Naglalakkaðir gegn staðalímyndum

Naglalakkaðir unglingsstrákar í Vættaskóla Engi.
Naglalakkaðir unglingsstrákar í Vættaskóla Engi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Sumir halda að strákar megi ekki vera með naglalakk og tilgangurinn með þessu er bara að sýna samfélaginu að það er í góðu lagi. Fólk á bara að ráða því hvernig það er án þess að vera dæmt,“ segir Tómas Guðnason, nemandi í 10. bekk, í samtali við mbl.is en hann átti frumkvæði að því að stór hópur unglingsstráka í Vættaskóla, Engi í Grafarvogi tók upp á því að ganga með naglalakk fyrir um einum og hálfum mánuði til þess að mótmæla staðalímyndum, einelti og fordómum gagnvart þeim sem á einhvern hátt þættu öðruvísi.

Spurður hvernig viðbrögðin hafi verið segir Tómas að þau hafi bæði verið neikvæð og jákvæð. „Það voru alveg nokkrir tímar sem ég vildi helst fela þetta vegna þess að það var endalaust verið að stara á mig. En ég er alveg búinn að fá bæði góð og slæm viðbrögð.“ Þetta hafi þannig verið áhugaverð tilraun. Spurður um framhaldið segir hann að áfram verði boðið upp á naglalökkun í félagsmiðstöðinni Dregyn, þar sem hugmyndin átti upphaf sitt, fyrir þá sem vilja.

Fékk ýmsar athugasemdir og augngotur

„Þetta hefur sýnt manni vel hvernig samfélagið reynir að beina manni aftur inn í normið þegar maður fer aðeins út fyrir það,“ segir Þorsteinn V. Einarsson, verkefnastjóri við Dregyn, í samtali við mbl.is en hann ritaði meðal annars grein um málið á vefinn Frítímann á dögunum sem vakti mikla athygli. Upphafið megi rekja til þess að til hafi staðið að halda dragkeppni í félagsmiðstöðinni en aðeins einn hafi mætt. Fyrir vikið hafi verið skorað á starfsfólkið að láta mála sig og setja á sig naglalakk. Hann hafi síðan í kjölfarið ákveðið að halda naglalakkinu til þess að kanna hvaða viðbrögð það fengi.

Þau hafi ekki látið standa á sér og hafi hann fengið ýmsar athugasemdir og augngotur fyrir vikið. Hann hafi síðan tekið málið aftur upp í félagsmiðstöðinni og lýst því hvernig upplifunin hafi verið af að vera með naglalakk og viðbrögðunum við því. Í kjölfarið hafi skapast umræða um það hvers vegna samfélagið væri með þessum hætti. Þá hafi nokkrir strákar sem hafi verið byrjaðir að naglalakka sig haft frumkvæði að því að kalla saman fund með öllum unglingsstrákunum í skólanum þar sem þetta hafi verið rætt.

Tugir unglingsstráka þátttakendur

„Þannig sprakk þetta inn í unglingahópinn, fjöldinn tók við sér og allir alveg þvílíkt til í að mótmæla þessum forhugmyndum um það hvernig maður eigi að haga sér sem strákur,“ segir Þorsteinn. Um 40 unglingsstrákar taki nú þátt í þessu verkefni. Þessi tilhneiging sjáist víða og tengist umræðunni um einelti og því sem þykir ekki í norminu. Hvort sem fólk er talið of feitt eða of mjótt eða klæða sig einkennilega o.s.frv.

Þorsteinn bendir á að ekki þurfi endilega mikið til og tekur sem dæmi að síðasta sumar hafi hann látið sér vaxa aðeins meira skegg en venjulega. „Þar fékk ég í raun sömu viðbrögð frá samfélaginu. Ég fer aðeins út fyrir normið og það sem telst venjulegt hvað mig varðar og þá fæ ég sömu litlu athugasemdirnar og skilaboðin um að ég þurfi að fara aftur inn í normið mitt. Samfélagið er mjög tilbúið að hjálpa til við það.

Þetta er búið að vera í gangi núna í einn og hálfan mánuð og núna á fimmtudaginn ætla ég að fara yfir þetta með drengjunum. Hvernig þeir hafi upplifað þetta þannig að ég geti tekið svona saman dóm samfélagsins. Það er mjög gaman að því hvað þetta hefur sprungið. Ég hélt að það myndu kannski tíu manns skoða þessa grein mína en þetta hefur aldeilis fengið athygli, sem er bara jákvætt.“

Tómas Guðnason og Rósa Linh eru forsprakkar verkefnisins.
Tómas Guðnason og Rósa Linh eru forsprakkar verkefnisins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir