Áramótaávarp Jóns Gnarr

Jón Gnarr
Jón Gnarr Facebook.com

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, sendi rétt í þessu frá sér áramótaávarp á Facebook þar sem hann fer m.a. yfir málefni Jesú Krists, Lasarus og trúmál í heild sinni. Ávarpið má sjá í heild sinni hér að neðan.


Áramótaávarp.

Nú eru 2014 ár síðan Jesú fæddist í fjárhúsi í bænum Betlehem í Palestínu. Þess vegna höldum við áramót. Fornleifafræðingar segja reyndar að Betlehem sé ekki nema sona þúsund ára gamall bær. En það skiptir ekki máli hér. 
Þetta er áramótahugleiðing, ekki fræðigrein í einhverju leiðinlegu mannfræðiriti. Lítið er vitað um Jesú hvort sem er nema það að í 3-4 ár rölti hann um með nokkrum köllum og röflaði allskonar um kærleika, sagði dæmisögur, gerði nokkur kraftaverk og var svo drepinn.

Það eru ekki óvenjuleg örlög þeim sem tala mikið um kærleika og svoleiðis. Fæðingu hans bar að með nokkuð óvenjulegum hætti; óþekktar stjörnur blikkuðu á himnum og englar svifu milli húsa og töluðu við fólk. Virtir vitringar mættu í bæinn og tilkynntu að stórmenni væri fætt. Nú skildi maður ætla að æska svona barns væri þá vandlega skráð af foreldrum og aðstandendum og jafnvel yfirvöldum. En svo var ekki. Það eru engar heimildir um æsku hans. Við vitum ekkert um fyrstu orðin hans, hvenær hann byrjaði að labba. Ekki hafa heldur varðveist neinar teikningar eftir hann. Við vitum ekkert hvernig hann þroskaðist eða hvernig honum gekk í skóla eða í samskiptum. Hann bara hvarf og ekkert spurðist til hans í 30 ár. Þá sprettur hann skyndilega fram aftur og lætur þá heldur betur að sér kveða. Hann byrjar á því að breyta fullt af vatni í þokkalegasta vín. Enginn veit almennilega afhverju hann gerði það.

Þetta gerðist í partíi í bæ sem hét Kana. Og sá bær er líklega þekktastur fyrir að vera ekki til. Og hann byrjaði að tala og vera með allskonar meiningar um allt milli himins og jarðar. Hann var rosalega reiður við suma en ofsalega góður við aðra, sérstaklega aumingja. Hann var reiðastur við þá sem búllíuðu aðra í krafti valds eða eða einhverra trúarbragða. Hann sagði að engin lög eða trúarreglur væru kærleikanum æðri. Love is all you need. Og hann byrjaði líka að lækna fólk með kraftaverkum s.s. blindu, holdsveiki, lömun og fleira. Hann rak líka út nokkra illa anda. Hans frægasta kraftaverk var líklega þegar hann vakti Lasarus vin sinn upp frá dauðum. Hann var svo svekktur þegar hann frétti að hann væri dauður að hann ákvað bara að vekja hann aftur upp frá dauðum. Almennilegur vinur það!

Lasarus var auðvitað eins og zombie fyrstu dagana en jafnaði sig fljótt. Jesú hélt áfram að rölta um og halda ræður. Margar ræðurnar voru frekar samhengislausar en hann var fylginn sér og ákveðinn. Og smátt og smátt byrjaði að safnast í kringum hann hópur fylgjenda. Hann valdi sér tólf aðstoðarmenn sem ferðuðust með honum og voru með honum öllum stundum. Þeir fengu engin laun en hann kallaði þá lærisveina. Þeir virðast samt ekki hafa lært mikið því enginn þeirra skrifaði neitt um reynslu sína eða varð eitthvað frægur fyrir að hafa þekkt Jesú. Fjölskyldan hans hélt að hann væri geðveikur og vildi láta loka hann inni. En aðdáendur hans tóku það ekki í mál. Hann átti marga góða vini en líka nokkra valdamikla óvini. Það gerist óumflýjanlega þegar einhver stendur uppí hárinu á búllíum. Svo þegar hann byrjaði að ýja að því að hann væri sonur guðs byrjaði hann að móðga margt mjög trúað fólk. Þegar hann svo fullyrti að hann væri ekki bara sonur guðs heldur guð sjálfur var mælirinn fullur. Hann var handtekinn og svo krossfestur og drepinn.

Maður ætti ekki að vera að tjá sig mikið um trúmál. Það endar yfirleitt illa. Það sannar sagan. Enda er trú trú en ekki vissa og verður ekki hrakin með rökum og allra síst með einhverri annarri trú. Þá fyrst er fjandinn laus 
En þótt búið væri að drepa Jesú var hann hreint ekki dauður úr öllum æðum. Hann lét ekki dauða sinn á sig fá og hélt áfram að tala og framkvæma kraftaverk og annað smálegt alveg þartil hann sveif upp til himna í votta viðurvist.
Sumir trúa því að Jesú hafi í alvörunni verið til. Aðrir trúa því ekki. Ég held að kannski svona 70% af sögunni séu útúrsnúningar eða hreinn og klár uppspuni. Kannski var Jesú kínverskur taóisti sem kom til Galíleu eftir Silkileiðinni. Kannski var hann þræll. Ég trúi því ekki að hann hafi gert nein kraftaverk.

Mér finnst líklegra að hann hafi verið hommi. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli. Sagan er samt merkileg. Hún er um nóbodí sem byrjar að rífa kjaft í samfélagi sem stjórnað er af búllíum. Og jafnvel þótt búllíin hafi, í tímans rás, breytt sögunni og falsað staðreyndir sjálfum sér til framdráttar þá er samt ennþá einhver sannur kjarni í henni. Saga Jesú er sagan um baráttu góðs og ills. Sama sagan og Star Wars, Matrix eða Lord of the Rings. Jesú er jafnmikið Luke Skywalker og hann er Neo eða Frodo. Sagan er saga manneskjunnar og baráttu hennar við aðrar manneskjur og illmenni, en ekki síst barátta hennar við sjálfa sig. Það hefur kannski ekkert svo mikið breyst í þessi 2014 ár. Búllíiin stjórna ennþá og Betlehem er hertekið svæði.

Allir sem reyna að ögra ofríki búllíanna verða hæddir og krossfestir. Eins og Terminator þá lofaði Jesú, í lokin, að koma aftur. En ólíkt Terminator þá hefur hann ekki staðið við það. Ekki enn. Eða hvað? Kannski er hann kominn aftur. Kannski er hann í einangrunarfangelsi í Bandaríkjunum, kúguð kona í Sádí Arabíu eða í stofufangelsi í Kína. Eða jafnvel ofsóttur hommi í Rússlandi. Kannski er hann einhvers staðar á einhverri geðdeild. Kannski var Marylin Monroe Jesú? Við tókum hana, niðurlægðum hana, svivirtum hana og krossfestum við mikil fagnaðarlæti. Og svo endurskrifuðum við sögu hennar. Við misnotuðum hana og gerðum hana svo að kyntákni, svona til að fullkomna niðurlægingu hennar. Það fór fyrir henni eins og Jesú enda eiga aumingjar sjaldnast séns nema í sögum og bíómyndum.

Frodo hefði aldrei unnið í raunveruleikanum. Hringurinn hefði gleypt hann eins og hann gleypti Marylin og Jesú og Sauron réði heiminum. Eins og hann gerir svo víða. Afhverju höldum við alltaf með vesalingunum í skáldsögum en kjósum svo búllíin í raunveruleikanum? Ég skil það ekki. Kannski bara af því að þau eru búllí og búllía okkur ef við gerum það ekki. Með von um búllílaust nýtt ár!

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar