Í gærkvöldi sendi Menntaskólinn í Reykjavík frá sér tilkynningu þess efnis að skólinn stæði nú í stríði við Menntaskólann í Hamrahlíð. Fulltrúar skólanna mætast í undanúrslitum Gettu betur á morgun en MH og MR mættust síðast í úrslitarimmu spurningakeppninnar í fyrra.
Ástæður stríðsyfirlýsingarinnar má rekja til þess að MH-ingar hrintu inspector scholae MR-inga, Birnu Ketilsdóttur Schram, í sjóinn í gær. Einnig lýstu MH-ingar húsnæði MR rautt og merktu dyr skólans með stöfum MH. Einnig var verndarstytta MR klædd í MH-bol og látin vera með MH-fána.
Hér að neðan má lesa yfirlýsingu Skólafélagsins í MR.
„STRÍÐSYFIRLÝSING
Frá því ljóst var að MR og MH myndu mætast í undanúrslitum Gettu betur 2014 hefur Skólafélag MR lagt allt kapp á að koma á sáttum milli nemenda skólanna svo að keppnin gæti gengið fagmannlega fyrir sig. Allt kom fyrir ekki og í dag misþyrmdu MH-ingar inspector vorum án nokkurrar miskunnar. Í framhaldi af þessu ógnandi skrefi sem Hamrahlíðingar ákváðu að taka blasti gröf og yfirvofandi hætta við nemendum Menntaskólans í Reykjavík. Í kjölfar þessa máls hefur Skólafélagið reynt að ná málamiðlun og heimtað stöðvun á áðurnefndum athöfnum MH-inga en án árangurs.
Því er það okkur heiður, fyrir hönd nemenda Menntaskólans í Reykjavík, að gefa út eftirfarandi yfirlýsingu:
Í nafni okkar virðulega skóla tökum við áskoruninni og lýsum yfir stríði á hendur Menntaskólanum í Hamrahlíð.“