„Þú gleymdir að fæðast með venjulegt andlit“

Selma Björk Hermannsdóttir
Selma Björk Hermannsdóttir Morgunblaðið/Ómar

Selma Björk er sextán ára gamall framhaldsskólanemi sem fæddist með skarð í vör. Fyrir vikið hefur hún mátt þola mikið einelti en hún skrifaði á dögunum einlæga grein þar sem hún sagði frá reynslu sinni. 


Hvernig kom það til að þú skrifaðir grein um reynslu þína?

Ég hef verið lögð í einelti allt mitt líf, eins ótrúlega og það hljómar. Ég hef hins vegar alltaf haft fólk eins og pabba minn sem styður mig mikið og ég hef alveg náð að höndla þetta rétt. Fyrir greinina gerðist það hins vegar tvisvar í sömu vikunni að mér var strítt ömurlega og það var eins og slokknaði bara eitthvað inni í mér. Annað skiptið var ég í íþróttasalnum í skólanum og það var búið að gera grín að mér vegna þess að ég er frekar smeyk við boltaleiki og að fá þá fljúgandi í mig.

Það var búið að spyrja mig hvaða fötlun þetta væri eiginlega að geta ekki farið í boltaleiki. Síðan kom annar strákur sem ég hef aldrei séð áður og spurði „Tengist þetta eitthvað andlitinu á þér? Hvaða djöfulsins fatli er þetta eiginlega þar?“. Nokkrum dögum seinna var ég að tala við stelpu sem var alveg vinkona mín, en hún var eitthvað pirruð út í mig. Ég spurði hana hvað ég hefði eiginlega gert henni og hún svaraði „Hvað gerðir þú? Þú gleymdir að fæðast með venjulegt andlit“.  Ég fékk algjörlega nóg og var alveg að gefast upp. Þetta var mjög hugsunarlaust hjá mér samt þegar ég skrifaði greinina, ég var ekkert stressuð að koma þessu út. Ég skrifaði bara frá hjartanu og var alveg sama, þetta var nákvæmlega það sem ég var að hugsa.

Fer þetta einelti mikið fram á netinu?

Já , þetta er mjög mikið þar. Þannig er þetta heldur ekki jafn augljóst og gerendurnir lenda í minni vandræðum. Einu sinni var ég t.d. í partýi hjá vinkonu minni og þar voru þrjár stelpur sem voru mjög næs við mig allan tímann en voru alltaf að fara inn í tölvuna. Eftirá komst ég síðan að því að þær höfðu verið að baktala mig á netinu við besta vin minn. Ég fór bara úr partýinu og þegar ég kom heim var ég með langa ræðu frá þeim um það hversu ljót og misheppnuð ég væri og þær sögðu m.a. að þær þyrftu allavega ekki að mála sig til þess að vera sætar. Þegar ég sagði þeim að ég hefði ekki verið máluð svöruðu þær „Ó, þess vegna varstu þá svona ljót“.

Væri þetta minna mál ef þú værir strákur?

Já, klárlega. Ég á vini sem eru með skarð í vör og þeir eru ekki að lenda í svona eins og ég. Það er miklu meiri pressa á stelpum og það er líka talað mikið um varirnar á þeim og að þær skipti miklu máli. Allt svoleiðis er mjög óþægilegt.

Ef þú ættir að segja eitthvað við þá sem leggja aðra í einelti vegna útlits hvað væri það?

Aðallega að sama hversu illa þeim líður að láta það ekki bitna á öðrum. Þú veist aldrei hvað er í gangi á bakvið brosið og hvað er að gerast á bakvið tjöldin. Ég er heppin með pabba minn og fólkið á bakvið mig sem hjálpar mér í gegnum þetta en það eru ekki allir jafn heppnir.

Gerendurnir vilja líka að ég brotni, þannig að ég gerði það aldrei heldur setti ég alltaf upp bros. Einu sinni voru t.d. strákar að elta mig og ýta vörinni sinni svona upp og gera lítið úr mér. Ég sneri mér bara við og sagði „Já finnst ykkur ég vera ljót, mér finnst þið samt bara rosa sætir!“. Þeir bjuggust ekkert við þessu og hrökkluðust bara í burtu, en þó ég bæri mig vel var ég alveg með kökk í hálsinum allan tímann. Þetta sogast allt inn og hefur áhrif á mann, annars hefði ég ekkert byrjað að mála mig í 6. bekk.

Finnst þér mikil pressa á fólki í dag varðandi útlit?

Algjörlega, þetta skiptist líka bara upp í hópa. Ef þú átt ekki rétta skó, mætir ómáluð og ert ekki með 100 læk á profile myndina þína þá ertu ekki nógu kúl. Ég komst aldrei inn í þennan „vinsæla hóp“ en ég sóttist heldur aldrei eftir því, það að vera „vinsæll“ þýðir ekkert endilega að þú sért skemmtilegur. Það er mikilvægast að standa á sínu og að láta engan segja sér að maður sé ljótur. Ég fékk skilaboð frá einum strák eftir greinina sem sagði mér að muna að það séu alltaf helmingi fleiri með manni en á móti. Það er gott að hafa þetta í huga. 

Hér sést aðeins brot úr viðtalinu við Selmu Björk. Viðtalið má lesa í heild sinni ásamt ítarlegri úttekt á útlitsdýrkun í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir