„Húkkaraballið í gær gekk frábærlega og var það fjölmennasta frá upphafi. Þetta var haldið utandyra í annað skiptið og það hefur gefist frábærlega,“segir Hörður Grettisson í þjóðhátíðarnefnd. Hátíðin verður formlega sett í dag klukkan 14:30.
„Það gist enginn fangaklefa lögreglunnar í nótt. Ég ræddi við lögregluna og þetta var ein rólegasta fimmtudagsnóttin í manna minnum.“
Mun fleiri eru komnir á svæðið nú en á sama tíma í fyrra. „Það stefnir í mjög fjölmenna hátíð. Forsalan gekk mjög vel en við vitum enn ekki hvernig sölutölurnar eru við hliðið í dalinn,“ segir Hörður. Hann vill því ekki fullyrða um hvort þetta verði fjölmennasta hátíðin frá upphafi. „Þetta verður stórt, það er bara spurning hversu stórt.“
Uppselt er í flestar ferðir Herjólfs í dag og á sunnudaginn, en ef fólk vill komast á hátíðina er því bent á laugardagspassann sem í boði er.
Frábært veður er nú í Vestmannaeyjum. „Það er heiðskýrt og logn núna. Við vonum að það verði veðrið sem koma skal um helgina.“
Sem áður segir verður hátíðin formlega sett klukkan 14:30 í dag með barnadagskrá. Í kvöld stígur svo Jón Jónsson á sviðið klukkan 20:30 og frumflytur Þjóðhátíðarlagið sitt, Ljúft að vera til. „Það verður svo Páll Óskar sem endar þetta klukkan fimm í nótt,“ segir Hörður að lokum.