yfirfært þetta á Facebook vini mína. „Fólk sem ég þekki er ekki svona fordómafullt.“
Umræddir Facebook vinir mínir eru í hópi þeirra rúmlega 3500 einstaklinga sem eru ofbeldisfullum hatursmönnum uppspretta eldmóðs. Innan þessa hóps leynist nefnilega fólk sem hefur látið jákvæð orð falla um norska fjöldamorðingjann og ef ekkert er að gert er aðeins tímaspursmál um hvenær hatursfull orðræða breytist í ofbeldisfullar aðgerðir.

 Munum að það eru ekki hús sem drepa heldur hatur.
Ó, og gleðileg jól.

Ástarkveðja
Anna Marsý

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér er að takast að koma skikki á hlutina og átt hrós skilið fyrir allt það erfiði sem þú hefur lagt á þig. Mundu að vinir og vandamenn eru sú stoð sem gott er að hafa.
Loka