Við vitum öll að það er stórhættulegt að senda sms undir stýri en nú hefur komið í ljós að það getur einnig verið hættulegt að senda skilaboð labbandi.
Í nýrri rannsókn frá háskólanum í Queensland í Ástralíu voru 26 sjálfboðaliðar látnir ganga níu metra í beinni línu. Fyrst gengu þeir án truflana, í annað skiptið lásu þeir skilaboð og í þriðja skiptið voru þeir að skrifa skilaboð.
Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að sjálfboðaliðarnir fóru mest útaf línunni á meðan þeir skrifuðu skilaboð. Einnig gengu þeir hægar og með höfuð og háls í stífri stöðu. Jafnframt hafði skilaboðasendingarnar áhrif á jafnvægi sjálfboðaliðanna.
Niðurstöðurnar passa við atburði sem hafa gerst í Ástralíu undanfarnar vikur, en í síðasta mánuði gekk ferðamaður fram af bryggju í Melbourne á meðan hún var að nota Facebook í símanum. Sem betur fer var henni bjargað fljótt.
Vísindamenn í Bandaríkjunum hafa einnig varað við þessu en samkvæmt rannsókn sem gerð var í Ohio höfðu slys sem tengd voru við farsímanotkun og göngu tvöfaldast á árunum 2005 til 2010.