Femínismi
Þetta hugtak er svo mikið hitamál innan samfélagsins að undirritaður finnur hvernig snarkar í lyklaborði hans þegar hann byrjar að skrifa. Samt sem áður langar honum til þess að leika sér að eldinum og skoða umræðuna um hugtakið og hugtakið sjálft.
Hvað er femínismi?
Eitthvað öfgakennt fyrirbæri sem hefur það markmið að skapa mæðraveldi með því að gera konur æðri körlum. Femínismi gerir ekki ráð fyrir jafnrétti af nokkru tagi og er fyrir fólk sem ekki er með öllum mjalla. Er það ekki annars?
Staðfestingin.
Árið 2011 gerði undirritaður, ásamt tveimur öðrum, könnun á meðal þáverandi samnemenda sinna í Verkmenntaskóla Akureyrar um femínisma. Könnunin var einföld og stutt, þátttakendur voru spurðir einnar spurningar: „Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú heyrir orðið femínismi?“. Um 120 svör bárust og svörin voru langflest á þessa leið: „Reið kona með sand í píkunni“ - „Konur að rífa kjaft“ – „Eitthvað drasl“.
Sjaldan lýgur almanna rómur.
Að mati höfundar er þetta er einmitt skoðun margra í nútímasamfélagi og fyrst það er svo þá hlýtur hún að vera rétt. Sagan segir að skoðanir samfélagsins séu ávallt á sterkum rökum reistar og kýrsannar, eða hvað? Hafði fólk kannski rangt fyrir sér þegar það hélt því fram að húðlitur fólks segði til um stöðu þess í samfélaginu? Var það kannski vitleysa þegar því var haldið fram að Gyðingar væru plága? Eða þegar reykingar á tóbaki voru sagðar skaðlausar? Er það möguleiki að viðhorf og skoðanir samfélagsins séu byggðar á röngum forsendum? Gæti verið að sumar skoðanir okkar ættu rætur sínar að rekja til fáfræði og sleggjudóma sem settar eru fram af beturvitrungum á athugasemdarkerfum Internetsins? Sem oft á tíðum virðast vera gróðrarstíur ómálefnalegra umræðna. Gæti okkur skjátlast um hvað það er að vera femínisti? Undirritaður gerir sér grein fyrir að þetta kunni að hljóma fáránlega en vinsamlegast sýnið biðlund og lesið áfram – og nei, hann er ekki fullur...
Hvað er femínismi ? Taka 2.
Femínismi er gríðarlega stórt fræðihugtak og svokallað regnhlífarhugtak. Regnhlífahugtök eru þess eðlis að þau hafa að geyma fjöldann allan af hugtökum, stefnum og straumum. Innan femínisma er svolítið sem heitir jafnrétti kynja, sem gerir ráð fyrir því að kynin séu jöfn á öllum sviðum samfélagsins. Femínisti er sá einstaklingur sem vill sjá jafnrétti milli kynjanna. Kynnið ykkur málið, það er auðvelt, sláið bara inn ,,femínismi“ á Google...
Gagnrýni.
Femínismi er hugmyndafræði sem hefur verið í þróun síðan hún var sett fram. Hún er ekki gallalaus frekar en aðrar hugmyndafræðistefnur og okkur ber að horfa á veröldina með gagnrýnum augum – þar á meðal femínisma. Gagnrýni á femínisma gefur tækifæri til þess að þróa og betrumbæta hugmyndafræðina. Sú gagnrýni verður hins vegar að vera á málefnalegum nótum, á góðum rökum reist og sett fram á þann hátt sem hæfir siðmenntuðu fólki. Undirritaður, sem sjálfur er femínisti (ó já! Hann er einn af þessu ,,liði“), fagnar þannig gagnrýni og telur að nóg sé komið af ómálefnalegu væli sem stundum birtist í fjölmiðlum vorra tíma.
Ertu þú þá svona öfgafemínisti?
Ásamt skrítnum svip, sem gefur til kynna að undirritaður sé með einhvern sjúkdóm, þá er þetta spurning sem hann fær oft á tíðum þegar hann segist vera femínisti. Hvað í fjandanum (afsakið mitt óheflaða orðbragð) er öfgafemínisti? Er það manneskja sem vill setja konur á hærri stall en karlmenn? Ef svo er þá er svarið við áðurnefndri spurningu stutt, einfalt, skýrt og ópólitískt: Nei! Undirritaður vill jafnrétti og það er ekki til neitt sem heitir öfgafemínismi innan hugmyndafræði femínismans. Oft á tíðum eru femínistar sakaðir um að vera öfgafullir í skoðunum sínum en samfélagið á það gjarnan til að dæma eitthvað öfgafullt án þess að hugsa út fyrir það sem talið er vera ,,eðlilegt“. Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta konan sem fór á Alþingi, var til dæmis álitin öfgafemínsti sinna tíma, enda ekki talið eðlilegt að konur sætu á Alþingi árið 1922. Auðvitað er það þó ekki þannig að allir femínistar séu sammála öllum þeim hugsjónum eða baráttuaðferðum sem settar eru fram í nafni femínisma – ekki frekar en að einn vinstri maður sé sammála öllum öðrum vinstri mönnum svo dæmi sé tekið.
Sjúkdómurinn.
Eitt er það samt sem áður sem allir femínistar eiga sameiginlegt. Það er að þeir vilja að jafnrétti ríki á milli kynjanna og vilja gera eitthvað í því til þess að það verði að raunveruleika. Ef þú ert með þetta svokallaða „jafnréttis-heilkenni“ þá verð ég að tilkynna þér að þú ert með femínisma. Þetta er ólæknandi ,,sjúkdómur“ og eru einkenni hans meðal annars réttlætissýn og jafnréttishugsun. Sjúkdómurinn leiðir oft til þess að einstaklingar fara út í jafnréttisbaráttu með ýmsum hætti til þess að vekja athygli á kynjamisrétti.
Að lokum...
Í jafnréttisbaráttu er körlum og konum stundum stillt upp gegn hvert öðru og gera sumir femínistar sig seka um það líka – að undirrituðum meðtöldum. Jafnréttisbarátta er ekki og á ekki að snúast um konur gegn körlum eða öfugt. Réttindi kynja eru fyrst og fremst réttindi allra. Réttindum og tækifærum samfélagsins á að vera skipt jafnt á milli allra en staðreyndin er hins vegar önnur og það þarf að laga! Það verður ekki gert með því að stilla kynjunum upp á móti hvort öðru. Það verður gert með því að einstaklingar taki upp hanskann fyrir hvorn annan, óháð kyni, og byrji að heimta jöfn réttindi og tækifæri fyrir samborgara sína. Það, dömur mínar og herrar, er femínismi.
Ég heiti Gauti Skúlason og er formaður Femínistafélags Bifrastar. Ég greindist með femínisma árið 2011.