Þau Þórdís Ívarsdóttir, Skúli Hafsteinn Magnússon og Björn Grétar Baldursson eru nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands en þau telja rétt að lækka kosningaaldur í 16 ár.
Við ákveðinn aldur er börnum ítrekað sagt að þau séu orðin fullorðin og nógu þroskuð til að takast á við ákveðna hluti í þeirra lífi en þegar kemur að því að taka ákvarðanir sem tengjast þeim eru þau ekki nægilega fullorðin til þess að hafa eitthvað um þau mál að segja.
Unglingurinn er barn þegar þeim fullorðnu þóknast og fullorðinn þegar það hentar. Fullorðna fólkið verður að hafa samræmi á milli þess sem það segir við unglinginn og muna að við erum alltaf fyrirmyndir fyrir þeim svo við þurfum að passa það sem við gerum og segjum. Fullorðið fólk gleymir oft að setja sig í spor unglinga og sjá hlutina aðeins út frá sínu eigin sjónarhorni. Það gleymir því að unglingarnir hafa oft aðrar hugmyndir sem eru ekkert verri og eru líka með aðrar leiðir að hlutunum sem fullorðna fólkið sér ekki.
Við verðum líka að muna að það er eitt að læra um lýðræði í formlegri kennslu, til dæmis inni í skólastofu, en það er annað mál að taka virkan þátt í beinni lýðræðisvinnu og sjá hvernig lýðræði virkar í raun með því að taka þátt. Á þessum grundvelli læra þau að virða skoðanir annarra og taka tillit til þess að það hafa ekki allir sömu hugmyndir og þau. Unglinganir læra að taka þátt í virkri umræðu um málefni og setja fram rök fyrir sínum skoðunum. Það gengur ekki fyrir okkur sem fullorðna einstaklinga að tala við unglingana um að virða skoðanir og hugmyndir annarra ef við tökum ekki mark á þeirra skoðunum og tökum þær ekki til greina.
Til þess að raddir unglinga komist að verður kosningaaldurinn að lækka niður í 16 ár. Þá verða stjórnmálamenn að taka meira tillit til þarfa og vilja unga fólksins og verða þar af leiðandi að koma með úrlausnir og hugmyndir um það hvað þeir ætla að gera fyrir unglingana, ætla má að þá muni skapast meiri áhugi fyrir pólitík meðal ungs fólks. Börn og unglingar hafa miklu meira aðgengi að upplýsingum í dag en þær kynslóðir sem á undan voru. Þau eru meðvituð um hvað þau vilja og þau hafa oft sterkar skoðanir á hlutunum og góðar hugmyndir um hvernig á að framkvæma þær. Mikilvægt er að virkja unga fólkið í lýðræðislegum vinnubrögðum og leyfa rödd og hugmyndum þeirra að skína.