Margir muna eftir „Regnbogamanninum“ sem varð heimsfrægur eftir að hann setti inn myndband á Youtube þar sem hann sér tvöfaldan regnboga eða „double rainbow“. Viðbrögð mannsins, sem kallaður er Bear, eru vægast sagt dásamleg og kallar hann meðal annars „What does this mean?“ eða „Hvað þýðir þetta?“ nokkrum sinnum.
Í kjölfar myndbandsins fékk nemendafélag Menntaskólans Hraðbrautar Bear til Íslands í nóvember 2010 og var það fyrsta ferðalagið af mörgum sem Bear átti eftir að fara í vegna tvöfalda regnbogans. Þegar leikstjórinn Marsibil Sæmundardóttir heyrði af heimsókn Bear sóttist hún eftir því að gera heimildarmynd um hann og fylgdu Marsibil og tökulið Rec Stúdíós Bear eftir í fimm daga.
Nú hefur Arcus Films búið til herferð inn á Kickstarter.com sem leið til að afla fjármagns til að fara í tökur á heimili Bear í Yosemite-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum og klára myndina. Monitor ræddi við Marsibil um verkefnið.
Í fyrsta lagi, af hverju Bear? Hvað kom til að hann varð viðfangsefnið?
„Ég reyndar segi frá þessu í pitch-vídeóinu á Kickstarter-síðunni og opinbera þar smáhliðarsjálf sem ég hef ekki talað um opinberlega áður en að þessu sinni gerði ég það þar sem það kemur óneitanlega við sögu. Ég var sem sagt búin að vera með hugann opinn fyrir útskýringu á „regnboga“ sem mér var sagt frá að myndi koma inn í líf mitt með ákveðna þýðingu. Þegar ég sá að „Regnbogamaðurinn“ væri að koma til landsins var það bara borðleggjandi.“
Hvernig komust þið í samband við hann?
„Eftir að ég sá fréttina með fyrirsögninni „Flytja inn Regnbogamanninn“ hafði ég samband við Odd, þáverandi formann nemendafélags Hraðbrautar, og spurði hann hvort þeim væri sama hvort ég myndi taka upp heimsókn Bear hingað til lands. Oddur sagði já þannig að ég bað hann að spyrja Bear fyrir mig hvort hann væri til og hann sagði líka já. Bear reyndar segir aldrei nei ef hann getur sagt já ef hann er beðinn um eitthvert viðvik, greiða eða þess háttar. Prinsipp hjá honum.“
Hvernig er að vinna með honum?
„Það var rosalega gaman hjá okkur öllum þessa daga sem við ferðuðumst með Bear. Hann er karakter sem verður bara einu sinni á vegi manns, hann er svona eitt eintak.
Hann er eins opinn og hægt er að vera sem manneskja held ég, engar girðingar eða varnargarðar eins og hjá okkur flestum. Hann er hálfgerð blanda af andlegri visku öldungsins og barnslegri einlægni og gleði. Á sama tíma er hann ofboðslega mannlegur og opinn varðandi bresti sína eins og allt annað í sínu fari. Það var hans persóna og þessi tímapunktur í lífi hans sem við náðum á mynd sem tók þetta mun lengra en við ætluðum í fyrstu, allavega alla leið hingað.“
Hvert er markmiðið með Kickstart-verkefninu?
„Markmiðið er að heimsækja Bear og taka upp, nú þremur árum síðar, til að sjá og mynda hvaðan hann kemur og hvernig líf hans er í dag eftir að frægðin hefur rutt sér til rúms í lífi hans. Hvaða þýðingu hefur þetta haft fyrir hann? Hvar finnst honum hamingjuna að finna í dag? Hvaða áhrif hefur skyndifrægðin haft á hið hófsama náttúrubarn. Á Kickstarter, sem er fjöldasöfnunarleið með áheitum, er reglan um allt eða ekkert. Við sem sagt þurfum að ná takmarki okkar á 33 dögum, 88 þúsund Kanadadollurum, annars falla öll áheit sem við fengum niður. Það er því gríðarlega mikilvægt að við náum að kynna verkefnið sem best og víðast til að ná til sem flestra. Í myndinni verður einnig leitað svara við hvað regnbogi þýðir fyrir Bear. Af hverju upplifir hann náttúruna að því er virðist mun innilegar en hinn almenni Vesturlandabúi? Erum við komin of langt frá náttúrunni? What does this mean? hrópar hann og svo er hann heimsfrægur í dag. Tilviljun eða þýddi regnboginn eitthvað í raun og veru fyrir Bear? Hvort sem er þá er óhætt að segja að þessi sami regnbogi breytti lífi hans svo um munar.“
Marsibil bætir jafnframt við að tíminn sem hann var á Íslandi hafi verið mjög sérstakur tími í lífi Bear og að það hafi verið einstaklega magnað að ná honum á þessum tíma á filmu.
Bear er nú orðinn á vissan hátt frægt fyrirbæri og er orðinn meðal annars að sínu eigin meme sem er notast við sem hugtak í dag t.d. Í The Simpsons, How I met your mother, South Park og fjölda annarra þátta og bíómynda.
Miklu máli skiptir að verkefnið fái stuðning í byrjun og minnir Monitor á að margt smátt gerir eitt stórt. Hér má nálgast Kickstarter-herferðina.
Hér að neðan má sjá kynningarmyndband sem gert var fyrir Kickstarter-herferðina þar sem Marsibil fjallar um myndina.
Marsibil Sæmundardóttir leikstjóri